1.5.12

Fyrstu íbúðarkaupin

Sú stund er stór í lífi flestra þegar kaupa á fyrsta húsnæðið. Húsnæðiskaup þýða oftast að góðum hluta launa kaupendanna er þegar ráðstafað næstu tuttugu til fjörtíu árin og því er stórt skref að stíga að taka ákvörðun um þetta.

Við fjölskyldan keyptum okkur íbúð tveimur árum eftir hrun. Líklega byggjum við enn í leiguhúsnæði ef ekki hefði komið upp að leigusalinn okkar ákvað fremur skyndilega að hætta að leigja út íbúðina sína og við sáum fram á að verða húsnæðislaus þremur mánuðum síðar. Við tók leit að draumahúsnæðinu á fasteignasíðum. Val á framtíðarhíbýli getur verið erfitt enda um stóra ákvörðun að ræða.

Við byrjuðum á að ákveða hvaða hverfi borgarinnar kæmu til greina og hversu stórt húsnæði við þyrftum. Eins reiknuðum við út hversu dýra eign við gætum keypt. Inn í þetta fléttuðust vangaveltur um gæði grunnskóla á svæðinu. Það skipti engu máli að sonur okkar væri aðeins eins og hálfs árs á þessum tíma. Við spáðum einnig í helstu umferðaræðar, endursölumöguleika eignarinnar og líkur á stórvægilegum framkvæmdum á húsnæðinu næstu árin. Okkur þótti þetta afskaplega fullorðinslegt.

Ég hafði ekki áttað mig á því að draumaeignin finnst ekki endilega í fyrstu tilraun. Við skoðuðum fjöldann allan af fasteignaauglýsingum og eyddum heilmiklum tíma í leitina. Við skoðuðum líka þvílíkan fjölda af íbúðum, skoðanir sem voru stundum dálítið sérstakar. Því var þetta ekki eingöngu stór ákvörðun heldur líka dálítið ævintýri.

Í eitt skipti fórum við á svokallað opið hús þar sem nokkuð margir voru mættir til að skoða sérhæð í frábæru hverfi. Í íbúðinni voru nokkur herbergi en unglingar og börn sváfu inni í helmingi þeirra og annarri stofunni. Herbergjunum var því lokað og okkur bannað að skoða þau. Innréttingar og ástand íbúðar var eins rakkað niður af leigjandanum sem sýndi íbúðina og sá hinn sami neitaði að sýna þvottahús og kjallara. Viðkomandi benti okkur á að húsnæðið væri ekki íbúðarhæft en fannst augljóslega lítið mál að búa þarna með skarann allan af börnum.

Í annað skipti skoðuðum við íbúð þar sem eigandinn sagði okkur þegar við komum að hún vildi eiginlega ekki selja, henni hefði verið ýtt út í það. Hún var samt hæstánægð að fá okkur í heimsókn og meira en til í að spjalla um allt milli himins og jarðar. Hún ræddi við okkur hestamennsku, heimabæ tengdaforeldra minna sem voru með í för og frábæru steypuna sem notuð var í húsið hennar milli þess sem hún kitlaði son okkar. Þeirri heimsókn lauk með því að við vorum beðin um að hafa lágt meðan hún sýndi okkur síðasta hluta íbúðarinnar, herbergi inn af eldhúsi þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar svaf eins og ungabarn.

Það er alltaf dálítil synd að banka upp á til að skoða íbúð á óheppilegum tímapunkti. Við reyndum það að sjálfsögðu. Þriðju íbúðina var nefnilega varla unnt að skoða þar sem eigandinn var nýkominn af klósettinu. Augljóslega var ýmsu ábótavant hvað loftræstingu varðaði því að megna kúkalykt lagði um alla íbúðina og gerði það að verkum að við vorum fljót að forða okkur og misstum allan áhuga á að skoða okkur frekar um.

Það sem er allra mesta áhyggjuefnið við íbúðarkaup er ekki einungis að velja réttu eignina heldur einnig fjármögnun kaupanna. Að sjálfsögðu þarf að safna fyrir útborgun en einnig að velja hvernig lán eigi að taka og til hversu langs tíma. Kaupandinn þarf helst að geta spáð fyrir um verðbólgu næstu þrjátíu til fjörtíu árin og eins að geta áætlað hverjar tekjur hans verða út starfsævina. Eftir bankahrunið þarf auk þess að huga að þáttum eins og möguleikanum á að slíkt endurtaki sig, gengi íslensku krónunnar og mögulegri upptöku annarra gjaldmiðla. Allt eru þetta atriði sem hinn almenni borgari veit lítið sem ekkert um.

Eftir langa leit og margar skoðunarferðir tókst á endanum að finna íbúð sem bæði mér og sambýlismanni mínum leist vel á. Íbúðin er staðsett í fremur stóru fjölbýlishúsi í Reykjavík. Í fjölmennu húsi sem þessu fylgir að rekið sé húsfélag og húsfélag þýðir að haldnir séu húsfundir.

Húsfundir eru sjálfsagður hluti þess að búa í fjölbýlishúsi. Fundir sem þessir eru með áhugaverðari samkomum. Á því leikur enginn vafi. Þar kemur saman fólk sem á ekki annað sameiginlegt en að eiga íbúð á sama blettinum. Á fundunum eru rædd mikilvæg atriði á borð við það hvort breyta eigi kerfi á sorptunnum, hvort bletta eigi glugga eða heilmála og eins hvað gera eigi við erfiða útlendinginn sem verkar lax í þvottahúsinu. Í stuttu máli eru húsfundir líklega með leiðinlegri leiðum til að eyða mánudagskvöldi. Það er aftur slæm hugmynd fyrir húseiganda að skrópa á húsfund.

Kaup á húsnæði eru því ekki aðeins mikil skuldbinding og enn frekari sönnun á því að fullorðinsárin séu hafin. Þau snúast ekki eingöngu um að finna draumaeignina og sannfæra eiganda hennar um að hann eigi að selja þér hana. Eigandi húsnæðis getur ekki lengur hringt í leigusalann og kvartað yfir biluðum vaski heldur þarf sjálfur að redda hlutunum. Kaup á húsnæði þýða líka að minnst einu sinni á ári þarftu að eyða tíma þínum í hræðilega leiðinlega hluti á borð við húsfundi. Ef til vill ætti að vara við þessu í fasteignaauglýsingum.

Mögulegt er að hlusta á pistil um sama efni hér.

_____________________________________________________
Höfundur greinanna er Alma Sigurðardóttir. Alma er búsett í Hlíðunum með sambýlismanni sínum og þriggja ára syni þeirra. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlöndum. Samhliða starfi sínu stundar Alma meistaranám í Norðurlandafræðum og stefnir á útskrift árið 2013.