3.1.07

Nú árið er liðið í aldanna skaut...

Ég vil óska lesendum mínum gleðilegs nýs árs. Vona ég að árið 2007 verði ár heilsu, hamingju og hrikalegra skemmtilegheita hjá ykkur öllum. Að sama skapi þakka ég ykkur innilega fyrir góðar stundir á árinu sem nú er liðið.

Nú er komin ný dagsetning á brottför af landi íss og elda. Ég er sem sé ekki enn farin, þið sem ekki fylgist með. Áætlunin er núna að halda til Danmerkur 10. janúar næstkomandi í fylgd Aspar. Ég er þegar farin að taka niður pantanir um gistingu, og býð öllum skemmtilegum að hafa samband ef leiðin liggur til Kaupmannahafnar á næstu sex mánuðum. Hafi einhver sérlega gaman af því að strauja og pakka niður er viðkomandi bent á afar spennandi verkefni sem unnið verður að hér á Kleppsveginum næstu vikuna. Endilega hafið samband!

(Ég sé núna að myndin sem ég valdi er engan veginn viðeigandi, en ég fer ekki að skipta núna. New York er ekkert svo ólík gamlárskveldi í Reykjavík, er það?)