Ég hef verið minnt á það alvarlega að ég er að verða hundgömul á síðustu dögum. Í gær fékk ég verki fyrir brjóstið og þurfti að aflýsa plönum kvöldsins og hélt mig heima í dag. Ekki var þó um hjartverk að ræða, enda vona ég að langt verði í slíkt. Síðdegis í gær, þegar ég reyndi að leggja mig hringdi síminn stanslaust. Í eitt skiptið hringdi í mig kona sem sagðist hringja frá bílaumboði hér í bæ. Hún spurði hvort mér hefði borist boðskort um að koma á sýningu á nýja Tiguan-jeppanum um helgina. Ég neitaði því að hafa fengið það en konan benti mér þá á það hvað þetta væri frábært tækifæri til að koma með alla fjölskylduna og njóta veitinga í boði bílaumboðsins. Ég held ekki enda er ég óviss um að mamma, Sigga, pabbi og Jónas séu til í að koma með og Óli er náttúrulega úti.
Í dag barst mér svo bréf frá LÍN - vini allra námsmanna - og nú er komið að því allra leiðinlegasta: að endurgreiða námslánið sem ég tók þegar ég fór sem Erasmus-nemi. Ég er samt heppin að vera orðin svona gömul. Varla get ég lengur flokkast sem ,,ungt fólk" og má því horfa á Desperate Housewives sem rétt í þessu var kynnt af þulunni sem ,,ekki við hæfi fyrir ungt fólk".