30.3.04

Þessi færsla er ætluð kennurunum mínum: Í kvöld er ég að fara í veislu til ítölskukennararns míns. Kannski fleiri ættu að halda slíkt?

28.3.04

GWTW
Darling, it seems that you belong in Gone with the
Wind; the proper place for a romantic. You
belong in a tumultous world of changes and
opportunities, where your independence paves
the road for your survival. It is trying being
both a cynic and a dreamer, no?

Which Classic Novel do You Belong In?
brought to you by Quizilla
Helgin mín var heldur dapurleg. Ég sá mjög fáa fræga þrátt fyrir að hafa verið að vinna allan laugardaginn. Ég bað stjórann í búðinni að leyfa mér að vera bæði á föstudag og laugardag í næstu viku til að reyna að herða mig í keppninni. Held ég verði líka að fara á djammið, sé nefnilega núna að það er lítið streymi frægra hingað á Kleppsveginn á föstudag- og laugardagskvöldum!!
Ég ákvað nefnilega að halda mig heima þessa helgi og flytja milli herbergja. Þetta reyndist talsvert meira verk en ég hafði haldið og því enduðu bæði kvöldin með því að ég lak í rúmið uppgefin af þreytu. (innskot ritstjóra: ýkjur) Annars vaknaði með mér pæling á laugardagskvöldið þegar ég reyndi að setja saman afmælisgjöfina frá pabba og mömmu, skáp úr IKEA: Hversu mörg hjónabönd ætli hafi rofnað vegna samsetningarvandræða á IKEA-mublum? Ég er handviss um að þau séu þónokkur. Sem betur fer á ég engan mann og ég plataði Evu bara til að hjálpa mér örlítið og vera þess á milli andlegur skemmtari. Þetta reyndist engu að síður hálfmannskemmandi. Ein skrúfan var of þykk í agnarlitla gatið sem henni var ætlað og það gekk ekki að setja hurðirnar á skápinn. Á endanum bað ég pabba að hjálpa mér aðeins en ég var orðin svo pirruð að ég hálfurraði á hann og gafst upp á endanum. Samt gerði pabbi auðvitað ekkert af sér. Ég velti bara fyrir mér hvernig fari með nýgifta ástarhnoðra sem ákveða að kaupa sér ný húsgögn í litlu íbúðina sína og eyða helginni í að setja saman húsgögnin sem koma í þessum líka handhægu flötu umbúðum. Þetta fólk ábyggilega drepur hvort annað. Niðurstaða mín er sú að það ætti að standa á flötu pökkunum að heppilegast sé að skrifa: Vinsamlegast vinnið ekki að samsetningu í pörum! Ég er reyndar sátt stúlka í dag, enda í nýju flottu herbergi með fallegan skáp sem stendur samansettur upp við einn vegginn og með Hulk uppi á honum. Get ég annað en verið kát?

25.3.04

Ég er alvarlega farin að halda að ég sé gömul! Fyrir nokkrum vikum síðan fóru merkin að sjást. Jú, ég fór nefnilega að skoða piltana kringum mig. Ólíkt dömunum þá virtist sem svo að allur karlpeningur væri á góðri leið með að verða nauðasköllóttur. Nú þarf vitanlega ekki að taka fram að ég er að ýkja mjög en engu að síður þá þótti mér það áberandi hversu há kollvik menn á mínum aldri voru með, hvert sem ég leit byrjaði hárið lengst uppi á kolli. Ég hætti svo að hugsa um þetta en aftur á Saunaexpressen fór ég að vanda að skoða hitt kynið (Danina) og varð aftur vör við lítið hár. Enn reyndi ég að leiða hugann að öðru og gleyma þessu og afsakaði mig svo að þessir drengir væru ábyggilega ekki drengir heldur karlmenn nýskriðnir á fertugsaldurinn. Heldur hljóp ég á mig með þeirri ákvörðun, kom vitanlega í ljós að flestir voru þeir á mínum aldri, einn eitt táknið um elli mína. Afmælisdagurinn rann svo í garð, árin orðin 23 og Eva hóf að minna mig á hversu ógeðslega gömul ég væri orðin. Kornið sem fyllti mælinn var samt tungumálanámskeiðið í vikunni. Þar eru nokkrir ungir piltar og eins stelpur sem ég hugsaði með mér að væru á mínum aldri. Óneeeii, svo var nú ekki. Einn liðurinn í tungumálakennslunni var að segja til aldurs og kom þá ekki í ljós að piltarnir þarna voru sextán og sautján ára og margar stelpnanna á sama aldri. Ég held að ég hafi verið þriðja elst í 20 manna hópi. Ég var sex og sjö árum eldri en flestir þarna inni!!!!!!! Og á næsta ári á ég tíu ára fermingarafmæli. Hjálpi mér allir...

