20.8.03
Jæja, sökum fjölmargra hvatningarorða hef ég ákveðið að lífga við bloggið mitt hinum geysimörgu lesendum þess til mikillar (eða blandinnar) ánægju.
Í dag eignaðist ég dóttur á Indlandi. Reyndar ætti ég ekki að tala í fyrstu persónu þar sem foreldrarnir eru tveir, Sigga systir og ég. Styrktarbarnið okkar er Bellamkunda, tíu ára, sem á sér þann draum heitastan að verða læknir þegar hún vex úr grasi. Uppáhaldsliturinn hennar er rauður og hennar helsta áhugamál að leika sér.
Annars var ég í leiðindum mínum að skoða dagatal frá Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga sem olli vangaveltum hjá mér um hjálparstarf. Hvernig ætli best sé að standa að slíku? Það sem olli dálítilli hneykslun minni voru upplýsingar á umræddu dagatali. Sagt var frá hinum ýmsu þjóðflokkum Afríku og hvernig starf félagsins gengi þar, að sumir væru nánast kristnaðir en aðrir ættu enn langt í land. Það er ég viss um að íslenskir kristniboðar hafa gert mjög góða hluti í fátækum ríkjum Afríku en væri ekki nær að hjálpa þessu fólki með fræðslu eða þjálfun í störfum eða öðru í stað þess að leggja aðaláhersluna á að fræða um líf Jesú Krists? Hefur þetta fólk ekki rétt á að halda áfram að stunda trú sína? Samkvæmt upplýsingum um Bellamkonda, er hún hindúatrúar og fær að halda þeirri trú sem hún vill þótt einhver fræðsla sé um kristni í skólanum. Gott mál það sýnist mér!