20.3.06

Sálufélagi í sjoppu

Ég er farin að vera jafnlöt og bloggarar, sem ég gagnrýndi áður, og skammast mín ekki einu sinni fyrir það. Kannski þetta verði eins og með pennavinina. Í upphafi var ég svo spennt að fá bréf að pennavinir mínir fengu svar afar fljótt, ætíð skrifað sama dag og ég fékk bréfið frá þeim en undir lokin hætti ég hreinlega alveg að skrifa og gaf ekki einu sinni skýringu. Nennti þessu hreinlega ekki lengur. Nú er þó svo komið að ég hef ekkert að segja. Líf mitt er orðið rútínukennt, ég vakna, fer í vinnu, fer heim úr vinnu, hvíli mig eða hitti mögulega vini, ef ég þarf ekki að vinna meira, hangi í tölvunni og fer aftur að sofa. (Ég tek það ekki fram en vitanlega eyði ég löngum stundum í át líka.) Þetta er tæplega frásagnarhæft, því miður.
Helginni eyddi ég í Munaðarnesi í þeim tilgangi að funda með stjórn Nordklúbbsins. Oft eru ferðalög gott efni í frásögn, en þetta ferðalag átti fáa spennandi hápunkta. Við keyrðum reyndar um Akaranes í leit að strætóstoppustöðinni en sáum eiginlega ekki neitt fyrir þoku. Einnig borðuðum við vonda borgara í Hyrnunni og böðuðum okkur í heita pottinum. Fundurinn var reyndar ágætur, mikil umræða, þótt skömmin ég hafi sofnað eftir að hafa sagt við krakkana: Ég er ekki sofandi, bara með lokuð augun að hlusta. Ekki alveg! Í kvöld fór ég svo í bíó í góðum félagsskap og eftir bíóið gerðist loksins nokkuð frásagnarhæft. Ég fann sálufélaga minn! Sá vinnur í sjoppu í Vesturbænum og sagðist því miður vera búinn með allt venjulegt kók og aðeins eiga ógeðslegt dietdrasl eftir, og sagði það með virkilegum andstyggðartóni. Svo gaf hann ríflega í bland í poka. Ætli þessi maður sé andstæðingur heilsufríka? Ég held að við gætum átt samleið í lífinu og ég hefði eflaust beðið hans á staðnum, ef ekki hefði verið fyrir ungan aldur hans. Ég verð líklega að bíða í tvö, þrjú ár, þangað til hann verður átján ára.