27.11.06

Í dauðaslitrunum

Ég er farin að efast um tilvist þessa bloggs eftir fjögurra ára samband. Ef til vill er best að ég hætti þessu áður en þetta verður leiðinlegra og allir eru hættir að lesa. Raunar held ég að flestir séu hættir. Líf mitt er svo óáhugavert að fátt er frásagnar vert. Ekki að það sé leiðinlegt, bara ekkert að segja frá. Eigum við ekki bara að segja þetta gott?

21.11.06

Til hamingju með daginn!

Þessi litla stúlka kom í heiminn fyrir akkúrat ári síðan, mánudagsmorguninn 21. nóvember 2005. Ég óska Svanhildi Leu innilega til hamingju með afmælið!

16.11.06

Frrrrrío

Ya no está nevando, sólo hace frío, mucho frío. La verdad es que hace un frío que te mueras. Ahora hace -5°C pero ha hecho más frío en las últimas horas. Dicen en las noticias que se siente como -35°C (sin viento) por el viento que hace (12-20 metros/segundo). Salir es horrible. En días como hoy sólo quiero estar en mi cama viendo la tele. Trabajar es sólo para heroes.

Húrra!

Það lítur allt út fyrir það að ég sé komin með húsnæði í Kaupmannahöfn. Jeeeeiii!

14.11.06

Ertu með?

Damien Rice er með tónleika í Kaupmannahöfn 22. mars. Kemur þú með?

Brjáluð

(skrifað á sunnudaginn)
Það er líklega einhver blanda af ógeðfelldum draumum, afbrýðissemi, reiði, magapínu, reykingahatri, skorti á samfelldum svefni og almennri skapvonsku sem veldur því að ég hef verið hræðilega óskaplega skapvond í dag. Ástkærir íbúðarfélagar mínir héldu fyrir mér vöku milli klukkan 6:00 og 7:30 með öskrum og tali á ýmsum tungum. Krakkarnir fengu nefnilega gesti. Ef ég hefði ekki verið föst við rúmið mitt vegna svefnsýki og eins vegna vopnaleysis, þá hefði ég líklega rokið fram og lamið þau öll með sveðju. Ekki varð úr slíku og í dag er ég bara hér á Tjarnargötunni en ekki á Litla Hrauni. Fýlan hefur þó ekki aðeins slæmar afleiðingar. Vissulega hef ég hrakið frá mér fólk í allan dag, en á móti kemur að ég ryksugaði ganginn (að hluta til vegna þess að ég vildi pirra krakkana með hávaða - að hluta til vegna þess að ég þurfti að losa orku), þreif herbergið mitt aðeins og henti drasli. Svo tók ég skyndiákvörðun og pantaði flug til Kóngsins Kaupmannahafnar. Nú er sem sé planið að halda utan 9. janúar 2007. Húsnæðisleitin gengur þó ekkert, og bætir ekki í mér skapið. Líklega verð ég þekkt sem starfsneminn sem bjó allt sitt vinnutímabil á hosteli.
Gærkvöldið var annar sæmilega skemmtilegt. Við fengum Danina í heimsókn og haldin var heljar mikil veisla á Óðinsgötunni. Almenn gleði ríkti, og öl og vín flæddi. Kannski ekki viðeigandi á vinnustaðnum. Besta stund kvöldins var þó eflaust þegar klósettið stíflaðist og ég rak handlegginn á kaf niður í leiðslurnar, skvetti klósettvatni utan í allt og alla (mig auðvitað líka) en tókst að lokum að leysa vandamálið. Eftir miðnætti var svo haldið með hópinn á skemmtistaðinn Hressó, og ég kíkti þangað, vonandi í síðasta sinn. Á Hressó spyr maður sig hvert æska landsins stefni. Fyrir utan auðvitað að hlusta á hræðilega tónlist, þá virðist dansinn farinn að líkjast klámdanspíudansinum á MTV. Stúlkur dilla mjöðmunum létt, stífar, um leið og þær strjúka á sér brjóstinn meðan aðrar reyna að lokka athygli pilta með því að kyssa vinkonu og káfa á henni. Og þetta voru EKKI samkynhneigðar stúlkur, ég get svarið fyrir það. Það leið ekki langur tími þar til ég flúði þennan skemmtistað ef skemmtistað má kalla. Kveðjur frá Ölmu jákvæðu.