22.3.04

Jæja, ég vil benda fólki á síðuna eurovision.is (sjá link hér til hliðar). Þar má finna fróðleik og fréttir af „okkar" manni, Jónsa, sem fara mun til Istanbúl og syngja „Heaven". Núna er ég að hlusta á einhver laganna...á nú samt langt í land með að klára þar sem svo mörg lög taka þátt í ár. Sem stendur er ég með Slóveníu í eyrunum. Mig langar pínulítið að taka heyrnartólin úr...segi ekki meira. Mér finnst lagið hans Jónsa alveg þolanlegt og vel mögulegt að ég verði ástfangin af því. Tyrkneska lagið er gott og það danska fjörugt. Rétt áðan hlustaði ég á bút úr því franska sem virðist allt í lagi en því miður er ísraelska lagið bölvanlega lélegt. Svo virðist sem Tal Sondak ætli engan arftaka að eiga. :(
Ég vil benda fólki á link hér til hliðar, frægumannakeppnina. Keppnin, sem er milli Jónasar Magnússonar og mín, snýst sem sé um það að sjá sem flesta fræga. Þetta er þegar orðið æsispennandi og bendi ég áhugasömum á slóðina.

18.3.04

Það er ung fáklædd stúlka í ranghverfum nærbuxum sem liggur í rúmi við hliðina á mér og biður mig um að koma í rúmið. Já, Sigga hefur verið alveg hræðilega óþekk í dag. Ég fór með hana í Kringluna þar sem hún gegndi engu og í sundi suðaði hún endalaust um að fara í heitaheita pottinn. Hún sullaði svo poppi um allan sófa með viðeigandi fitublettahættu. Allt í lagi með það, þetta var nú fyrirgefanlegt. Það sem hún gerði núna áðan aftur á móti ekki. Hún stal nefnilega rúmplássinu sem ég hafði fundið mér fyrir nóttina. Pápi og mamma er nefnilega í Danaveldi á leið á Kim Larsen tónleika og ég hafði hugsað mér gott til glóðarinnar, ætlaði að sofa í mömmuholu. En nei, Sigga liggur þar og segir að ég geti bara komið og legið pabbamegin. Hvert stefnir unga fólkið í dag? Er Sigga dæmi um það hvers vænta megi af nýjum kynslóðum?

15.3.04

Jæja, sólin skín á gamlar konur í dag. Annars var ég í fremur leiðinlegum tíma, hann var mjög hægur og mig langaði að hrópa: "ÁFRAM, ÁFRAM" á samnemendur mína. Gerði það að sjálfsögðu ekki. Annars vil ég nefna eitt sem gæti verið til bóta fyrir mannkynið. Það er að banna að sýna gamlar myndir af fólki, þá sérstaklega gamlar ljótar myndir. Ég veit að einhverjir hljóta að vera mér sammála.
Your future occupation by meteoric
Your name
Your future occupationNone, live off government
Yearly income$980,764
Hours per week you work38
EducationUp to 2 years of college
Created with quill18's MemeGen 3.0!

11.3.04

Úff, í dag er sorgardagur! Hræðilegar þessar sprengingar í Madrid. Ég vaknaði við skilaboð frá Jordi þar sem hann sagði mér að 62 hefði látið lífið í sprengingum. Eftir því sem leið á morguninn hækkaði talan sífellt, fyrst í 112 og svo var ég að lesa núna að 135 væru látnir og á fjórða hundrað manns slasaðir. Lýsingarnar í netdagblöðunum eru skelfilegar...þetta er alveg hræðilega sorglegt. Mér er bara spurn, hvers vegna gera menn svona? Ætli þeim líði vel að hugsa til þess að 135 manns sem voru á leið í vinnuna eða skólann, alsaklaust fólk sé dáið? Færist bros á varir þeirra eftir því sem talan hækkar? Ég get bara ekki trúað því. Arrrrgghh!

9.3.04

Jæja pæja. Næst á dagskrá hjá mér er að lemja einhvern hjá RHÍ og sækja um Erasmus-styrk. Þetta er erfið ákvörðun fyrir mig þar sem ég virðist bara alls ekki geta ákveðið neitt. Hvernig á manneskja sem ekki getur valið sér rétt af litlum matseðli skipulagt hvað hún vill gera næsta ár? Hvert hún vill fara og hve lengi? Ég hef ekki svarið við þessu. Engu að síður eru línurnar örlítið að skýrast í hausnum á mér og ég ákvað að á miðvikudaginn fer ég og tala við kennarann og það sem ég ákveð þá verður bara lokaákvörðun. Vonandi verð ég ekki í skrítnu skapi og sæki um að fara til Póllands að læra líffræði. Vinsamlegast krossið fingur!

