Ég hef oft pirrað fólk með sögunni af því þegar ég hitti nordjobbara frá 2004 í miðbæ Reykjavíkur síðastliðið sumar. Þá hafði ég einhverra hluta vegna séð mann á leið minni til vinnu og hugsaði með mér hvort þetta væri Simon, sem ég hafði ekki séð í tvö ár og raunar mundi ég varla nafnið á honum. Þetta var náttúrulega ekkert Simon, heldur bara annar ljóshærður maður. Fimm mínútum síðar geng ég svo fram á Simon. Svo hitti ég hann reyndar aftur í Leifsstöð nokkrum dögum síðar. Þetta væri ekki í frásögu færandi nema af því að í dag hitti ég Simon fyrir tilviljun, ekki bara einu sinni heldur tvisvar: Á leiðinni í vinnun hljólaði hann aftan að mér og á leið heim úr vinnunni sat hann á bekk og hrópaði á mig þegar ég gekk fram hjá. Ætti ég að hafa áhyggjur af því að maðurinn elti mig?
Annars er hlé á gestagangi í bili. Eva og Freyja voru hér um helgina og næsti hópur kemur ekki fyrr en aðra helgina í júní. Auðvitað var ægilega gaman að fá Evu og Freyju í heimsókn en Evu reyndar fylgir því miður ætíð rigning þegar hún heimsækir Danaveldi. Við skemmtum okkur engu að síður vel, fórum í Tívolí, sáum ægilega lélega mynd í bíó (síðasta skiptið sem Freyja fær að velja bíómynd, smekkur hennar er næstum eins slæmur og minn) og kíktum á Bakken. Nú bíð ég bara eftir því að þær komi aftur í heimsókn. Eftir að Eva yfirgaf landið byrjaði heldur betur að hitna í kolunum, það var steikjandi hiti síðdegis á sunnudag og eins í dag. Til þess að passa upp á að verða ábyggilega ekki sólbrún (brunnin) tók ég að mér smáaukaverkefni og mun ég því sitja inni á skrifstofu til klukkan 20 á hverjum degi. Munið að hvítt er fallegt.
Að lokum vil ég auglýsa örlítið fyrir hana Sigrúnu sem í sumar mun starfa í alþjóðlegum sumarbúðum fyrir börn á vegum CISV. Þangað vantar einn eða tvo starfsmenn og því hvet ég alla áhugasama að hafa samband við hana (símanúmerið er 8662692). Þetta er hrikalega spennandi og ég vildi óska þess að ég gæti tekið þátt í þessu.