Ferðin til Englands var afskaplega vel lukkuð, afslöppuð og góð og við Eva (Jónas kannski smávegis líka) gerðum góð kaup þrátt fyrir að breska pundið hækkaði upp úr öllu veldi (eða íslenska krónan lækkaði - kannski rökréttara að segja það) rétt áður en við lögðum af stað og náði vonandi hámarki. Við Eva fórum út á undan Jónasi og fengum afhenta lykla hjá manni sem sagðist sko alveg vita hvað tvær ungar (hann hefur ekki séð 27 árin á okkur) væru að fara gera í Brighton. Það lá eiginlega við að samviskusama saklausa stúlkan í mér móðgaðist við þessi ummæli en ég náði að hemja mig og hreytti því ekki í hann að við værum þægar og góðar og myndum pottþétt ekki drekka okkur sérlega fullar. Enda vorum við nokkuð þæg. Við skoðuðum borgina, sem er mjög skemmtileg, fórum í dagsferð til London þar sem við versluðum í spottprísversluninni Primark. Ég tvo stóra pappírspoka, Eva einn stóran sem þurfti að hafa tvöfaldan til að halda þyngdinni. Um kvöldið hittum við Jónas og fórum út að borða á Garfunkels, mat sem er líklega sá versti sem ég hef smakkað lengi. Einn daginn hittum við svo Joy, vinkonu Jónasar, og fórum til bæjar sem heitir Arundel. Þar fórum við í draugaupplifun í gömlu fangelsi, sem var mjög fyndið.
Eitt af kvöldunum borðuðum við á spænskum tapasstað sem var svo dásamlega góður að í kvöld ætlum við að reyna að endurupplifa stemmninguna með því að elda og borða spænska smárétti. Nammi nammi. Annað kvöld borðuðum við á asísku hlaðborði og komum út full af mat en líklega enn fylltari af matarlykt, blöndu af sojasósu og djúpsteikingarfeiti. Síðusta daginn minn héldum við til höfuðborgarinnar þar sem Eva og Jónas gistu á hóteli eina nótt en ég hélt heim um kvöldið. Af þvi hóteli er að að segja að það hafði verið pantað vegna þess hversu frábærar neðanjarðarlestarsamgöngur voru þar í kring. Illu heilli var stöðin þar rétt hjá lokuð að hluta og sá hluti hennar sem var opinn var ekki í notkun vegna bilunar á línunni sem þar gengur um. Því má segja að Jónas og Eva hafi gist á hóteli sem var ekkert sérstaklega vel staðsett hvað samgöngur varðar og ógeðslegt að nánast öllu leyti. Á gólfinu í Evu herbergi voru táneglur, síminn og fleiri hlutir sem Eva hefði getað nýtt sér. Baðherbergið hjá henni var enn minna en hjá Jónasi þar sem baðherbergið var þó MJÖG lítið. Jónas var svo heppinn að vera með illa lyktandi myglaðan ísskáp í sínu herbergi. Ég ætla ekki að ræða það hversu skítugt þetta var allt saman. Þarna sváfu þau samt í svakakulda í eina nótt en ég var fegin að fara heim.
29.3.08
17.3.08
Takk fyrir mig!
Ég þakka kærlega fyrir skilaboð, símtöl og símtöl með skemmtilegum kveðjum á afmælisdaginn. Sérstakar þakkir fá þeir sem sáu sér fært að mæta í Pólýnesíupartý á Sólvallagötunni. Takk, takk! Til að jafna mig á þeim háa aldri sem ég hef náð og neyslu á tíu ára gamla vodkanum sem var í bollunni á laugardaginn (ég vissi það ekki áður en ég blandaði hana, hélt hann bara svona fimm ára) held ég nú til Suður-Englands í afslöppunarferð. Gleðilega páska gott fólk!