24.9.05
Í fyrsta sinn
Ég eyddi kvöldinu í hópi glaðra kennaranema í örlitlu partýi heima hjá vinkonu Freyju. Þar var mikið spjallað og umræðurnar satt best að segja mér að skapi (ekki rætt um getnaðarvarnir, hlutirnir úthúðaðir eða talað illa um fólk eins og gjarnan vill verða). Eftir skemmtilegheitin ætluðum við Freyja heim en ákváðum að renna niður Laugaveginn áður og sáum okkur til mikillar undrunar að engin röð var á Oliver þrátt fyrir að klukkan væri að verða eitt. Við gátum ekki annað en gripið tækifærið og ákváðum að kíkja á Oliver enda höfðum við aldrei komið þangað að kveldi um helgi þrátt fyrir að hafa reynt helgi nokkra að bíða í langri röð til að komast inn. Í Reykjavík er víst enginn maður með mönnum nema að hafa komið á Oliver svo að nú telst ég líklega til manna. Samt þarf ég nú víst að taka fram að dvölin breytti mér lítið, ég varð aðeins sannfærðari um að snúa ekki aftur á þennan blessaða Reykjavíkurbar. Á staðnum var meðalaldurinn líklega 35 ára, svo að við Freyja féllum ekki alveg í hópinn. Einhverjar ungdömur voru þó, eins og þær sem við hittum á salerninu, sem ég fann hjálparlaust Freyju til mikillar undrunar (hún vissi kannski ekki að mamma píndi mig til að fara á klósettið til að reyna að tala við Gael kvöld eitt í sumar). Aðrir gestir virtust samt gamlir eða drukknir. Við skelltum okkur á dansgólfið og tókum örfá spor þrátt fyrir að mér liði eins og bóndakonu á flippinu í borginni. Þegar kona nokkur datt ofan á mig og sofnaði áfengisdauða á dansgólfinu ákváðum við Freyja að forða okkur. Lágmark að setjast a.m.k. bara rólega niður ef á að fá sér blund á skemmtistöðum :) Þetta varð til þess að við stöllur flúðum Oliver eftir um það bil sjö mínútna dvöl og snúum eflaust ekki aftur. Oliver fær ekki háa einkunn í bili hjá mér.