26.2.08

Finlandia

Já, ferðasagan heldur áfram. Í dag var fundað stíft og mér hálfleiddist enda hafði ég ekkert að segja á þessum fundi. Rætt um samstarfsmöguleika milli míns verkefnis og annarra verkefna sem vitanlega hafa ekkert með Ísland að gera. Eitt var samt fyndið. Í flugvélinni frá Kastrup til Helsini, þar sem ég hitti Martin Halló-félaga frá Danmörku, sat við hliðina á mér maður. Ég glápti svolítið mikið á hann af þeirri ástæðu einni að hann líktist mjög öðrum af Olsen-bræðrunum (þeim hvíthærða), svo mikið að ég skoðaði hann vel til að vera alveg viss um að við hliðina á mér sæti ekki frægur maður. Svo sofnaði ég og hann svaf raunar líka þegar ég vaknaði. Í morgun þegar ég labbaði inn á fundinn í utanríkisráðuneytinu hér í Finnlandi, var þá ekki hjásvæfan mín úr flugvélinni fyrsti maður sem ég sá? Þetta er sem sé ekki Olsen bróðirinn. En líkir eru þeir!

25.2.08

Blogg í punktaformi

Aldrei þessu vant hef ég frá einhverju að segja svo að ætla að blogga í punktaformi:

- Ég sá Gael í leikhúsinu þar sem við mamma og Jónas sátum á fremsta bekk og fengum yfir okkur vatnsgusu, sápusull og púði flaug á lappirnar á okkur.

- Gael var ótrúlega fagur og mig langar eiginlega að fara aftur á sýninguna.

- Í ár gat ég eiginlega ekki ákveðið hvaða lag ég vildi senda í Evróvisjón fyrir Íslands hönd. Wiggle Wiggle Song var uppáhaldið mitt í byrjun en eftir að það var farið út var ég algjörlega óviss. Mér fannst kraftajötnadrunulagið ekki eins fyndið í þriðja sinn og eins afar illa sungið en lagið hjá Eurobandinu var hressilegt og betra í hvert skipti en ég fíla flytjendur þess ekki svo vel (sérstaklega ekki eftir ,,Ég vil" og ,,hæst glymur"-dæmið - mjög halló!). Lagið hans Dr. Gunna þótti mér kannski bara sniðugast. Engu að síður er ég bara sátt við að Eurobandið fer fyrir Íslands hönd, þau eiga ábyggilega eftir að heilla einhverja.

- Ég er núna í Helsinki og verð í Finnlandi fram á sunnudag.

- Í Keflavík hitti ég Möddu og á Kastrup Martin, sem fór svo með mér á Koti pizza í kvöldmat. Ég mæli ekki með Koti pizza.

- Í Kaupmannahöfn stoppaði ég í þrjá og hálfan tíma og eyddi hluta af þeim tíma með sæta gæjanum sem sést hér að ofan (stelpan sem heldur á honum var illa sofin og ljót eftir því). Við fórum ásamt móður hans (sem var mjög gaman að hitta) á McDonald's þar sem við ræddum framtíðarafmælisveislur hins unga sveins.

17.2.08

Króatía

Og sjö mánuðum síðar eru komnar myndir! Næsta ferðalag verður farið eftir rúma viku svo að búast má við myndum úr þeim túr með haustinu.

7.2.08

Að fullorðnast

Ég hef verið minnt á það alvarlega að ég er að verða hundgömul á síðustu dögum. Í gær fékk ég verki fyrir brjóstið og þurfti að aflýsa plönum kvöldsins og hélt mig heima í dag. Ekki var þó um hjartverk að ræða, enda vona ég að langt verði í slíkt. Síðdegis í gær, þegar ég reyndi að leggja mig hringdi síminn stanslaust. Í eitt skiptið hringdi í mig kona sem sagðist hringja frá bílaumboði hér í bæ. Hún spurði hvort mér hefði borist boðskort um að koma á sýningu á nýja Tiguan-jeppanum um helgina. Ég neitaði því að hafa fengið það en konan benti mér þá á það hvað þetta væri frábært tækifæri til að koma með alla fjölskylduna og njóta veitinga í boði bílaumboðsins. Ég held ekki enda er ég óviss um að mamma, Sigga, pabbi og Jónas séu til í að koma með og Óli er náttúrulega úti.
Í dag barst mér svo bréf frá LÍN - vini allra námsmanna - og nú er komið að því allra leiðinlegasta: að endurgreiða námslánið sem ég tók þegar ég fór sem Erasmus-nemi. Ég er samt heppin að vera orðin svona gömul. Varla get ég lengur flokkast sem ,,ungt fólk" og má því horfa á Desperate Housewives sem rétt í þessu var kynnt af þulunni sem ,,ekki við hæfi fyrir ungt fólk".