28.4.07

Til hamingju með afmælið!

Þessi dama er ekki sérlega hrifin af að láta taka myndir af sér og því þykir mér við hæfi að láta þessa mynd fylgja. Þið sem þekkið hana vitið að hún er fjallmyndarleg og því er það mikil synd að blítt andlitsfall hennar fái ekki að prýða fleiri ljósmyndir. Sem betur fer er hún nú samt líka falleg að aftan. Þið sem þekkið hana vitið kannski líka að í dag er afmælisdagur þessarar ljósmyndafælnu stúlku. Hún er 26 ára í dag! Innilegar lukkuóskir, Edda mín! Nú ertu sko orðin gömul!

24.4.07

Ef ég bara nennti...

...að blogga. Ægileg bloggleti hefur lagst á mig eins og þykkt ský og ég veit ekki hvort mér tekst að blása því burt. Annars var nóg að gera um helgina og ég þurfti raunar að skrópa á stefnumót vegna annríkis. Aðalástæðan var sú að á Læssøesgade og Blegdamsvej (í húsunum sem snúa að garðinum fyrir aftan húsið) var vinnuhelgi. Þeir sem ekki vildu borga 500 DKK í sekt þurftu því að mæta og taka til hendinni í garðinum. Afrek dagsins eru ekki í frásögu færandi en það var ægilega gaman að borða svo kvöldmat með nágrönnunum í ruslatunnuportinu um kvöldið við kertaljós og hlýju frá gashitara. Áhugavert var eins að heyra sögur nágrannanna af húsinu og því sem í kringum það er. Eins og glöggir lesendur muna er útsýnið úr svefnherbergisglugganum mínum fangelsi sem tilheyrir dómshúsi sem er við hliðina á Blegdamsvejhúsinu. Þar sem mótmæli vegna ungdomshuset hafa verið afar tíð í hverfinu hef ég oftar en ekki skellt skuldina á mótmælendur þegar hávaði neðan af götu, en slíkt er raunar tíður viðburður. Nágrannakona mín skýrði aftur á móti fyrir mér um helgina að öskur ungra karlmanna ættu sér aðra orsök. Fangelsið er sem sé gæsluvarðhaldsfangelsi og heimsóknir þangað eru að sögn afar takmarkaðar. Slíkt veldur vissulega samskiptaleysi milli vina og ættingja fanga en margir þeirra hafa fundið ráð við því. Jú, þeir öskra skilaboð sín á milli. Þeir allra klókustu nota víst ljósskilaboð í þokkabót og börn nýta enn aðrar aðferðir. Téð nágrannakona sagði mér nefnilega líka frá því að í desember í fyrra hafi hún orðið vör við það oftar en einu sinni að börn stóðu fyrir neðan gluggann hjá henni og sungu jólalög fyrir pabba sinn sem sat í gæsluvarðhaldi í Blegdamsfængsel. Mömmurnar voru svo iðulega með í för að hennar sögn og hver annarri skapverri við börnin. Er hægt að hugsa sér eitthvað sorglegra?

Fleiri sögur fékk ég að heyra af fangelsinu. Karlmaður sem búið hefur síðan á áttunda áratugnum á Læssøesgade 25 lýst til að mynda heimsókn tíu mótorhjólatöffara í fangelsið. Nágrannakonan Stine lumaði einnig á fleiru skemmtilegu. Þeir sem svo þekkja mig vita að strípihneigð mín er töluverð og oftar en ekki geri ég mér enga grein fyrir því að ef ég labba berrössuð fram hjá glugga með gardínuna uppi, þá verða nágrannarnir ekki kátir. Stine sagði mér aftur á móti að fangarnir væru hæstánægðir með strípihneigða nágranna og hún hefur víst lent í því nokkrum sinnum að fangarnir hvetja hana til dáða þegar hún afklæðist í svefnherberginu. Eitthvað var stúlkunni illa við þetta og er flutt í stofuna. Nágrannarnir þeim megin geta nefnilega litið undan þegar hún strippar þar, það geta gæsluvarðhaldsfangarnir illa.

Ég gæti sagt frá bráðskemmtilegum bíltúr sunnudagsins en vegna skýsins fyrrnefnda verður slíkt að bíða. Hasta la próxima vez....

12.4.07

Ferðalög

Öspin vill blogg og þá er eins gott að standa sig. Ýmsu hef ég raunar frá að segja, en leti gerir það að verkum að ég nenni ekki nokkrum hlut. Kemur það einhverjum á óvart?

