16.7.08
Oppland 3
Allt gott að frétta frá Noregi annað en að ég hef engin bréf fengið. Er vægast sagt svekkt þar sem allir hinir krakkarnir eru búnir að fá. Í dag fórum við í ferð á eldgamlan sveitabæ uppi í fjöllunum. Það var ískalt úti svo að krakkarnir hálfskulfu margir hverjir. Börnin skoðuðu beljur og fóru í leiki og svo fengum við að smakka ekta norskan mat, graut með smjöri og kanel og einhvers konar skinku. Grauturinn var öðruvísi, skinkan mjög góð. Þjóðakvöldin tókst ágætlega. Flestir smökkuðu harðfisk og flatkökur með hangikjöti og margir bitu í lýsisperlu. Að minnsta kosti tveir köstuðu upp. Núna á að kveikja eld svo að ég ætla að skella mér út. Bíð eftir póstkortum og bréfum.
12.7.08
Póstkort og bréf
Langar þig að senda mér bréf? Utanáskriftin er þessi.
"Name" "Country"
CISV "Unique village"
C/o Bjørnsgård skole
N- 2849 Kapp
NORWAY
9.7.08
Oppland 2
Það er svo gaman að hafa skrifað eitthvað um sumarbúðadvölina svo að ég nota þetta bara eins og dagbók, jafnvel þótt ekki verði þetta áhugavert að lesa. Börnin mættu á svæðið og friðurinn er vissulega úti en samt eru lætin í þeim alls ekkert svo mikil, ekki enn. Flestir krakkanna eru ósköp þægir og algjörar rúsínur. Aðrir eru tjah...fjörugri. Við höfum enn ekkert farið út úr búðunum með krakkana, vonandi förum við bráðum niður að vatni að baða okkur. Það er svakalega heitt úti, ég búin að brenna en krakkarnir sem betur fer ekki. Sem sé allt með kyrrum kjörum. Fylgjast má með búðunum á cisvuniquevillage.blogspot.com. Lítið fram hjá því hvað myndirnar af mér eru óóóóógeðslegar!
6.7.08
Oppland 1
Þá er ég mætt í búðirnar eftir frekar tímafrekt ferðalag hingað. Raunar var tveggja tíma seinkun á fluginu okkar en við vissum af því fyrirfram og gátum því sofið auka tvo tíma. Vitanlega þurfti ég samt að vakna kl. 4 til að athuga hvort tíminn stæðist þannig að ég var frekar þreytt þegar við komum á áfangastað eftir flug, tveggja tíma hangs á flugvellinum, tveggja tíma rútuferð til Gjövik (bílstjórinn virtist sikksakka svo að ég var hálfbílveik hluta leiðarinnar) og svo bílferð til Kapp þar sem skólinn sem búðirnar verða haldnar er. Þetta er fínasti staður, fallegt hér í kring og allt í góðu gengi. Við gistum allir kvenkynsfararstjórar og JC-ar (unglingastarfsmenn) í einni skólastofu á dýnum svo að það er hálfgerð náttfatapartýsstemmning. Starfsfólkið í búðunum er svakalega indælt og við búin að læra heilmikið af þeim meðan börnin dvelja hjá gistifjölskyldum. Seinna í dag koma samt krakkarnir og þá býst ég við að friðurinn sé úti. Eða ég eiginlega veit það. Þarf að fara að undirbúa komu barnanna, þrífa og fleira. Læt í mér heyra fljótlega þar sem hér er þráðlaust internet! Jei!
3.7.08
CISV
Á föstudagsmorgun held ég í fjögurra vikna ferð til Noregs þar sem ég mun vera fararstjóri í sumarbúðum CISV fyrir 11 ára börn. Ég held að ég hafi aldrei farið í ferð sem krefst jafnmikils undirbúnings en að sama skapi hef ég aldrei átt eftir að gera jafnmikið einum degi fyrir brottför. Það liggur við að ég fái hjartsláttartruflanir af að hugsa um það. Börnin og foreldrar þeirra hafa safnað ógrynni skiptidóts og alls kyns hluta og matar sem við munum nota til að skiptast á og eins til að gefa öllum í búðunum. Þannig er ég nánast búin að fylla eina ferðatösku af súkkulaðistykkjum, grjóti, seglum með íslenska fánanum og íslenska fánanum í öllum stærðum og gerðum. Enn á þá hellingur eftir að fara ofan í töskuna...harðfiskur, lýsisperlur, hangikjöt, flatkökur og ferðagögn. Ég verð svo þreytt af að hugsa um þetta að ég bara verð að fara að sofa.