14.9.04
Tíminn líður hratt á gervihnattaöld
og það styttist óðum í brottför. Allt er svo að segja klárt nema þessir billjón hlutir sem ég þurfti að redda áður en ég færi. Það kemur nú samt að því að það klárast allt saman. Úti er mestallt klappað og klárt. Jordi leigði íbúð sem að sögn Rosu er fín, í betra hverfi en hin og tvö af þremur herbergjum eru flott. Þar að auki er hinn fínasti ofn sem á að henta vel til pitsugerðar. Ekki slæmt það. Jordi segir hverfið fullt af Suður-Ameríkönum og Marrokkóbúum og lítið um myndarlega karlmenn. Veit ekki hvort þeirra ég tek trúanlegt, kannski bara bæði þar eð Rosa er afar veik fyrir Marokkóbúum...eða voru það Marokkóbúarnir sem voru veikir fyrir henni? Nú er Jordi annars búinn að ákveða að leigja út aukaherbergið svo að leigan lækkar örlítið. Hann ætlar að hengja upp auglýsingu á skrifstofu Iberiaflugfélagsins svo að nú verða allir að krossa fingur og vona að til okkar flytji myndarlegur flugmaður. Þetta kemur mér samt í ákvörðunarstöðu, ég má nefnilega velja hvort ég vil leigja herbergi með hjónarúmi sem er dálítið dýrt eða herbergi sem er minna og auðvitað ódýrara. Hvað finnst ykkur?