Síðan ég skrifaði síðast hef ég raunar brallað ýmislegt sem í frásögu er færandi en ekki nenni ég að segja frá því öllu. Vel hið besta úr. Um mánaðamótin mars/apríl hélt ég í stórborgarferð til London til að sækja au pair drenginn minn. Ferðin gekk prýðilega og mér til mikillar undrunar virkaði hótelið sem við höfðum pantað sökum lágs verðs bara nokkuð huggulegt. Helst til áliðið var orðið þegar ég skreið upp á herbergi svo að ég skellti hurðinni á eftir mér og hoppaði upp í mjúkt og þægilegt rúmið og sofnaði. Ekki svaf ég þó lengi. Eftir klukkustundardvöl í draumalandinu (mínu Draumalandi, ekki landinu hans Andra) vaknaði ég við að karlmaður gekk inn í herbergið (ég áttaði mig á því nokkru síðar að vissulega hafði ég ekki læst, hélt bara að ég hefði gert það) og sýndi engin merki þess að fara út þótt ég lægi í rúminu. Svefndrukkin mjög og rugluð í meira lagi hóf ég að hrópa að manninum og benda honum á að koma sér út úr herberginu. Sá virtist ekki skilja mig eða hreinlega ekki heyra í mér og endaði á því að ganga inn á salernið til að pissa. Ég reiddist vitanlega við þessa tilburði mannsins og hélt áfram að æpa á hann að hypja sig út en þar eð viðbrögð mannsins voru engin greip ég það vopn sem hendi var næst, baguette-samloku með kjúklingi sem ég hafði keypt á Kastrup. Vopninu beindi ég að baki mannsins, sem undarlegt nokk virtist ekki skelfdur og hélt áfram að pissa. Ég tek fram að litla hjartað mitt sló afar hratt á þessum tímapunkti og vopnaburðurinn var því engan veginn merki um hugrekki. Eftir að gesturinn kláraði sig af á klóinu skipaði ég honum út og eftir örlítið skúbb tókst mér að ýta honum út og loka hurðinni. Ekki fór þó kauði burt heldur hékk hann á hurðinni í einar tíu mínútur og reyndi að komast inn og raunar virtist annar maður vera fyrir utan. Á endanum lét hann sig þó hverfa og ég skundaði niður í móttöku harðákveðin í að fá endurgreitt og halda á annað hótel um miðja nótt, en kannski sem betur fer var enginn þar og mér tókst á endanum að róa taugarnar og sofna. Að öðru leyti var ferðin til Lundúna ægilega ánægjuleg. Ég eyddi laugardeginum í selskap Katrínar. Við keyptum okkur óléttuföt eins og okkur einum er lagið (og nei, ekkert kríli er á leiðinni, bara gott að eiga föt sem hægt er að fitna í) og nutum veðurblíðunnar. Það var ósköp gott að fá au pair piltinn, rjóðan og angandi af karrý. Nú tekur við heilmikil húsþjálfun. Góð ráð eru vel þegin!

Um síðustu helgi hélt föruneyti hringsins til Berlínar. Sú ferð var að mestu friðsamleg og skemmtileg með eindæmum. Við skoðuðum bæði fólk og staði, prófuðum þýska matargerð og leituðum að hvítu Twixi. Ég verð að vera sammála Jónasi um að Þjóðverjar séu skrítnar skepnur. Margir sem við sáum voru eins og klipptir út úr kvikmyndum sem mismunandi steríótýpur; vandræðaunglingurinn sem Jónas minntist á, pönkarinn (með risastóran hanakamb, svartan varalit og í dökkum, rifnum fötum), lesbían og konan sem þurfti alvarlega á makeoveri að halda. Ótrúlegur útgangurinn á mörgum. Mér fannst karrýpyslan, sem ég smakkaði bara nokkuð góð og kebabið á Kepapalula var líka ljúffengt. Hápunktur ferðarinnar var þó líklega barferð á Bierbar - Bei Helga & Marina. Þar voru innréttingar, sem eflaust voru í tísku upp úr 1978 og dynjandi teknótónlist. Eins var kappátið skemmtilegt þótt mér hafi aðeins tekist að ná öðru sæti. Þegar við ætluðum að taka rútuna heim til Kaupmannahafnar seinkaði rútunni um eina tvo tíma þar eð þýska lögreglan hafði áhyggjur af því að rútan væri illa búin. Huggulegt!

Jæja, ég bið lesendur mína vel að lifa.