23.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 4. færsla

Það lítur út fyrir að við séum öll annaðhvort að fá kvef eða komin með ofnæmi, í hið minnsta við Jónas en mögulega Maggi líka. Við lítum alltaf út fyrir að vera afskaplega óhamingjusöm, með tárin í augunum nema þá að fólk álíti okkur hassreykingafólk. Það er auðvitað möguleiki líka. Bara gaman!

Í dag fórum við í hjólatúr meðfram ánni Loire. Við hljóluðum enga svakalega vegalengd enda var stýrið á hjólinu sem ég notaði bilað og dálítið hættulegt að vera með körfu framan á og barnastól aftan á þegar stýrið byrjaði snögglega að beygja í aðra átt en framhjólið. Þetta kom þó ekki að sök, bara olli því að við ákváðum að fara ekki mjög langt. Við vorum skemmtilegir foreldrar aldrei þessu vant og eyddum góðri stund á tveimur leikvöllum, Magga til mikillar gleði. Hér eru sjóræningjaskip á öllum leikvöllum, sem passar vel þar sem drengurinn segist vera besti stýrimaður í heimi, eins og Pingó í Rasmusi Klumpi. Það var kannski ágætt að stýrið var bilað, þar sem við styttum dvölina þarna við ánna í annan endann og komum þannig í veg fyrir að verða holdvot þegar byrjaði að rigna, við urðum bara þó nokkuð mikið vot. Rigningin fór reyndar ekkert í taugarnar á besta stýrimanni í heimi, sá sofnaði í hjólasætinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að halda honum vakandi.

Eftir svefnpásu héldum við svo á rölt um bæinn, keyptum skóbúnað á Jónas og versluðum í matinn hjá afskaplega hressum afgreiðslumanni í Carrefour sem lagði sig fram við að bera allt fram á ensku, vildi greinilega æfa sig...törtí fæv sagði hann og horfði á mig spyrjandi til að vita hvort þetta væri rétt hjá honum. Við elduðum svo kúskús og kjöt og hengum í sófanum og reyndum að brjóta eins og einn myndaramma. Nóg að gera í la France!