20.3.07

Takk já takk

Ég átti aldeilis huggulegan afmælisdag í síðustu viku, þökk sé öllum ykkar sem hringduð eða senduð kveðjur. Sérstaklega ykkur sem hringduð á heilbrigðum tíma. Takk! Gracias! Tak! Thank you! Merci! Helgina fyrir afmælið var ég líka svo heppin að fá Bjarnheiði í heimsókn. Það er ekkert eins gott og að hitta hana svona rétt áður en eitt ár bætist í safnið og æfa sig fyrir eldri ár. Við Bjarnheiður reynum nefnilega að ná upp svefni fyrir næstu vikur og mánuði þegar við hittumst. Á einhvern óskiljanlegan hátt virðumst við sjúga orku hvor úr annarri sem gerir það að verkum að við verðum að leggja okkur í sí og æ og við höfum ekki einu sinni kraft á við astmasjúka um áttrætt. Þannig sofnuðum við í selskapi gesta okkar hér á Læssöesgötu og þurftum að leggja okkur eftir myndlistarsýningaferð með danskri vinkonu. Engu að síður var ægilega gaman að fá Bjarnheiði í heimsókn og ég vona að hún finni sér annað tækifæri til að kíkja hér við.
Á afmælisdaginn bauð ég vinnufélögum upp á köku, sem því miður var aðeins of holl, borðaði hádegismat á snobbaða kaffihúsinu á Norðurbryggju og fór svo út að borða með Sunnu og Óla um kvöldið. Við borðuðum á huggulegum tælenskum stað og nutum þess að horfa á klám á næsta borði undir annars ægilega góðri máltíð. Í tilefni þess að ég var orðin 26 ára ákvað ég að gæta þess að spara kraftana. Því eyddi ég fyrsta deginum á þessum háa aldri í svefn, kom heim úr vinnu og lagði mig svo frá klukkan 18 - 23. Er þetta eðlilegt fyrir gamalmenni á mínum aldri? Um síðustu helgi fékk ég svo að tala spænsku við tvær sparsamar argentínskar stúlkur sem dvöldu hér í borg og gengu borgina á enda. Það var gaman! Síðar um daginn komu svo Þórhildur, sem var með mér í MR, og Tobias kærastinn hennar í heimsókn. Við borðuðum saman og þau gistu hér, það var satt best að segja verulega huggulegt! Heimsóknirnar taka engan enda að því er virðist. Kari Finni, Sigrún Þöll og Heiðdís koma á fimmtudaginn og svo er von á au pair piltinum mínum um mánaðamótin. Þá verður sko kátt í höllinni!