10.10.06

Dásamleg sambúð (formáli)

Þrátt fyrir að hafa flutt af óðalssetrinu á Kleppsvegi í júní, hefa lesendur þessarar síðu ekki fengið að heyra um dásemdir nýja bústaðar míns. Núna bý ég sem sé í herbergi nærri Ráðhúsi Reykjavíkur, í fallegustu götu Reykjavíkur, að mínu mati. Síðan ég flutti hefur fólk komið og farið; hér hafa búið um skeið Svíi, Íslendingur, bandarísk stúlka, Finni, strákur frá Kanada og svo Ítali, flestallt hið indælasta fólk. Í byrjun hausts breyttist þjóðernisskiptingin í íbúðinni og íbúðin er hætt að vera stúdentaíbúð. Núna búum við hér spænsk stelpa, ítalskur strákur og Pólverji. Í gær bættist svo við spænsk stelpa, sem mun flytja í herbergi Ítalans þegar hann fer um næstu mánaðamót.

Dásamleg sambúð (i)

Frá því að ég flutti inn, hef ég átt í ákveðinni baráttu við heimilistæki íbúðarinnar. Örbylgjuofninn er frá síðustu öld og hefur aðeins tvær stillingar; afþíðing og hár hiti. Eitthvað efast ég þó um að hitinn sé sérlega hár. Ofninn og eldavélin hrökkva í gang eftir þörfum, en það versta er þvottavélin. Mér tókst aðeins að þvo eina vél í fyrirrennara þvottavélarinnar, sem keypt var eftir að sú gamla hætti að vilja fara í gang. Ég varð afar glöð þegar íbúðareigandinn kvaðst hafa keypt nýja og var staðráðin í að fara aldrei aftur með þvott heim á Klepp og að grynnkað yrði á óhreinatausbunkanum. Ég gerði nokkrar tilraunir en vélina gat ég ekki opnað og eins virtist hún ekki tengd. Mamma fékk því að njóta þess að fá mig í heimsókn öðru hverju með stóra poka fulla af óhreinu taui. Eftir einhverjar vikur var vélin þó tengd og aftur gladdist húsmóðirin í mér og fyrstu tilraunir voru gerðar með tryllitækið. Í fyrstu virtist vélin aldrei fara almennilega af stað, bleytti aðeins helminginn af fötunum svo að ég heimsótti múttu og pápa með hálfblautan þvott. Nú er hins vegar öldin önnur. Það er ég viss um að tauið er orðið vel blautt eftir sólarhringsveru í vélinni. Þvottavélin nefnilega stoppar ekki. Að sögn sambýlinga minna er þetta títt vandamál og þau mæla með því að stelast í vél nágrannanna þar sem þvottur tekur aðeins þrjátíu mínútur í stað þrjátíu klukkustundanna sem það tekur á spánnýju Ariston-druslunni okkar.

Dásamleg sambúð (ii)

Nóg um baráttu við heimilistæki. Fyrir utan miða frá nágrönnum á efri hæðinni, sem ekki eru glaðir með að sambýlingar mínir stelist í þrjátíu mínútur í þvottavélina þeirra, hefur sambúðin gengið vél. Vissulega er pólska fjölskyldan á móti ægilega hávær og að sögn Pólverjans, sem býr hér, helst til hrokafull. Kvikmyndahátíðin hefur einnig verið fremur nálægur nágranni á stundum, við heyrt kvikmyndatónlistina, sem væri hún í heyrnartólum á eyrum okkar. Þetta hefur þó ekkert pirrað mig í samanburði við klikkhausinn, sem býr í næsta stigagangi. Kynni okkar í íbúðinni við kauða hófust í gær þegar hann lamdi á glugga spænsku stúlkunnar til að fá athygli. Vinkona hennar, sem beið fyrir utan, fékk strax að heyra skammir frá þessum elskulega Íslendingi, sem sagðist ekki líða það að við héldum teiti hér í íbúðinni. Vert er að taka fram að síðan ég flutti hingað, hefur illu heilli lítill sem enginn gleðskapur verið haldinn hér og aldrei svo að nágrannar gætu mögulega hafa heyrt í okkur. Nágranninn dásamlegi hóf svo að drulla yfir spænsku stúlkuna og ítalska strákinn á ensku, með íslenskum orðum blönduðum inn á milli. Ég sat inni og heyrði allt en fór ekki niður fyrr en sú spænska bað mig að koma niður og blandast í leikinn. Tilraunir mínar til að róa manninn höfðu ekkert að segja, hann hafði aðeins áhuga á að ræða við þá spænsku og Ítalann, og satt best að segja langaði hann, held ég, mest að slást við þau.

Dásamleg sambúð (iii)

Hann hótaði barsmíðum ef við héldum partý, sagðist áður hafa lamið Spánvera sem bjó hér og hélt partý (rétt er að hann lamdi franskan strák) og sagði Spánverja óþolandi kvikindi sem vaða um og þykjast eiga heiminn. Við þessi ummæli æstist Spánarelskandi hjartað mitt en ég hélt ró minni. Þegar kauði hélt svo áfram og sagðist styðja ETA og vera hrifinn af hryðjuverkaárásum á Spán, átti ég enn erfiðara með mig. Á endanum hugsaði ég með mér að ef við myndum ekki bara drífa okkur heim og hætta að hlusta á manninn yrðu slagsmál og ýtti ég því sambýlingum mínum inn í íbúð og lokaði hurðinni, meðan sá íslenski æpti fyrir utan og lamdi á hurðina, æstur að halda rifrildinu áfram. Mér er hreinlega spurn: Hvað er að fólki? Næst þegar kauði mætir og hefur hótarnir hringi ég á lögguna.

9.10.06

Blogger æ blogger

Því miður vill blogger ekki birta það sem ég var búin að skrifa, ekki skamma mig fyrir bloggleysi. Skammið blogger.com

3.10.06

Óþarfi?

Okkur þótti fróðlegt að sjá í Noregi að fólk nýtir sér jafnvel náttúrhamfarir sér til gróða. Það er ég viss um að margir hafa gabbast til þess að fá upplýsingar um tsunami í norska símanúmerið sitt.