30.1.07

Fyrstu fréttir frá Kaupmannahöfn

Ég man að ég hugsaði einhvern tímann þegar ég heimsótti Sunnu og Óla í íbúðina þeirra í Frejasgade að ég myndi aldrei geta búið við að vera með jafnlítið baðherbergi og þeirra. Staðfestnin er ekki meiri hjá mér en sú að baðherbergið hér á Læssöesgade er enn þá minna en kompan hjá Sunnu og Óla. Það hefur því tekið æfingu að baða sig á 40 x 40 cm án þess að reka mjaðmirnar í vaskinn sem tekur góðan hluta af plássinu og eins hef ég íhugað megrun til að komast betur fyrir á klósettinu. Burtséð frá þessu er íbúðinn algjör draumur. Eldhúsið er lítið en afar nýtískulegt, með ísskápi sem er allt of stór fyrir einstæðing eins og mig. Veit einhver hvernig er best að þrífa járninnréttingu? Stofan er öll að taka á sig mynd, leigusalinn lánaði svefnsófa og stól með gæru og eftir Ikeaferð og lánsdót er komið sófaborð, borðstofuborð, stólar, sjónvarp, lampi, hilla og fleira í stofuna. Vissulega er stíllinn afar mínimalískur en þetta er samt sæmilega huggulegt. Svefnherbergið er ekki sérlega huggulegt enda eru engir skápar í íbúðinni (nema auðvitað í eldhúsinu) og því sést allt drasl alltaf. Ég keypti samt rúm sem ef til vill má fela draslið undir og svo er aldrei að vita nema ég klári að taka upp úr töskunum við tækifæri.

Hverfið mitt er frábært, falafel, barir, 7-11, 2nd hand búðir og smörrebröd allt í göngufæri og jafnvel kirkja ef andinn kemur yfir mig. Nörrebrogade er rétt hjá og þar má finna alls kyns skrítnar verslanir og matsölustaði sem selja fæði frá öllum heimshornum. Þrátt fyrir allt þetta lof þá er eitt vandamál varðandi bústað minn. Sá sem bjó í íbúðinni á undan mér var með innskrúfaða skápa á tveimur stöðum og var ekki sérlega penn þegar skáparnir voru fjarlægðir. Því eru stór göt og sprungur á veggjunum og því langar mig að biðja ykkur lesendur um að hjálpa mér. Hver vill senda mér póstkort, ljósmyndir, landakort, teikningar, úrklippur eða annað sniðugt til að hylja vegginn með?

Myndirnar að ofan eru úr útskriftarveislunni hennar Sunnu, Ólakærustu, sem útskrifaðist sem læknir í síðustu viku. Til lukku Sunna!