5.3.04

Ég er annars að fara á árshátíð í kvöld...spennandi eður ei? That is the question!

3.3.04

Jæja, nú ætla ég að reyna að skrifa nokkrar línur um ferðina. Það gerðist samt eiginlega allt of mikið til að ég geti skrifað um allt. Reynum samt að byrja:
Miðvikudagur, 25. febrúar:
Við Elías lögðum af stað allt of snemma eftir svefnlitla nótt. Það virðist vera regla hjá mér orðið að sofa ekkert nóttina fyrir flug og þar af leiðandi langar mig helst til þess að skjóta mig þegar vekjaraklukkan baular á mig í morgunsárið. Flugið gekk reyndar vel og mér tókst að sofa nánast alla leiðina. Við höfðum nokkra klukkutíma í Stokkhólmi. Ég reyndi að sýna Elíasi um en rataði ekki neitt. Reyndar rambaði ég á konungshöllina en þurfti að horfa á hana í langan tíma áður en ég staðfesti að um höllina væri að ræða. Við hittum svo Jonas sænska og fórum með honum á kaffihús og skoðuðum ljósmyndasýningu undir yfirskriftinni SPÁNN, mjög áhugavert. Alltaf gaman að hitta Jonas unga. Eftir að hafa dregið ferðatöskurnar um snjóinn í Stokkhólmsborg til að komast að höfninni og mæta aðeins of seint, hittum við danska hópinn og Norðmanninn og Svíana sem þeim fylgdu. Nokkrir myndarmenn með í hópnum. (lofaði að tala um sæta stráka). Kvöldið á bátnum var afskaplega fyndið. Við blönduðum aðeins geði við hópinn en fórum svo upp á diskótekið þar sem fjöldann allan af innflytjendastrákum á þörfinni var að finna. Ég hef satt best að segja aldrei séð annað eins. Eftir nokkur góð dansspor fórum við þreytt í háttinn í ogguponsulitla klefanum okkar.
Fimmtudagur, 26. febrúar:
Aftur þurftum við að vakna of snemma og skipta um fararkost. Við tókum nefnilega lest frá Turku til Tampere. Í Turku var allt snævi hulið og satt best að segja dálítið fallegt um að lítast. Danirnir byrjuðu strax í snjókasti, nokkuð sem þeir áttu eftir að halda áfram með það sem eftir lifði ferðar. Ég setti upp terroristahettuna og reyndi að sofa í lestinni og var ögn úldin þegar á leiðarenda var komið. Eftir langa gönguferð á hostelið þar sem línuskautahjólin undir ferðatöskunni voru reynd til hins ýtrasta, komum við okkur fyrir. Ég deildi herbergi með dönskum hrakfallabálki, tveimur íslenskum stelpum og tveimur Finnum. Það fyrsta sem við gerðum í Tampere var að heimsækja Hesburger, sem er nokkurs konar McDonald´s Finnlands. Ég er nú ekki svo hrifin af McDonald´s en jafnvel enn þá lítt hrifnari af Hesburger. Við fórum svo upp í mjög háan turn þar sem við gátum séð yfir alla Tampere-borg, eða hefðum að minnsta kosti átt að geta séð hefði skyggnið ekki verið slæmt. Danirnir héldu áfram í snjókasti. Um kvöldið fórum við í fyrsta gufubaðið. Þar var möguleiki á að baða sig í eins konar vök, fremur svalt. Það tók mig um það bil fjórar eða fimm tilraunir að dýfa mér alveg ofan í vatnið, fyrst dýfði ég tánum ofan í, svo óð ég upp að hnjám og á endanum smellti ég mér ofan í upp að höfði. Íííííííískalt! Þetta sama kvöld lékum við líka ýmsa leiki, reyndum að raða okkur upp í stafrófsröð og svo eftir augnalit, frá ljósasta að dekksta. Ég var með þriðju dekkstu augun á eftir tveimur af asískum uppruna. Mamma, ertu viss um að ég sé með íslensk augu? Varstu að dilla þér með Chi Vang?
Föstudagur, 27. febrúar:
Eftir morgunmat var ferðinni heitið á listasafn þar sem við skoðuðum finnska list frá ýmsum tímabilum. Nokkuð áhugavert barastað. Við vorum hreint og beint annað fólk menningarlega sem fór í gufubað rétt um hádegisbil. Saunan sem við heimsóttum í það skiptið var hreint út ekki slöpp, þetta var sú elsta í bænum, ef ég skildi rétt. Að sjálfsögðu varð heldur heitt í kolunum þarna inni svo að nokkrar stúlkur tóku til við að dreifa huganum með því að lemja hvor aðra með trjágreinum (!?!?!) en okkur Íslendingunum þótti það heldur skrítinn siður og fórum því frekar út og veltum okkur upp