14.2.06
Elt af óheppni
-Hella heitri súpu yfir klofið á sér og taka ekki eftir því.
-Færa tösku og valda því í leiðinni að poki fullur af bjórdósum dettur og verður að mjög blautum poka.
-Kaupa böku og missa helminginn af fyllingunni á gólfið.
-Skellast utan í handfang í rútu með nefinu.
-Hella niður fullu kókglasi í flugvél.
-Ganga á vegglampa.
-Brjóta gleraugu á tveggja metra háum manni.
Flestir þeir sem þekkja mig vel og lesa þetta hugsa sjálfsagt að þetta passi allt vel við mig en ég held að ég hafi slegið met með því að takast að framkvæma þetta allt á einni helgi. Þrátt fyrir allt þetta skemmti ég mér konunglega í Finnlandi. Veðrið var fallegt allan tímann og það var gott að vera úti í kuldanum, spila golf í klofháum snjó, ganga á tveggja manna skíðum og þramma um á snjóþrúgum um skóga Lapplands. Gufubaðið var líka notalegt, sérstaklega af því að það var svo kalt. Ég rúllaði mér um í snjónum að vanda íklædd bikiníi og synti um í jökulkaldri sundlaug, sem þó var innandyra. Í þetta skiptið ákvað ég að vera ekki með í íslaugasundi, þar eð það fór fram klukkan átta um morgun og var án gufubaðs. Sé ekki eftir því. Held að hápunktar ferðarinnar hafi verið eftirpartýin í ósnyrtilegum húsakynnum okkar Bjarnheiðar og eins var gaman að dansa í karókí. Annars var þetta ferðalag mikið ferðalag, svo ég orði þetta illa. Við eyddum ófáum tímunum í rútuferðir, ægilega mörgum í flug og svo bið eftir flugi og annað í þeim dúr. Þegar við komum til Arlanda á sunnudeginum vorum við Jónas orðin svo þreytt á þessu flandri að við ákváðum að senda Bjarnheiði eina til Uppsala og fengum okkur hótelherbergi á flugvellinum. Einhverra hluta vegna lét ég ímyndunaraflið hlaupa með mig í gönur og bjóst við einhverju í dúr við lúxushótel sem ég hef sjaldan dvalið á en ekki var sú nú raunin. Herbergið var samblanda af fangaklefa (bara ekki einu sinni með glugga á hurðinni) og káetu á Viking Line. Það eina sem vantaði var bara vélarhljóðið við höfuðgaflinn. Ég held ég skelli mér bara inn í Stokkhólm næst þegar ég þarf að gista.