Nei, eigum við nokkuð að vera með svoleiðis neikvæðni? Þótt ekki margt frásagnarvert hafi á daga mína drifið að undanförnu, hef ég engu að síður haft það ágætt. Ef til vill er best að nýta stikkorðafrásagnarmátann um allt það sem ég hef tekið mér fyrir hendur að undanförnu:
- Farið á frábæra tónleika hjá feimnasta tónlistarmanni Svíþjóðar, José González. Það var varla að hann þyrði að kynna lögin.
- Snætt humar og aðra dásamlega rétti á tapasbarnum íklædd rósóttum kjól frá Ösp.
- Lent í eignardeilu við móður mína um rúmið mitt. Það er bara svo þægilegt!
- Farið í sumarbústað til að funda og sofnað á fundinum, já steinsofnað.
- Rúntað um Akranes um miðjan dag á laugardegi og átt erfitt með að finna réttu leiðina í þokunni og spurt tvo sérkennilega karlmenn með bjórflösku í hendi vegar þar sem þeir sátu og spjölluðu í bifreið sinni.
- Horft á lokin í keilumóti og fengið ókeypis í keilu á eftir. Tapaði svo fyrir Valgerði í kvennaflokki eftir öfluga lokabaráttu.
- Farið á skauta með sex ára vini mínum, sem sagðist eiga japanska bekkjarsystur, sem hefði verið seld. Spurning að lögreglan fari að kanna mansal í Fossvoginum?
- Farið á Café Óliver og stutt þá skoðun mína að sá staður sé lítið spennandi.
- Hitt menn í röð á hamborgarabúllu, sem allir héldu bæði mig og Ösp undir tvítugu.
- Rætt við leigubílstjóra alla leiðina heim um aðgerðir er farþegar æla í bíl. (Þær eru víst mjög einstaklingsbundnar, hver bílstjóri hefur sína reglu. Bílstjórinn minn sagði mér samt ljóta sögu af bílstjóra, sem lenti illa í því þegar farþegi kastaði upp yfir innréttinguna. Óheppinn sá!)
- Ákveðið að fara að læra frönsku.
- Borðað andstyggilegar reyktar tófúbollur og heitið því að snæða slíkt ekki aftur.
Segið svo að líf mitt sé ekki spennandi!