25.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 5. færsla

Dagurinn í gær var fyrsti dagurinn sem var alveg rigningarlaus og raunar var ekki einu sinni skýjað. Það var samt enginn svakalegur hiti en mjög gott þegar sólin skein. Þetta passaði vel við plön dagsins, þ.e. að fara í dýragarð í um það bil eins og hálfs tíma fjarlægð, dýragarð sem heitir ZooParc de Beauval. Maggi hafði suðað nokkrum sinnum á dag að hann langaði í dýragarð: Ég mig langar í dýragaaaarð og tími var kominná að uppfylla þá ósk.

Beauval-dýragarðurinn er svakalega flottur, risastór og þar af leiðandi frekar mikið pláss fyrir dýrin. Það magnaðasta var líklega girðingin þar sem gíraffa, nashyrninga, sebrahesta og antilópur var að finna. Allt svo tignarleg og flott dýr, nashyrningurinn líka. Maggi var hrifinn af flestu en mörgæsirnar, aparnir og kannski gíraffarnir nutu aðdáaunar hans umfram önnur dýr. Hann reyndar gerðist sekur um brot á reglum dýragarðsins, reglufylgjandi móður hans til mikillar gremju. Við fórum tvö inn í litla girðingu þar sem hægt var að labba eftir göngustíg og klappa og koma nálægt geitum, smáhestum og öðrum húsdýrum. Meðfram göngustígnum var eins konar girðing sem Maggi skreið undir og hljóp góðan hring á grasflötinni. Þá voru góð ráð dýr, ekki komst Jónas að sækja hann (annars hefði ég pottþétt sent hann) svo að ég neyddist til að skríða undir girðinguna og sækja orminn. Það má taka fram að hann skammaðist sín mikið eftir að útskýrt var fyrir honum hversu óleyfilegt þetta væri.

Á leiðinni heim ákváðum við að keyra ekki hraðbrautina heldur keyra eingöngu gegnum bæi og þorp. Það var svakalega gaman. Það eru margir flottir bæir á þessari leið, t.d. Contres og St. Aignan. Hefði kannski verið gaman að stoppa þar eða í einhverjum kastalanum en orkuleysi háði okkur eftir marga klukkutíma í dýragarðinum. Eftir kvöldmat heima í landi skelltum við okkur út í hjóla- og labbitúr. Fyrst fór Maggi á lítið hlaupahjól en það var frekar erfitt að hjóla á því á hellulögðum götum Orléans. Því fannst honum ekkert tilvaldara en að við pabbi hans ýttum honum, ekkert sérstaklega þægilegt þar sem um mjög lágt hlaupahjól var að ræða.

Nú er ferðinni heitið út í von um að ná að labba aðeins um og borða Crêpes áður en fer að rigna af krafti. Ætli einhvers staðar sé hægt að fá rúðuþurrkur á sólgleraugu?

23.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 4. færsla

Það lítur út fyrir að við séum öll annaðhvort að fá kvef eða komin með ofnæmi, í hið minnsta við Jónas en mögulega Maggi líka. Við lítum alltaf út fyrir að vera afskaplega óhamingjusöm, með tárin í augunum nema þá að fólk álíti okkur hassreykingafólk. Það er auðvitað möguleiki líka. Bara gaman!

Í dag fórum við í hjólatúr meðfram ánni Loire. Við hljóluðum enga svakalega vegalengd enda var stýrið á hjólinu sem ég notaði bilað og dálítið hættulegt að vera með körfu framan á og barnastól aftan á þegar stýrið byrjaði snögglega að beygja í aðra átt en framhjólið. Þetta kom þó ekki að sök, bara olli því að við ákváðum að fara ekki mjög langt. Við vorum skemmtilegir foreldrar aldrei þessu vant og eyddum góðri stund á tveimur leikvöllum, Magga til mikillar gleði. Hér eru sjóræningjaskip á öllum leikvöllum, sem passar vel þar sem drengurinn segist vera besti stýrimaður í heimi, eins og Pingó í Rasmusi Klumpi. Það var kannski ágætt að stýrið var bilað, þar sem við styttum dvölina þarna við ánna í annan endann og komum þannig í veg fyrir að verða holdvot þegar byrjaði að rigna, við urðum bara þó nokkuð mikið vot. Rigningin fór reyndar ekkert í taugarnar á besta stýrimanni í heimi, sá sofnaði í hjólasætinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að halda honum vakandi.

