27.7.04

Áhugasviðspróf

Já, ég hef tekið nokkuð slík en best hefur mér alltaf þótt að prófa mig bara áfram. Þannig hef ég horft á nokkuð margar spennumyndir til þess eins að komast að því að mér finnst þær frekar leiðinlegar, ég hef gert tilraunir til að stunda líkamsrækt og áttað mig á því að áhugi minn liggur ekki þar og svo mætti lengi telja. Í dag skellti ég mér á sjóinn. Nordjobb fór nefnilega í hvalaskoðunarferð og ég mætti galvösk með samloku í nesti sem ég skellti í mig áður en lagt var úr höfn. Því hefði ég betur sleppt. Eftir um það bil tvær mínútur um borð fór mér að líða illa og vanlíðanin stigmagnaðist svo og náði líklega hámarki inni á salerni skipsins. Ég lá svo á bekk ásamt sænskri stúlku, hlustaði á áhugasaman leiðsögumanninn spenntan yfir því að sést hefði í hvalsporð og sagði við sjálfa mig: „I DON'T GIVE A SHIT". Það slæma er að mér er enn þá óglatt, það hafði ekki góð áhrifa að fylla magann á eftir með fiski, frönskum og ís. Svo skammast ég mín auðvitað líka fyrir að vera íslenskur afkomandi sjómanna sem ekki getur þolað einn stuttan (reyndar fannst hann ALLS ekki stuttur þar sem ég lá niðri í bátnum í vanlíðan) sjótúr. En núna veit ég það, hvalaskoðunarferðir eru ekki fyrir mig. Einu skrefi nær í sjálfsþekkingarleitinni.