Mér finnst sjálfri fremur leiðingjarnt að lesa nákvæmar lýsingum af ferðalögum fólks svo að ég hyggst ekki lýsa hverri mínútu ferðalagsins, frekar bara segja frá því spennandi. Sjáum hvort það tekst.
Ferðalagið byrjaði satt best að segja ekki sérlega vel, sökum mikillar snjókomu í Madrid (í fyrsta skipti sem ég sé snjólag inni í borginni) seinkaði fluginu. Spánverjar hrökkva jú í kút þegar byrjar að snjóa og vegna þess og vegna tæknilegra vandamála í flugvélinni komum við til Amsterdam um það bil hálftíma eftir að flugið þaðan til Helsinki átti að fara. Til að gera langa sögu stutta þá endaði ég á því að gista í hjónarúmi á Ibis hóteli, rétt við Schiphol, við hlið þrítugs Spánverja, Jaime að nafni. Sérkennileg nótt og einnig kvöldverðurinn með kínversk-spænsku hjónunum, spænsku konunni sem býr í Búkarest, Jaime hjásvæfu minni og finnska parinu. Jaime lýsti þessu vel, sagði þetta hafa verið eins og atriði í Almodovarmynd, algjörlega súrrealískt en ad sama skapi mjög skemmtilegt. Satt best að segja er ég of þreytt til að skrifa meira núna enda hef ég lítið sofið þessa helgina en síðar fáið þið að þjást yfir færslunum mínum...hohoh, heyra um Holiday Inn manninn og fleira. Un beso.