13.12.06

Miskunnsami samverjinn

Ég er ekki viss um að boðskapur Biblíunnar verði í hávegum hafður framvegis hjá ungfrú Ölmu Sigurðardóttur. Eftir prófið áðan fór ég í bankann að bjarga nokkrum hlutum vegna vinnunnar. Meðan ég stóð hjá gjaldkeranum og beið eftir að hún millifærði kom inn í bankann eldri kona, sem virtist afar áttavillt og eiga bágt, enda fann hún ekki verslunina Verið. Ég reyndi að koma skvísunni til aðstoðar og útskýra fyrir henni hvar búðin væri, þótt ekki væri ég alveg viss. Ég benti í áttina og fór að lokum út (búðin er í 50 metra fjarlægð) og sýndi henni, en hún skildi ekki og spurði hvort það væri beint áfram (sem það var ekki). Ég neitaði því og þá öskrar kvensan: ,,HVAÐ ÞÁ?". Ægilega huggulegt.
Ég kláraði eina prófið mitt í dag og ætla á morgun til Glasgow. Þar verður peningum eytt geri ég ráð fyrir. Vonandi sækir ekki að mér skosk níska eða sú níska sem virðist hlaupin í Jónas. Hann sagði mér í skilaboðum að hann hefði eytt 30 krónum í morgunmat; líter af vatni, banana og hnetur, en að hann hafi verið hlunnfarinn í viðskiptum sínum við hnetusölumanninn. Vildi hann borga minna? Ég held að ég muni eyða aðeins meiru í Skotlandi.