úr snjónum á heldur efnislitlum baðfötum. Rooosagaman! Svo kom líka blaðamaður sem jók enn frekar á frægð mína í Finnlandi. Hann tók myndir af mér í snjónum og svo tók hann líka viðtal sem birtist í finnsku dagblaði daginn eftir. Sem betur fer birti hann ekki strípilingamyndina af mér, bara aðra litla, heldur mynd af Brian strípihneigða frá Danaveldi og svitakettinum. Það var dálítið fyndið að sjá viðtal við sjálfan sig sem maður skildi ekki. :) Við borðuðum svo á víkingaveitingahúsi og eftir það fengum við um það bil 40 mínútna frítíma, sem ég eyddi ekki í neina vitleysu. Rokið var í H&M og á 20 mínútum tókst mér að máta og kaupa þrjár flíkur. Nokkuð vel af sér vikið það, ekki satt? Næst á dagskrá voru snjóleikir, við fórum í e-n sérfinnskan leik sem ég man ekki hvað heitir en fól í sér að kasta trékylfum í litla trjáhnulla. Nokkuð gaman! Enn skemmtilegra var samt að renna sér á snjóþotu niður mjööög bratta brekku. Nánast án undantekninga hélst maður ekki á þotunni niður alla brekkuna....rooooooosastuð! Kvölddagskráin samanstóð af áti, barferð og dansiballi. Dansað var dátt við ljúfa tóna sem kallaðir voru fram af miðaldra manni klæddum silfurlituðum jakka og með dökk sólgleraugu. Ekkert út á störf hans að setja en kannski dálítið skrítið að spila alltaf einhver helvítis vangalög á tuttugu mínútna fresti. Fólk varð bara væmið og dramatískt. Ætti að banna svona lagað.
Laugardagur, 28. febrúar:
Fúff, það var ekki ljúft að vakna til að fara á fund. Mér leið vægast sagt ekki vel eftir svefnlitla nótt og maginn á mér sneri öfugt. Við héldum engu að síður á fundarstað, Fredrik húmorsgóði, Brian strípilingur, Mikkel fjölþjóðlegi og ég og þar hittum við hina fundargestina, Freyju og nokkra Finna. Fundurinn var ágætur, en hádegishléið betra. Við fórum á ægilega fínan veitingastað og ég borðaði bærilega kjúklingakássu, sem læknaði næstum því magavandamál mín. Ég var satt best að segja frekar fegin þegar fundinum lauk um hálffimmleytið, ég var alveg dottin út og hætt að skilja sökum þreytu og tungumálavandkvæða. Ferðinni var næst heitið í saunu þar sem borða átti pizzu og fara í saunu. Hvort tveggja mistókst hjá mér. Pizzan mín kom ekki svo að ég fór með Miika hinum frábæra og Minnu múmín að kaupa pizzu, kom allt of seint til baka til að ná stelputíma í saununni og endaði svo bara á því að spjalla við aðra saunulata fram eftir kveldi. Á endanum fór ég svo heim á hótel með Norðmanninum, Freyju og Mikkel, við komum við á bar og fórum svo heim að spjalla...ég held ég hafi sofnað yfir spjallinu....
Sunnudagur, 29. febrúar:
Lokadagur Saunaexpressen, ferðin heim framundan. Farið var í gufubað í útjaðri bæjarins og fólk fékk tækifæri til þess að striplast dálítið meira, baða sig í ísvök og leggja lokahöndina á kvefið sem fólk ætlaði sér að fá er heim var komið. Ég var aumingi og baðaði mig ekki í vatninu. Ég fór í gufuna og tók svo til við að taka klámmyndir af öðrum þátttakendum, myndir sem bráðlega verða aðgengilegar á Netinu fyrir áhugasama. Eftir bærilegan hádegismat á veitingabúllunni Paprilla var hópnum skipt upp. Ég ákvað að skoða kirkjur ásamt öðru góðu fólki og gerði það og svo fórum við á kaffihús og ég fékk mér köku!!!! :) Lestarferðin var skemmtileg, ég kenndi Mikkel Dana íslensk blótsyrði og fleira og svo skelltum við okkur öll á djambátinn Isabellu. Kvöldið var skrautlegt, segi ekki meira og mánudagurinn 1. mars svo fullur af þreytu að ég eyði ekki einu sinni á hann sérfærslu. En á heildina séð, FRÁBÆR FERÐ!!!!!
Ég er komin heim eftir afskaplega vel heppnaða Finnlandsferð. Ferðasagan er ekki enn komin í skrifað form en áhugasömum er bent á að bíða. Framundan á Ölmubloggi er margt skemmtilegt....sætir strákar, gufuböð og snjódýfa, dönsk blótsyrði og bátsferðir. Gleymið ekki að skoða næstu færslu af Ölmubloggi.