16.4.04
Jæja, ég er snúin aftur af Íberíuskaga, sátt með vel heppnaða ferð. Satt best að segja gerði ég ekkert sérlega spennandi, það var nóg fyrir mig að hitta vini og kunningja, hlaupa udan sprengjum og slappa dálítið af...og já, versla örlítið. Þessi ferð hjálpaði mér við framkvæmd þjónustukönnunar Icelandair, enda í þriðja skiptið á árinu sem ég flýg með þeim og í þetta sinn gat ég borið þá saman við Iberia. Flugið út til London var mjög ljúft enda sat ég ein í röð og svaf svo að segja allan tímann eða dormaði og reyndi líka að skilja Spánverjana sem sátu fyrir aftan mig. Iberiuflugið var einnig ágætt, maðurinn sem sat við hliðina á mér var ósköp indæll og strákurinn hans ekkert svo óþolandi. Þar að auki var einn flugþjónninn fremur myndarlegur. Og já...ein flugfreyjan bar eftirnafnið Chocolate, eftir því sem mér best heyrðist. En þau örlög. Ekki myndi ég vilja þurfa að kynna mig: Sæl, Alma heiti ég Súkkulaði. Flugið heim var ekki eins notalegt. Ég sat við hliðina á þremur; þéttvaxinni miðaldra konu, ungum manni og litlu barni. Ég held að þetta hafi verið Brasilíubúar. Barnið var raunar yndislegt, brosti út í eitt og öskraði aðeins á kortersfresti. Líklega hefur konan samt verið dálítið hrædd við mig; ég las í bók, brosti og geiflaði mig framan í barnið og dottaði með reglulegu millibili. Hef eflaust virkað hálfspes. Flugið heim var svo fullt af Íslendingum. Mér finnst ekkert óhuggulegra eftir ferð fjarri heimahögunum að koma á flugvöllinn og heyra íslenskar raddir úti um allt. Flugið var fullt og maðurinn sem sat við hliðina á mér geymdi rauðvínsflösku í klofinu (til að verma hana?? ekki spyrja mig) og nuddaðist óþægilega utan í mig. OJJJJJ! Það var samt mjög fyndið í upphafi flugs þegar flugfreyjan gerði mistök í kallkerfinu, hún mundi ekki nafn flugstjórans og hóstaði svo og hóstaði. :) Það þarf lítið til að kæta mig eftir að hafa hangið margar klukkustundir á járnbekk á Heathrow, nærð á engu öðru en Burger Kingógeði. Ég held ég fljúgi bara beint héðan í frá.