4.2.07

Jahá jahá

Þegar ég geng um stræti borgarinnar hugsa ég alltaf upp á einhverju sniðugu að blogga um en svo þegar ég er komin fyrir framan tölvuna virðist allt detta út. Síðustu dagar hafa annars verið ágætir. Ég eignaðist tímabundinn íbúðarfélaga í síðustu viku þegar Lárus vinur Sigríðar flutti inn til mín. Hann er hinn besti gestur, þótt ég reyndar hitti hann mest lítið enda hvorugt okkar mikið verið heima. Helginni eyddi ég að mestu leyti í félagsskap tveggja danskra pörupilta sem buðu mér í sushi á heimili sínu og svo í tveimur partýum kvöldið eftir. Annað partýið var afar undarlegt, matarveisla þar sem nokkrir nánast ókunnugir söfnuðust saman og elduðu mat. Planið var að halda julefrukost en sökum fárra gesta varð úr að eldaðir voru tapasréttir sem þó voru fæstir sérlega spænskir. Maturinn var hörkugóður og fólkið skrítið og skemmtilegt. Í seinni veisluna hélt ég þrátt fyrir þreytu en þar var samankominn hópur áhugapókerspilara sem setið hafði að sumbli allt kvöldið. Það var afar áhugavert að sjá hóp Dana skemmta sér og helst hefði ég bara viljað vera fluga á vegg. Þetta var annars ágætisfólk en ég átti bágt með að bæla hláturinn þegar einn strákurinn strauk kærustunni sinni um vangann og horfði blíðlega á hann um leið og hann söng með einhverju Beyonce Knowles-legu lagi sem kallaðist My Love. Ég hélt ég myndi pissa á mig. Í nótt mun ég deila rúmi með Elise Marianne og á morgun hefst ný vinnuvika. Spennandi?