14.2.07

Guten Tag Alma Sigurdardottir!

Ihre Bestellung Nr. 18581 ist versandt! - það er á leiðinni. Er hægt að byrja daginn betur. Bíð núna bara eftir DHL-starfsmönnunum. Dugar ekkert minna undir dýrmætan varning.

10.2.07

Lítið að segja

Þvottadagar eru skemmtilegir, það er engin spurning. Íbúðin lítur út eins og gerði hafi verið loftárás á hana, peysur í glugganum, handklæði á ofnunum og sængurföt á öllum stólum. Það fer ekki fram hjá neinum sem hingað kemur inn og eflaust ekki nágrönnunum heldur að hér var stórþvottur í gangi. Ofnotkun mýkingarefnis gerir það nefnilega að verkum að stofan ilmar eins og Body Shop.

Vikan hefur liðið á ofsahraða. Ágæt var hún líka. Félagslífið hjá mér er orðið örlítið virkara þökk sé Eddu sem greiðir vinum sínum fyrir að hanga með mér. Þeir buðu mér í pylsur og Sauerkraut í vikunni, sem rann ljúft niður. Reyndar held ég að hvaða matur sem er hefði runnið ljúft niður eftir um það bil klukkutíma langar strætóraunir. Ég beið fyrst góða stund, tók svo strætó sem ekki keyrði nema á næstu stoppustöð og svo gleymdi ég að fara út (og vissi ekki hvar) svo að ég þurfti að hoppa út í miðri Amager og hoppa svo inn í einhvern strætó í veikri von um að sá myndi færa mig til baka. Ég var heppin og þýski rétturinn rann ljúflega niður.


Annars þótti mér ákaflega gaman um daginn þegar ég komst að því að ef til vill er Kaumannahöfn bara álíka mikil sveitabær og Reykjavík. Þá sá ég nefnilega tvo sem ég þekki á einni mínútu. Fyrst sá ég Norræna félagsstrák sem heitir René labba fram hjá en var of mikið blávatn að gera tilraun til að bera fram nafnið hans þegar ég var orðin fullviss um að þetta væri hann. Svo gekk ég niður í neðanjarðarlestina og fyrsta manneskjan sem ég sé var Nordjobbari frá 2004, hann Lasse. Skemmtilegt að sjá hann aftur, enda var hann einn af þessum skemmtilegu.

Enn er pláss á veggjunum fyrir póstkort. Hvenær má þess vænta að fá falleg póstkort frá Íslandi? Spurning hvort ég hengi upp ástarsöguna frá Evu við hlið allra kortanna sem Bjarnheiður sendi? Takk fyrir stúlkur!

*Á myndunum má sjá huggulega þvottahúsið sem við Lárus fórum í og konuna sem benti okkur á að hægt væri að nota vinduna ókeypis, og svo fangelsið/dómshúsin sem ég sé út um svefnherbergisgluggann.

4.2.07

Jahá jahá

Þegar ég geng um stræti borgarinnar hugsa ég alltaf upp á einhverju sniðugu að blogga um en svo þegar ég er komin fyrir framan tölvuna virðist allt detta út. Síðustu dagar hafa annars verið ágætir. Ég eignaðist tímabundinn íbúðarfélaga í síðustu viku þegar Lárus vinur Sigríðar flutti inn til mín. Hann er hinn besti gestur, þótt ég reyndar hitti hann mest lítið enda hvorugt okkar mikið verið heima. Helginni eyddi ég að mestu leyti í félagsskap tveggja danskra pörupilta sem buðu mér í sushi á heimili sínu og svo í tveimur partýum kvöldið eftir. Annað partýið var afar undarlegt, matarveisla þar sem nokkrir nánast ókunnugir söfnuðust saman og elduðu mat. Planið var að halda julefrukost en sökum fárra gesta varð úr að eldaðir voru tapasréttir sem þó voru fæstir sérlega spænskir. Maturinn var hörkugóður og fólkið skrítið og skemmtilegt. Í seinni veisluna hélt ég þrátt fyrir þreytu en þar var samankominn hópur áhugapókerspilara sem setið hafði að sumbli allt kvöldið. Það var afar áhugavert að sjá hóp Dana skemmta sér og helst hefði ég bara viljað vera fluga á vegg. Þetta var annars ágætisfólk en ég átti bágt með að bæla hláturinn þegar einn strákurinn strauk kærustunni sinni um vangann og horfði blíðlega á hann um leið og hann söng með einhverju Beyonce Knowles-legu lagi sem kallaðist My Love. Ég hélt ég myndi pissa á mig. Í nótt mun ég deila rúmi með Elise Marianne og á morgun hefst ný vinnuvika. Spennandi?