10.10.06

Dásamleg sambúð (i)

Frá því að ég flutti inn, hef ég átt í ákveðinni baráttu við heimilistæki íbúðarinnar. Örbylgjuofninn er frá síðustu öld og hefur aðeins tvær stillingar; afþíðing og hár hiti. Eitthvað efast ég þó um að hitinn sé sérlega hár. Ofninn og eldavélin hrökkva í gang eftir þörfum, en það versta er þvottavélin. Mér tókst aðeins að þvo eina vél í fyrirrennara þvottavélarinnar, sem keypt var eftir að sú gamla hætti að vilja fara í gang. Ég varð afar glöð þegar íbúðareigandinn kvaðst hafa keypt nýja og var staðráðin í að fara aldrei aftur með þvott heim á Klepp og að grynnkað yrði á óhreinatausbunkanum. Ég gerði nokkrar tilraunir en vélina gat ég ekki opnað og eins virtist hún ekki tengd. Mamma fékk því að njóta þess að fá mig í heimsókn öðru hverju með stóra poka fulla af óhreinu taui. Eftir einhverjar vikur var vélin þó tengd og aftur gladdist húsmóðirin í mér og fyrstu tilraunir voru gerðar með tryllitækið. Í fyrstu virtist vélin aldrei fara almennilega af stað, bleytti aðeins helminginn af fötunum svo að ég heimsótti múttu og pápa með hálfblautan þvott. Nú er hins vegar öldin önnur. Það er ég viss um að tauið er orðið vel blautt eftir sólarhringsveru í vélinni. Þvottavélin nefnilega stoppar ekki. Að sögn sambýlinga minna er þetta títt vandamál og þau mæla með því að stelast í vél nágrannanna þar sem þvottur tekur aðeins þrjátíu mínútur í stað þrjátíu klukkustundanna sem það tekur á spánnýju Ariston-druslunni okkar.