15.2.07
14.2.07
Guten Tag Alma Sigurdardottir!
10.2.07
Lítið að segja
Þvottadagar eru skemmtilegir, það er engin spurning. Íbúðin lítur út eins og gerði hafi verið loftárás á hana, peysur í glugganum, handklæði á ofnunum og sængurföt á öllum stólum. Það fer ekki fram hjá neinum sem hingað kemur inn og eflaust ekki nágrönnunum heldur að hér var stórþvottur í gangi. Ofnotkun mýkingarefnis gerir það nefnilega að verkum að stofan ilmar eins og Body Shop.
Vikan hefur liðið á ofsahraða. Ágæt var hún líka. Félagslífið hjá mér er orðið örlítið virkara þökk sé Eddu sem greiðir vinum sínum fyrir að hanga með mér. Þeir buðu mér í pylsur og Sauerkraut í vikunni, sem rann ljúft niður. Reyndar held ég að hvaða matur sem er hefði runnið ljúft niður eftir um það bil klukkutíma langar strætóraunir. Ég beið fyrst góða stund, tók svo strætó sem ekki keyrði nema á næstu stoppustöð og svo gleymdi ég að fara út (og vissi ekki hvar) svo að ég þurfti að hoppa út í miðri Amager og hoppa svo inn í einhvern strætó í veikri von um að sá myndi færa mig til baka. Ég var heppin og þýski rétturinn rann ljúflega niður.
Annars þótti mér ákaflega gaman um daginn þegar ég komst að því að ef til vill er Kaumannahöfn bara álíka mikil sveitabær og Reykjavík. Þá sá ég nefnilega tvo sem ég þekki á einni mínútu. Fyrst sá ég Norræna félagsstrák sem heitir René labba fram hjá en var of mikið blávatn að gera tilraun til að bera fram nafnið hans þegar ég var orðin fullviss um að þetta væri hann. Svo gekk ég niður í neðanjarðarlestina og fyrsta manneskjan sem ég sé var Nordjobbari frá 2004, hann Lasse. Skemmtilegt að sjá hann aftur, enda var hann einn af þessum skemmtilegu.
Enn er pláss á veggjunum fyrir póstkort. Hvenær má þess vænta að fá falleg póstkort frá Íslandi? Spurning hvort ég hengi upp ástarsöguna frá Evu við hlið allra kortanna sem Bjarnheiður sendi? Takk fyrir stúlkur!
*Á myndunum má sjá huggulega þvottahúsið sem við Lárus fórum í og konuna sem benti okkur á að hægt væri að nota vinduna ókeypis, og svo fangelsið/dómshúsin sem ég sé út um svefnherbergisgluggann.