5.3.07

Friður í nánd?

Einhverra hluta vegna finnst mér þetta ein fyndnasta frétt, sem ég hef lesið í langan tíma. Ég veit ekki hvort mér finnst fyndnara hvernig mótmælandinn lýsir því yfir að hann borði nú stundum McDonald's þegar hann fer út að skemmta sér eða lýsing lögregluþjónsins á því hvernig grænmetisæturnar hefðu átt að leysa málið. Einhvern veginn er ég ekki viss um að látunum sé lokið. Heilmikill hasar var hér rétt fyrir utan gluggann hjá mér um helgina, og áðan sofnaði ég við ljúfan nið hávaðamótmælagöngu.
Frá því að ég bloggaði síðast af viti hefur annars ýmislegt skemmtilegt og óskemmtilegt gerst í Kaupmannahöfn. Til dæmis þetta:

- Lárus flutti út. Hverfið bíður þess seint bætur.
- Ég fór í ofurverslunarferð í Fields til að kaupa fjórar afmælisgjafir og forðast brjálaða mótmælendur og ofurgæslu lögreglunnar á brúnni rétt hjá heimili mínu.
- Ég kláraði að horfa á aðra seríu í Grey's Anatomy. Ætli fólk hafi verið lagt inn vegna sýki í þennan þátt? Ég hugsa að ég sé eins nálægt því að vera lögð inn og hægt er.
- Þvottahúsinu sem við Lárus heimsóttum var lokað vegna óláta og skemmdarverka í hverfinu. Eftir 28 ára starfsemi. Það runnu næstum tár á hvarma mér.
-Ég er farin að þjást af svefnleysi. Vakna milli fjögur og sex. Ég ætti að leigja mig út til barnafjölskyldna.
- Óli og Sunna aumkuðu sig yfir MIG og tóku mig með vinafólki út að borða. Þetta var huggulegt kvöld, sem endaði með því að miðaldra tittur hellti bjór yfir mig eftir að hafa sagt mér í annarri setningu samtals okkar að ég væri með flott brjóst. Æðislegt þegar karlmenn koma sér beint að hlutunum.
- Lárus bauð í mat. Ég gaf honum þrista í innflutningsgjöf. Ég er að spá í að kaupa salt næst þegar ég fer í heimsókn, jafnvel þótt piparinn hans sé ægilega góður.
- Alexandra er ekki lengur prinsessa, nú er hún greifynja. Er ekki gæinn hennar dálítið ungur? Sætur er hann a.m.k.