27.7.07
Klukkleikur
1. Þegar ég var lítil fannst mér gaman í ,,mömmó" en ekki hinum dæmigerða dúkkuleik. Í mínum leikjum var ég ávallt einstæð móðir á flótta, ýmist undan skattayfirvöldum eða brjáluðum barnsföður. Nánast án undantekninga flúði ég á báti og lenti í óveðri. Sigga var ekki sérlega sátt við að vera elsta barnið sem þurfti að vera ábyrgðarfullt.
2. Ég hef aldrei verið saumuð, en reyndar þurfti einu sinni að skella einu spori á tannholdið þegar dreginn var úr mér endajaxl.
3. Þegar ég var unglingur var ég skotin í Tom Hanks, sem er 25 árum eldri en ég. Mér fannst hann sætastur allra leikara.
4. Á leikskóla var ég yfirleitt ægilega þæg en þótti sá stimpill líklega eitthvað leiðinlegur þar eð ég dundaði mér á tímabili við að rífa bækur og henda þeim bak við sófa. Ég var með samviskubit yfir þessu í langan tíma en man ekki eftir að þetta hafi uppgötvast, a.m.k. grunaði engan engilinn mig.
5. Eina prófið sem ég man eftir að hafa svindlað á (fyrir utan stafsetningarpróf hjá Nebba í 8. bekk) er kristinfræðipróf í 4. bekk. Þá kíkti ég á svarið hjá Gunnari bekkjarfélaga mínum og mundi rétta svarið. Þetta hvílir enn á samviskunni.
6. Í 9. bekk fór bekkurinn minn í skólaferðalag. Við stelpurnar vorum í góðu áliti hjá kennaranum en strákarnir ekki eins. Við tókum okkur til og sprautuðum tómatsósu úr pylsusalatómatdunki á borðið og kenndum svo strákunum um. Þeir fengu skammir en við stelpurnar hlógum.
7. Þegar ég var lítil laug ég því að ég væri með ofnæmi fyrir sinnepi þar sem mér þótti það vont. Enn þann dag í dag borða ég sjaldnast sinnep, en ég er hætt að afsaka það með ofnæmi.
8. Eva vinkona mín manaði mig gjarnan upp í hluti, sem þó yfirleitt tengdust undarlegum klæðaburði eða stælum við pítsasendla. Einu sinni tókst henni þó að mana mig upp í að reyna við afgreiðslumanninn í kjörbúð hverfisins, en sá starfaði einnig sem kennari við skólann okkar. Vart kynþroska reyndi ég að sanna mig og snerti hönd afgreiðslumannsins þegar hann rétti mér afganginn. Held að það hafi verið eitthvað alvarlegt að hjá mér.
Ég klukka Hlíf, Catiu, Sigrúnu Þöll, Jónas og Magdalenu.
23.7.07
Sveitasælan
5.7.07
Torsdagsdemo við Blegdamsvej fængsel
Á hverjum fimmtudegi eru haldin mótmæli, sem mér skilst að tengist niðurrifi Ungdomshusets margumrædda. Dagurinn í dag var engin undantekning en að þessu sinni heyrðum við aldeilis vel í mótmælendum. Í hellidembu marseruðu dökkklædd ungmenni ásamt tilheyrandi lögreglumannagengi í götuna og líktist þetta einna helst líkfylgd. Talsverður hávaði fylgdi þeim en lækkað var í tónlistinni og hópurinn stoppaði fyrir utan fangelsið, sem finna má í bakgarðinum hér á Læssøesgade. Hóf þá ungur maður raust sína en sá vildi hvetja vini bak við rimla. Við Jónas hlupum milli glugganna sem snúa að götunni og eldhúsglugganum sem vísar að fangelsinu til að fylgjast með viðbrögðum fanganna, sem virtust ánægðir með heimsóknina. Égvar samt örlítið hugsi, ætli allir fangarnir sem hlustuðu á hvatningarorð svartfrakkanna og veifuðu á móti sitji í gæsluvarðhaldi vegna mótmæla? Getur ekki verið að þarna séu líka ofbeldismenn eða þjófar? Með fylgja myndir af herlegheitunum. Ef grannt er skoðað má sjá glytta (er það kannski glitta?) í fangana í gluggum fangelsisins.