1.5.12

Foreldrahlutverkið

Þeir sem eiga barn vita að íbúðarkaup, meðganga og fæðing eru ekki nærri eins ógnvekjandi og foreldrahlutverkið. Um leið og litlu geimverunni er vippað upp á bringuna á þér er komið að nýjum hluta í lífinu. Þú berð ábyrgð á lítilli veru og stekkur beint í djúpu laugina. Innsæi móður og föður á að fylgja með í kaupunum.

Það eru engar ýkjur að lífið gjörbreytist með fæðingu barns. Fyrstu vikurnar hjá nýbökuðum foreldrum einkennast oftast af svefnleysi og brjóstagjöf. Brjóstagjöf er eitthvað sem flestir halda að sé konum í blóð borið og gangi smurt eins og vél hjá öllum. Svo er ekki. Aumar geirvörtur, jafnvel með blæðandi sárum og stíflur í mjólkurgöngum verða daglegt brauð. Þakklátasta ráðið sem ég fékk á meðgöngunni var frá kunningjakonu minni sem benti mér á að í hennar tilfelli hafi hún fundið til fyrstu fjóra mánuði brjóstagjafar en þá hafi hlutirnir farið að ganga betur. Þetta snerist því bara um að þrauka þessa fjóra mánuði.

Ungbarnaforeldrar gera sér að góðu að sofa allt niður í tvo tíma í einu og í raun er furðulegt að ekki hafi verið gerðar rannsóknir á aukinni slysatíðni meðal svefnlausra foreldra. Fólk svífur um í móki svefnleysis og ræðir fátt annað en brjóstagjöf, kúkableiur og krúttleg bros. Ég man eftir að hafa heimsótt heilsugæslustöð með son minn nokkurra vikna gamlan. Þrátt fyrir þó nokkuð margar tilraunir tókst mér ekki að koma kennitölunni hans rétt út úr mér.

Það er ábyggilega fátt leiðinlegra fyrir barnlausa en vinir sem fjölga sér. Umræðuefnin hætta að snúast um skemmtanahald næstu helgar og flotta kjólinn sem keyptur var í síðustu verslunarferð til útlanda. Barnið á athyglina alla og fæðingarorlofsgreiðslur duga tæpast fyrir nýjum kjólum eða verslunarferðum til útlanda. Takmörkuð orka foreldranna fer í að dást að minnstu framfaramerkjum hjá krílinu, sama hvort um er að ræða að tánögl þess hafi vaxið eða barnið geiflað sig öðruvísi en venjulega. Foreldrar taka varla eftir því sem ber á góma í samfélaginu. Það er kannski ekki skrítið að samskipti við vini breytist og samverustundir með vinahópnum verði færri eftir að börn koma til sögunnar.

Meira að segja vinir og ættingjar hætta að spyrja hvernig þið foreldrarnir hafið það. Það er líðan barnsins sem er í fyrirrúmi og minnstu breytingar í lífi barnsins á borð við fyrstu tönnina, harðlífi eða þyngdaraukningu eru langtum vinsælla umræðuefni en það hvernig foreldrinu gengur í vinnunni, hvort það hafi lesið nýjustu bókina eftir Arnald eða farið í leikhús nýlega.

Vissulega er margt jákvætt við foreldrahlutverkið. Færni foreldra í að gera marga hluti í einu eykst gífurlega eftir því sem barnið eldist. Foreldrar koma upp tækni til að ná að sofa örlítið lengur í stofusófanum á laugardagsmorgnum meðan barnið horfir á teiknimyndir. Þeir læra að vaska upp um leið og sungið er fyrir barn í burðarpoka á maganum. Ekki síst læra mæður að gefa brjóst á sama tíma og þær skrifa tölvupóst, hæfileiki sem vonlaust er fyrir barnlausa að apa eftir.

Þeir sem eiga börn þekkja það eflaust að verslunarferðir breytast allsvakalega eftir að barnið fæðist. Í stað þess að kaupa flíkur á þig til að hylja skvapið eftir meðgönguna er langtum auðveldara að velja föt á barnið í staðinn. Dagar þess þegar hálfri mánaðarhýrunni var eytt á útsölum eru liðnir. Börn stækka ógnarhratt og þurfa föt sem passa. Barnaföt eru mjög dýr og enginn pengingur eftir til að kaupa bjór á barnum eða nýjan gsm-síma.

Flest ykkar kannast eflaust við það að hafa ferðast í strætisvagni, rútu eða flugvél þar sem lítið barn ærir aðra farþega. Þeir sem kannast við börn sem æra aðra eru væntanlega barnlausir. Þegar börn koma til sögunnar hætta foreldrar oft að láta frekjuköst annarra barna, barnsvæl og annars konar hávaða í ungviði fara í taugarnar á sér. Í staðinn hefjast vangaveltur um það hvort barnið sé ekki bara svangt eða þreytt og hversu erfitt sé fyrir litlu dúlluna að vera á svona löngu ferðalagi. Þess er svo gætt að brosa af skilningi til foreldrisins. Sjónarhornið gjörbreytist.

Í þekktu lagi heyrast eftirfarandi línur:
„Þetta fullorðna fólk er svo skrítið, það er alltaf að skamma mann. Þó maður geri ekki neitt, það er alltaf að skamma mann“.
Mér þótti þetta lag alltaf mjög skemmtilegt en tengi öðruvísi við það en áður. Ég er ekki lengur á sveif með barninu sem syngur um skilningsleysi þessara ömurlegu foreldra. Núna skil ég hið skammandi fullorðna fólk miklu betur.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.