13.5.07

,,Helvítis Austur-Evrópuþjóðirnar"

Ég er orðin þreytt á að heyra og lesa um ,,helvítis Austur-Evrópuþjóðirnar" sem allar kjósa hver aðra í Eurovision. Norrænar þjóðir eru í fyrsta lagi engu betri og kjósa hver aðra eins og þeim sé borgað fyrir það. Erum við þá að gefa þeim stig vegna frændskapar eða er smekkurinn bara svipaður á norðurhjara veraldar? Gæti ekki verið að Balkanskagalöndin deili svipuðum tónlistarsmekk? Og að íbúar fyrrverandi ríkja Sovétríkjanna séu almennt heitir fyrir löngum leggjum og hvítum tanngarði? Vissulega má greina mikla pólitík í stigagjöf, en er það ekki bara í lagi? Vissulega þýðir það mögulega að ,,vestrænum þjóðum sé vonlaust að komast upp úr forkeppninni" eins og mörgum hefur orðið á orði. Íslendingar geta vitanlega ekki bara tekið þátt og haft gaman af, við þurfum jú alltaf að vera best í öllu. Annars var ég bara nokkuð ánægð með sigur Serbíu. Gaman að lag sem ekki er sungið á ensku vinni, slíkt hefur jú ekki gerst síðan 1998 skilst mér og eins var þetta ægilega dæmigert júrólag. Þetta var ekki uppáhaldslagið mitt reyndar, ég var aðdáandi Þýskalands og Frakklands, en smekkur minn er kannski örlítið skrítinn. Mér þótti minna gaman að slökkt væri á keppninni vegna kosningaúrslita þegar aðeins fimm mínútur voru eftir. Það eyðilagði þetta eiginlega alveg og var fúlt, þótt vissulega hafi kosningaúrslitin líka verið hörkuspennandi. En það munaði bara svo litlu. Gátu talningarmenn ekki verið aðeins seinir? Vinur minn í París, sem er harður aðdáandi kepninnar hringdi í mig í gær (slíkt gerir hann aldrei) bara vegna þess að hann var svo ægilega glaður með sigurvegara keppninnar. Það lá við að hann hrópaði af gleði. Ég held að hann haf ekki verið eini aðdáandinn og eflaust glöddust margir Evrópubúar í gær. Til hamingju Serbía!