Jónas er ekki fyrr farinn en piltar á öllum aldri hefja að sýna mér sínar bestu hliðar. Á fimmtudagskvöld sat ég í bíl sem ekið var hægt fram hjá götuhorni þegar flatbökusendill nokkur frá Domino's horfði á mig afar þokkafullur en að sama skapi alvarlegur og blikkaði mig svo. Mjög spes. Ímynda mér að maðurinn hafi verið rétt skriðinn af leikskóla þegar ég hóf nám í gaggó. Kannski ég hefði átt að vingast við hann, þótt ekki væri nema pizzanna vegna. Í gær sáum við Eva svo aðeins of mikið af manni nokkrum sem virtist nýgenginn út af Rex. Þeim var augljóslega mikið mál að létta af sér og hafði því ákveðið að pissa út við götu, með sprellann hangandi í átt að þeim sem sátu í hinum fjölmörgu bílum sem keyrðu fram hjá. Það var ekki laust við að þetta minnti mig á hótelgestinn í Helsinki, sem beraði sig fyrir nokkrar rútur (sjá mynd að ofan) .
Annars hugðist ég kynna fyrir lesendum bloggsins míns hverjar verða vistarverur mínar í Kóngsins Kaupmannahöfn. Ég er sem sé búin að finna mér íbúð, sem liggur mjög nálægt Sankt Hans Torv, nánar tiltekið við Læssøesgade. (Gatan mín er sú sem sýnd er með bláu striki) Í fyrsta sinn á ævi minn mun ég búa alein og raunar í frekar stórri íbúð, 47 fermetrum alls. Salernið er örsmátt (sturtuaðstaðan leiðinleg) og eldhúsið lítið en svo er eitt frekar stórt herbergi og nokkuð rúmgóð stofa. Ég er þegar farin að taka á móti pöntunum á gistingu.