29.10.07
Osló
Ég er í Osló, ekki samt hugarástandinu Osló heldur borginni. Hér fara fram ýmsir fundir, sem ég þarf að sækja og svo er Norðurlandaráðsþing. Ægilega gaman. Fluginu mínu seinkaði vegna snjókomu en það gerði ekkert til. Þetta er í þriðja sinn í röð sem flugi sem ég tek seinkar. Allt er þá þrennt er. Nú ætla ég að fara í H&M.
23.10.07
Heimsókn
Eftir að hafa verið með gesti svona um það bil einn þriðja af þeim tíma sem ég dvaldi í Kaupmannahöfn, hefur verið dálítið skritið að vera bara ein með Jónasi á Sólvallagötunni frá því að við fluttum hingað. Sem betur fer hafa Eva og Sigga þó verið tíðir gestir og fyllt í hið ægilega tómarúm sem ella hefði skapast. Oliver og Skibber gerðu líka sitt með því að koma í heimsókn til okkar í síðustu viku. Drengirnir höfðu keypt miða á Airwaves og því þótt við hæfi að heimilisfólkið hér í Vesturbænum gerði slíkt hið sama. Ég var pínulítið smeyk yfir að ég myndi ekki finna neitt mér við hæfi enda er ég ægilega lítið inni í tónlistarheiminum og hafði lítinn tíma til að kynna mér það sem í boði var. Úr varð því að ég lét mig svolítið fljóta með straumnum, elti Siggu systur og Evu að mestu leyti, og ekki varð ég svikin. Það var ægilega gaman! Oli og Skibbie fóru reyndar stundum á aðra tónleika en við enda drengirnir hrifnir af óeðlilega hörðu rokki. Þeir voru samt líka mjög sáttir með þetta allt saman. Uppáhöldin mín voru líklega The Magic Numbers og Jenny Wilson en svo voru Naflakusk líka skemmtileg.
Helginni eyddi ég því miður ekki á Airwaves. Eldsnemma á laugardagsmorgun hélt ég nefnilega í rútuferð til Kirkjubæjarklausturs þar sem ég dvaldi í fríðum hópi stjórnarfólks í Norræna félaginu við störf. Ferðin var talsvert skemmtilegri en ég hafði búist við en Kirkjubæjarklaustur virkaði nokkuð mikið rólegri bær en í minningunni (Ég var þar nokkrum sinnum þegar ég var rétt skriðin á unglingsár). Það er þó aldrei svo að maður læri ekki neitt nýtt í svona vinnuferðum. Ég komst að því að ég er með andlit á við 19 ára en hendur sem myndu henta 45 ára. Eins voru mér gefnar reglulega fínar hugmyndir á barnsnöfnum, eignist ég einhvern tímann dóttur. Aldrei er neitt með öllu illt.
11.10.07
Bible Camp
Horfði einhver á þátt í sjónvarpinu í gær sem fjallaði um ofsatrúuð börn? Ég varð næstum hrædd við að horfa á þetta. Hvað fannst ykkur?