13.10.03
Þegar ég var lítil stundaði ég persónunjósnir án þess að einu sinni hika við það og aldrei fékk ég samviskubit. Ég (að sjálfsögðu í samvinnu við aðra en ég ætla bara að eyðileggja eigið mannorð að þessu sinni) fletti öllum poppstjörnunum sem ég dáðist að upp í þjóðskránni (og það var sko fyrir daga Netsins, maður hafði sambönd!) og auðvitað símaskránni, lærði afmælisdagana þeirra utan að og vissi allt um þeirra fjölskylduhagi. Auðvitað fórum við líka nokkra túra að skoða húsin sem þessar stjörnur bjuggu í og fengum talsvert adrenalínkikk út úr því. Eftir að ég komst til örlítið meira vits og talsvert fleiri ára hætti ég þessu, sem betur fer en núna er ég eiginlega byrjuð aftur á persónunjósnum bara á annan hátt. Já, bloggsíður og heimasíður eru nýr vettvangur fyrir fyrrum ungnjósnara. Valla vinkona hefur einmitt nefnt þetta sama, maður byrjar að skoða síðu hjá einhverjum sem maður þekkir og veltist svo inn á blogg hjá fólki sem maður ýmist þekkir alls ekki eða kannast bara pínulítið við og viti menn, tuttugu mínútum seinna er ég orðin fróð um fjölskyldulíf Jóns og Gunnu, síðasta fyllerí og búin að skoða myndir úr Parísartúrnum. Er þetta ekki pínulítið sick?