2.7.07

Hórkarlinn Travis

Á uppáhaldssjónvarpsstöðinni minni er um þessar mundir verið að sýna þáttinn vinsæla um piparsveininn eða hórkarlinn eins og ég kýs fremur að kalla hann. Að þessu sinni berjast ungmeyjarnar um lækninn Travis. Þátturinn gengur vitanlega út á hið venjulega, hórkarlinn kynnist dömunum á stefnumótum og dreifir svo rósum til þeirra sem honum þykja heppilegar til undaneldis. Þær sem ekki fá blóm halda heim á leið grátandi. Að þessu sinni fer leikurinn fram í Frakklandi og er París að sögn hórkarlsins frábær borg til að hitta hina einu réttu. Valið er þó erfitt. Stefnumótin hjálpa vissulega. Travis fer með dömurnar út að borða, þau spóka sig í sundlaugum og heitum pottum og eins gefur hann þeim gjafir. Í þættinum í kvöld fóru þau líka í hjólakeppni, sem kölluð var Tour de France. Þannig kynnist hann dömunum og áttar sig á alvarlegum göllum. Mér virðist hann þó ekki kynnast dömunum eins vel og í íslensku útgáfu piparsveinsins. Í kvöld voru Susan og Jehan sendar heim. Önnur þótti of mikið fyrir sopann en glæpur hinnar var alvarlegri. Hún hafði verið gift. Það vita allir að tilvonandi hórkarlaeiginkonur mega ekki eiga sér hjónabandsfortíð á sama hátt og fegurðardrottningar mega ekki eiga afkvæmi. Ég held að hápunktur þáttarins í kvöld hafi verið síðasta mínútan. Eftir augljóslega allt of langa dvöl í Frakklandi var nefnilega komið upp alvarlegt vandamál meðal kvennanna og hórkarlsins. Jú, maturinn. Franskur matur þykir þeim nefnilega alls ekki góður. Sem betur fer var þetta þó leyst. Hrúgur af klesstum hamborgurum ollu fagnaðarópum meðal stúlknanna. Ekkert betra en ekta amerískur matur. Ég spyr sjálfa mig af hverju ég eyddi ekki frekar kvöldinu í að pakka í kassa en að horfa á þennan frábæra þátt.