10.10.06

Dásamleg sambúð (ii)

Nóg um baráttu við heimilistæki. Fyrir utan miða frá nágrönnum á efri hæðinni, sem ekki eru glaðir með að sambýlingar mínir stelist í þrjátíu mínútur í þvottavélina þeirra, hefur sambúðin gengið vél. Vissulega er pólska fjölskyldan á móti ægilega hávær og að sögn Pólverjans, sem býr hér, helst til hrokafull. Kvikmyndahátíðin hefur einnig verið fremur nálægur nágranni á stundum, við heyrt kvikmyndatónlistina, sem væri hún í heyrnartólum á eyrum okkar. Þetta hefur þó ekkert pirrað mig í samanburði við klikkhausinn, sem býr í næsta stigagangi. Kynni okkar í íbúðinni við kauða hófust í gær þegar hann lamdi á glugga spænsku stúlkunnar til að fá athygli. Vinkona hennar, sem beið fyrir utan, fékk strax að heyra skammir frá þessum elskulega Íslendingi, sem sagðist ekki líða það að við héldum teiti hér í íbúðinni. Vert er að taka fram að síðan ég flutti hingað, hefur illu heilli lítill sem enginn gleðskapur verið haldinn hér og aldrei svo að nágrannar gætu mögulega hafa heyrt í okkur. Nágranninn dásamlegi hóf svo að drulla yfir spænsku stúlkuna og ítalska strákinn á ensku, með íslenskum orðum blönduðum inn á milli. Ég sat inni og heyrði allt en fór ekki niður fyrr en sú spænska bað mig að koma niður og blandast í leikinn. Tilraunir mínar til að róa manninn höfðu ekkert að segja, hann hafði aðeins áhuga á að ræða við þá spænsku og Ítalann, og satt best að segja langaði hann, held ég, mest að slást við þau.