9.7.12

Ferðadagbók frá Spáni: Færsla 2

Titillinn á þessu í dag er reyndar rangur. Við höfum ekki eingöngu haldið okkur á Spáni heldur skelltum við okkur yfir til Frakklands í tvo daga og ætlum reyndar þangað aftur á morgun. Clarisse og fjölskylda búa í tveggja tíma akstursfjarlægð frá San Sebastián. Það var auðvitað frábært að hitta þau öll og Maggi var sérstaklega hrifinn af hundinum hennar, honum George. Bærinn var undirlagður af flamenco-hátíð, spænsk tónlist, dans og matur um allt. Mjög skemmtilegt.

Í gær fórum við til Vitoria, sem er borg í um það bil 100 kílómetra fjarlægð frá San Sebastián, í suðvestur átt. Við vissum svo sem lítið sem ekkert um þessa borg en hún kom á óvart. Hún er mjög falleg og ekki síst mjög hreinleg. Við fórum á olíuflipp, borðuðum steiktar kartöflur, steikta rabas (sem er ekki svo ólíkt smokkfiski, veit ekki hvað það er nákvæmlega) og svo handgert snakk sem var til sölu á Festival de naciones. Festival de naciones er þjóðahátíð sem byggðist upp á sölubásum fyrst og fremst. Margt þarna var nú ekki hægt að tengja sérstaklega við eitt land frekar en annað, til dæmis voru þarna seldir pottar og plastlok til að hindra að sjóði upp úr. Inn á milli voru samt flottir munir, til dæmis babúskur (því miður fundum við enga með Pútín-mynd til að gefa Evu Dögg) og flottar afrískar dúkkur.

Annars nutum við líka laugardagsins hér í San Sebastián þótt við hefðum eiginlega ekki gert neitt sérstakt. Við fórum reyndar út að borða á frekar fínan stað. Það sem var fínt við staðinn var aðallega að hann var dúkaður með hvítu og servíetturnar voru úr taui, allt voðalega hvítt. Eftir að hafa séð parið á næsta borði, sem var með skjannahvítan barnavagn, bæði klædd í hvít og ljós föt og með barnið í ljósum kjól, leið mér eins og subbu. Ekki síst eftir að ég byrjaði að subba allt út með bolognesesósu. Tvær servíettur og dúkurinn urðu sósunni að bráð. Minn hluti borðsins var subbulegri en hjá Magga. Maggi fékk svo að fara út og leika sér á leikvelli. Hann reyndi í sífellu að vega salt við aðra krakka en í hvert sinn sem barnið birtist með sólhattinn sinn létu krakkarnir sig hverfa. Frekar fúlt. Afganginum af deginum eyddum við svo í rölt. Við löbbuðum um gamla hverfið og eins nýrri hluta miðborgarinnar, borðuðum ís og keyptum í matinn. Æðislegt og fáránlegt að Maggi hafi nennt að rölta um svona lengi og gera ekkert.

Í dag ætlum við til Bilbao. Feðgarnir voru að labba út til að fá sér morgunmat þegar þeir sjá mús í garðinum. Hvað gerir pabbinn? Jú, hann hleypur hoppandi inn og lokar út á verönd - en skilur barnið eftir. Vonandi lendi ég aldrei í neyð með honum!

3.7.12

Ferðadagbók frá Spáni: Færsla 1

Núna erum við komin á leiðarenda í San Sebastián í Baskalandi. Júhú! Hér er frábært að vera. Húsið sem við dveljum í er risastórt og mjög flott. Í kjallaranum er borðtennisborð og fótboltaspilsborð, það er risastór garður og fullur kassi af síder-víni sem okkur er skipað að drekka. Reikna þó ekki með að við eigum eftir að standa okkur í því síðastnefnda. Ef það er kúkalykt á einu salernanna þá er það lítið mál. Þá veljum við bara eitthvað af hinum enda eru fjögur salerni í húsinu, eitt baðkar, tvær eða þrjár sturtur og fimm baðvaskar.

Flugið með Wow til London gekk mjög vel. Þjónustan um borð var frábær og tímasetningar stóðust. Maggi var ljúfur sem lamb í fluginu. Hann lék sér bara sjálfur nánast allan tímann, lét pabba sinn splæsa í veitingar og spjallaði við flugfreyjuna. Það er eins og barnið hafi aldrei gert annað en að ferðast. Við gistum á hóteli við flugvöllinn á Stansted, alveg í göngufæri sem var mjög þægilegt. Herbergið var mjög flott með útsýni yfir veitingastað hótelsing og morgunverðarhlaðborðið. Magga fannst þetta samt ægilega skrítið. Hann skildi ekki hugtakið hótel og spurði í sífellu hvar eldhúsið væri eiginlega. Eins spurði hann okkur hvort hótelfólkið væri heima í Bogahlíð.

Í morgun flugum við svo með Easyjet til Bilbao. Flugið gekk líka vel. Magnús var örþreyttur og steinsofnaði og hélt þannig móður sinni félagsskap í farartækjalúrnum. Við tókum svo rútu frá flugvellinum yfir til San Sebastián. Það er líklegt að Jónas fari ekki með okkur Magnúsi í rútu alveg á næstunni. Mér leið hundilla, var líklega bílveik og með höfuðverk í þokkabót. Því reyndi ég að sofa mestalla leiðina. Magnús var aftur á móti nokkuð hress framan af en gubbaði þegar um það bil mínúta var í leiðarenda. Hann lét það ekkert á sig fá, skellti sér úr buxunum á rútustöðinni og tók svo leigubíl með okkur heim til foreldra gestgjafanna. Þau sýndu okkur svo húsnæðið.

Við vorum svo eiginlega einhvers konar blanda af Mr. Bean og Klaufabárðunum þar á eftir. Fyrst fórum við í labbitúr að leita að verslun sem átti að vera í nágrenninu. Við fundum hana ekki og var bent á það af eldri manni að engar búðir væru í göngufæri. Því ákváðum við að keyra af stað. Við fundum til bílstólinn og reyndum að skella honum í. Ekki tókst betur til en að við festum beltið við stólinn sem lá einhvern veginn hálfur utan við bílinn (sem ekki var hægt að loka) og okkur tókst alls ekki að losa stólinn. Þá voru góð ráð dýr en á endanum skrúfuðum við beltisherðigræjuna af og tókst að koma þessu í lag á löngum tíma. Við keyrðum svo beint út í flasið á bróður gestgjafanna sem benti okkur pent á að við værum að keyra í einstefnu. Mjög töff!

Á morgun förum við líklega niður í bæ að skoða okkur svolítið um. Rigningarspáin virðist ekki ætla að rætast nema að hluta svo að við getum notið fullkomins veðurs, rétt rúmlega tuttugu gráður og sól og ský í bland.