Ólétta og fæðing
Ráðlagt er fyrir barnlausa að kynna sér málin vel áður en lagt er til atlögu við hjónaleikfimina. Ólétta og fæðing eru sjaldnast eins og í væmnum amerískum kvikmyndum og ýmislegt sem ekki uppgötvast fyrr en á hólminn er komið.
Margt í tengslum við óléttu tala fáir um nema við sína allra nánustu. Vissulega heyrist oft af þreytu á meðgöngu og tíðum þvaglátum auk þess sem hríðarverkir í fæðingu bera stundum á góma. Annars virðist mest talað um hversu dásamlegt var að fá barnið í fangið. Það er líkt og allt annað gleymist.
Óneitanlega er það góð tilfinning að bera barn undir belti og fæðingin eða að minnsta kosti afrakstur fæðingar er vitanlega frábær. Það er aftur mjög margt sem gleymist að nefna í tengslum við það sem sumir vilja kalla kraftaverk lífsins.
Ég hafði séð myndir af móður minni þar sem hún leit glansandi vel út kasólétt af systur minni. Ég áttaði mig ekki á því að allar hinar myndirnar af henni rötuðu eflaust ekki í albúmið. Það blómstra ekki allar konur á meðgöngu og líta út eins og í dömubindaauglýsingu. Raunar er erfitt að líta óaðfinnanlega út þegar þú hefur kastað upp tvisvar sama daginn og þjáðst af óstöðvandi ógleði og þreytu síðustu vikurnar. Líkaminn virðist hætta því ósjálfrátt að halda inni keppunum um leið og búið er að pissa á óléttupróf. Enginn varaði mig heldur við því að slit á húð geta myndast löngu áður en bumban birtist. Það er ástæða fyrir því að ég harðbannaði allar myndartökur af mér meðan á meðgöngu stóð.
Ólétt kona þjáist af ýmsum öðrum kvillum. Hún pissar í tíma og ótíma, jafnvel svo oft að tæpt getur verið að stunda skemmtanir á borð við leikhús og bíó. Gyllinæð og sveppasýkingar eru algengir kvillar meðal þungaðra og margar ófrískar konur finna fyrir óþægindum í mjaðmagrind. Grindarverkir og eins sú staðreynd að þyngdarpunkturinn breytist á meðgöngu veldur svo því að óléttar konur kjaga í stað þess að ganga á síðustu metrum meðgöngu. Fáir kalla kjag heillandi göngulag.
Tímabilið þegar kunningjar sem ekki vita af óléttunni velta vöngum yfir því hvort þú hafir fitnað ótæpilega eða sért ófrísk er ekkert sérstaklega skemmtilegt heldur. Þegar allur vafi á því hvort um óléttubumbu er að ræða eða ekki er svo forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum fólksins í kringum þig. Ókunnugum finnst ekkert sjálfsagðara en að ræða málin við þig, segja sögur af fæðingum og jafnvel giska á kyn barnsins. Við þetta bætist svo að þótt kviðurinn á þér hafi verið í einkaeigu fram að meðgöngu, þá verður hann almenningseign á seinni metrum meðgöngunnar. Fólki finnst ekkert að því að þukla á bumbunni og ræða um stærð hennar, alveg óháð því hvort þú þekkir viðkomandi eða ekki. Eina stundina færðu kvíðakast þar sem fólk talar um að bumban sé óeðlilega lítil en þá næstu sannfærir fólk þig um að barnið hljóti að fara koma. Bumban sé orðin svo stór og farin að síga, jafnvel þótt tveir mánuðir séu eftir af meðgöngu.
Ég átti sjálf fremur átakalausa meðgöngu miðað við margar konur í kringum mig og fæðingin gekk einnig áfallalaust fyrir sig. Fæðingar eru ekki eins og í bandarískum bíómyndum. Það er sjaldgæfara en ekki að konur missi vatnið í miðjum stórmarkaði, og þú þýtur ekki með sjúkrabíl upp á fæðingardeild um leið og þú byrjar að fá hríðarverki. Ég hafði alltaf ímyndað mér að konur dveldu á fæðingardeild og tækjust þar á við hríðirnar með hjúkrunarkonu sér við hlið sem stryki á þeim ennið. Raunveruleikinn var sá að ég hafði það nokkuð huggulegt uppi í rúmi heima hjá mér, horfði á grínþætti og pantaði mér flatböku milli þess sem ég linaði verkina með baðferðum.
Eftir að hafa hálfgrenjað liggjandi í aftursæti bílsins okkar á leið upp á fæðingardeild var mikill léttir að komast loks á áfangastað og fá að vita að það sem ég hræddist allra mest myndi ekki gerast. Ég vildi alls ekki vera ein af þeim sem yrði send heim með ímyndaða hríðarverki. Barnið var á hraðleið í heiminn og stuttu síðar var ég komin með kríli í fangið og vissi ekkert hvað ég ætti að halda. Mér leið eins og ég væri með geimveru organdi á brjóstinu. Komin í hlutverk sem ég vissi ekkert hvernig ég ætti að takast á við.
Ólétta og fæðing er enginn dans á rósum. Þú gubbar ekki regnbogum og það er margt skrítið sem gerist með líkamann meðan á meðgöngu stendur. Það er engin spurning um að allt er þetta þess virði og vel það. Það breytir því ekki að það þarf ekki að halda uppi þeirri ímynd að allar konur blómstri á meðgöngu, þótt ekki væri nema til að undirbúa konur í barneignapælingum undir það sem koma skal.
Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.
_________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.