13.11.06

Einmana á Óðinsgötu

Á sama tíma og mér finnst þetta svolítið skemmtileg hugmynd, sem eflaust lífgar upp á bæi og borgir, þá verð ég að leyfa mér að efast um að þetta hafi mikil áhrif í baráttu fyrir réttindum kvenna. Eins verð ég að taka undir það sem kom fram á RÚV, að ef til vill eru þessi tákn fyrir konu og karl, sem notuð eru til að mynda á salernum, úrelt. Konan í pilsi og karlinn í buxum. Er það eðlilegt?
Ég er ægilega einmana hér á vinnustaðnum, ég mætti ein í morgun og tölvan mín neitaði að fara í gang. Eftir að hafa skúrað og tekið aðeins til þá hófst verkefnaleit. Sú leit gengur vægast sagt illa. Þó hef ég tekið örlítið betur til, prentað út miða, beðið eftir afgreiðslu hjá Vodafone (mjög lengi, þeir mega skammast sín), opnað tölvupóstinn og svarað og borðað plokkfisk. Skemmtilegt það.

9.11.06

Mikill missir

Samband okkar bloggers gengur enn erfiðlega. Í gær skrifaði ég ægilega leiðinlega færslu, en sú er horfin. Ætli honum þyki ég svo leiðinleg að hann geri allt til að þagga niður í mér? Sambönd eru ekki auðveld.
Annars fannst mér þessi frétt afskaplega áhugaverð en að sama skapi algjör synd að ekki skuli fylgja mynd af drengum, sem hlýtur að vera kyntröll mikið. Hví ekki að leyfa alþjóð að njóta fegurðar hans? Maður veit nú samt aldrei, kannski eru búlgarskar skólastúlkur okkur Íslendingum fremri og líta aðeins á hinn innri mann og drengurinn er ljótur og illa vaxinn en klár, góður og skemmtilegur. Spurning.
Í dag komu til landsins danskir nordistar, og Nordklúbburinn ætlar að taka á móti hópnum á laugardaginn. Við ætlum að sýna þeim eitthvað af Reykjavík, fara með þau í sund og á safn, og höldum þeim svo norræna veislu um kvöldið. Morgundagurinn fer því í bakstur og undirbúning. Spennó, spennó! Vill einhver vera með?

6.11.06

Til lukku með daginn!

Þessi tvö eiga afmæli í dag og óska ég þeim innilega til hamingju! Það er ekki laust við að maður sé stoltur af þessu unga og fallega fólki. Grattis Kari!

5.11.06

Nýtt blogg eða ekki?

Miklar vangaveltur hafa farið fram í þykku höfði mínu að undanförnu um hvort rétt sé að sækja um skilnað við blogger.com eftir nokkuð farsælt fjögurra ára samband. Erjur og vandamál hafa komið upp að undanförnu, og engin lausn verið sjáanleg. Ég íhugaði framhjáhald (almalabama.blog.is), en sá svo að ef til vill er gamli góði blogger bara bestur. Því leita ég sátta við blogger og vona að samband okkar verði farsælt.
Í gær ákvað ég á síðustu stundu að ganga gegn nauðgunum (var eiginlega hætt við vegna veðurhávaða en þegar ég kom út var blíðviðri) og brunaði upp á Hlemm. Mæting var nokkuð góð, og gangan fór vel fram, þótt ungir menn á leið á djammið hafi gengið samhliða og spurt hvort þetta væri ganga gegn hórum. Þegar heim var komið, í fötum útötuðum í kertavaxi, var íbúðin að fyllast af fólki, sem fagnaði/syrgði heimför Paolos, sambýlings, sem heldur heim til Ítalíu á morgun. Við kíktum svo á Kúlturakaffihúsið og skemmtum okkur vel, en morguninn var helst til erfiður. Ég er farin að halda að aldur minn leyfi ekki skemmtistaðadvöl fram eftir nóttu, svo þreytt hef ég verið í dag. Það reyndi svo á að fara út úr húsi til að fagna afmæli Elsu frænku (elsku, Elsa mín, til lukku með daginn á morgun!) að ég hef haldið mig í rúminu síðan lurkum lamin. Dagar ungæðisins eru liðnir.