21.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 2. færsla

Letilífið heldur áfram hér í Orléans og spurning hvort ekki þurfi að venja okkur af þessari leti. Sólarhringnum hefur verið snúið við hjá Magnúsi sem í kjölfarið sefur aðeins lengur á morgnana, svo lengi í morgun að Jónas var kominn á fætur á undan honum. Eftir að hafa borðað morgunmat og eytt óeðlilega löngum tíma í að koma okkur í sturtu og föt héldum við í labbitúr. Við gerðum tilraun til þess að finna stað sem selur ódýrara crépes-pönnukökur en þrjósku minnar vegna fundum við ekki staðinn fyrr en í síðari labbitúr dagsins. Pönnukökurnar bíða því betri tíma, sem líkast til verður á morgun.

Ferðinni var svo heitið í hringekju sem stendur á risastóru torgi. Þetta er rosalega flott gamaldags hringekja, meðal annars með hestum sem lyftast upp og niður. Það þarf vart að tilkynna að Magnús er stórhrifinn. Við nýttum því strax annan af miðunum sem franska fjölskyldan skildi eftir handa honum. Maggi rétti starfsmanninum miðann orðalaust enda skildi hann ekki orð af því sem maðurinn reyndi að tala við hann og hóf svo að skríkja af ánægju. Hann skríkti hálfa leiðina í hringekjunni og grét svo þegar átti að halda burt. Við náðum aðeins að deyfa sorgina með því að skoða skó í skóbúð og smám saman hætti hann að hugsa um þetta, þó staðráðinn að prófa hringekjuna sem fyrst aftur. Við gerðum það raunar síðar um daginn, og ekki var gleðin minni þá. Við sjáum fram á að þurfa að splæsa í hringekjuferð í hvert skipti sem við göngum þarna fram hjá, sem sé um það bil tvisvar á dag.

Annars gengum við eiginlega bara um í allan dag, gengum um bæinn og skoðuðum mannlif, hús og búðarglugga, gengum meðfram Loire-ánni og settumst þar á stétt og fengum okkur hressingu. Við gerðum einnig slæm kaup, keyptum minniskort í myndavélina á kostakjörum en uppgötvuðum svo að það var of stórt og líklega fullkomið fyrir myndavélina okkar svo að við héldum aftur í sömu búð síðdegis til að kaupa kort sem virkar. Ef einhvern vantar SDHC minniskort, þá er um að gera að blikka mig. Eins keypti Jónas ódrekkandi rauðvín, og við mat sem að hluta til var frekar slappur. Við fórum nefnilega á kínverskan veitingastað í hádeginu og borðuðum þar að hluta mjög ljúffengan mat en að hluta hálfvondan. Þjónustan var samt afskaplega skemmtileg, þjónarnir reyndu að eiga samskipti við Magga, prófuðu að tala við hann hollensku en það virkaði lítið. Því kenndi ég honum að segja takk og benti honum svo á að herma eftir frönskum gæja á næsta borði. Sá var líklega fimm sinnum eldri en Maggi og kunni því alla kurteisissiði upp á tíu. Hann setti servíettu í hálsmálið - nokkuð sem mér tókst að fá Magnús til að apa eftir, og tók svo í höndina á þjóninum og þakkaði fyrir sig. Maggi gerði slíkt hið sama, enda orðinn sprenglærður í franskri tungu, greip í höndina á þjóninum sem var alveg óviðbúinn og splæsti einu Merci á kauða. Heimsmaður á ferð!

Við vorum líka bómullarforeldrar í dag. Fórum nefnilega á leikvöll síðdegis til að skemmta litla rassi. Leikvöllurinn var inni í hálfgerðum hundagarði en leikvöllurinn sjálfur var girtur og lokað með hliðum beggja vegna. Eftir ágæta stund við leik, kom allt í einu maður inn á leikvöllinn og stóð þar. Við Jónas fengum bæði voðalega slæma tilfinningu fyrir þessu eftir að maðurinn hafði staðið góða stund og ekki virst eiga neitt erindi þarna. Það endaði því með því að við flúðum leikvöllinn frá manni sem ábyggilega ætlaði að hitta vin sinn eða lítil frændsystkini. Gott að vera með ofsóknaræði.

Annars hélt rigningin sig víðs fjarri frá því í morgun og þar til í kvöld og sólin náði meira að segja að gægjast gegnum skýin. Uppáhaldsorðið hans Magga þessa dagana er að sóla sig og hann segist sóla sig eins og amma í Sólheimum. Hann missti þó því miður af sólarglætunni en náði kannski nokkrum geislum í kerruna þar sem hann svaf. Það er þó hæpið að nokkuð verði af sólbaði á morgun, það virðist ætla að rigna allan daginn. Líklega hefðum við frekar átt að pakka sjóstökkunum okkar en sólarkreminu...