Eftir svefnpásu héldum við svo á rölt um bæinn, keyptum skóbúnað á Jónas og versluðum í matinn hjá afskaplega hressum afgreiðslumanni í Carrefour sem lagði sig fram við að bera allt fram á ensku, vildi greinilega æfa sig...törtí fæv sagði hann og horfði á mig spyrjandi til að vita hvort þetta væri rétt hjá honum. Við elduðum svo kúskús og kjöt og hengum í sófanum og reyndum að brjóta eins og einn myndaramma. Nóg að gera í la France!

22.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 3. færsla

Magnús hefur lært nýjan sið hér í Frakklandi af stráknum sem við sáum á kínverska staðnum, það er alveg augljóst. Í dag fórum við í nýja hringekju og þegar ég segi drengnum að þakka fyrir sig (segja merci) grípur kappinn í höndina á hringekjustjóranum og ropar út úr sér einu stykki af merci. Sagan endurtók sig svo þar sem við fórum að borða, nema hvað að starfsmaðurinn þar vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við þessu undarlega barni.

Annars tókst okkur að heimsækja garð Louis Pasteur - sem er svakalega flottur - og skoða dómkirkjuna hér í dag. Dómkirkjan er falleg bygging og þar inni voru alls konar gripir til sýnis, mögulegt að kveikja á kertum og eins voru myntir með ásleginni mynd af kirkjunni til sölu. Ég man hvað mér þótti svona myntir flottar þegar ég fór til Frakklands fyrir um það bil tíu árum. Sigga keypti fleiri en eina svona mynt og gott ef ég splæsti ekki líka í svona. Alveg frábært að eiga í minjagripasafni - eða ekki. Magnús var heldur hávær í kirkjunni enda var hann að leita að Séra Jóni. Ég er ekki alveg pottþétt á því hvern um var að ræða en eftir miklar vangaveltur höfum við komist að því að hann sé að leita að prestinum í Grænadal, þ.e.a.s. Reverend Timms úr Póstinum Páli. Líklega er hann kallaður Séra Jón í íslenskri þýðingu. Því miður var leit Magnúsar árangurslaus, enginn prestur lét sjá sig í kirkjunni - kannski sem betur fer, en það er alveg ljóst að hann gaf ekkert eftir við leitina.

Síðdegis fór að rigna svo að við hálffestumst uppi í íbúð, dottuðum, lásum og Magnús reyndi að finna sér dót að eyðileggja. Svo lásum við að sjálfsögðu um voðaverkin í Noregi, mjög sorglegt allt saman. Við skruppum reyndar út nálægt kveldi til að kaupa vatn, og þar reyndi á málleysið. Afgreiðslukonan reyndi að segja eitthvað við okkur (annað en takk, gjörðu svo vel og bless) en ég skildi ekki bofs. Fúlt, fúlt. Verkefni kvöldsins eru svo púsl sem eru svo hrikalega erfið að ég gafst upp. Það vantar alveg afþreyingu fyrir fávita hér í hús. Allt hérna er hugsað fyrir hugsuði, sem sé ekki fyrir okkur. Góða nótt!

21.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 2. færsla

Letilífið heldur áfram hér í Orléans og spurning hvort ekki þurfi að venja okkur af þessari leti. Sólarhringnum hefur verið snúið við hjá Magnúsi sem í kjölfarið sefur aðeins lengur á morgnana, svo lengi í morgun að Jónas var kominn á fætur á undan honum. Eftir að hafa borðað morgunmat og eytt óeðlilega löngum tíma í að koma okkur í sturtu og föt héldum við í labbitúr. Við gerðum tilraun til þess að finna stað sem selur ódýrara crépes-pönnukökur en þrjósku minnar vegna fundum við ekki staðinn fyrr en í síðari labbitúr dagsins. Pönnukökurnar bíða því betri tíma, sem líkast til verður á morgun.

Ferðinni var svo heitið í hringekju sem stendur á risastóru torgi. Þetta er rosalega flott gamaldags hringekja, meðal annars með hestum sem lyftast upp og niður. Það þarf vart að tilkynna að Magnús er stórhrifinn. Við nýttum því strax annan af miðunum sem franska fjölskyldan skildi eftir handa honum. Maggi rétti starfsmanninum miðann orðalaust enda skildi hann ekki orð af því sem maðurinn reyndi að tala við hann og hóf svo að skríkja af ánægju. Hann skríkti hálfa leiðina í hringekjunni og grét svo þegar átti að halda burt. Við náðum aðeins að deyfa sorgina með því að skoða skó í skóbúð og smám saman hætti hann að hugsa um þetta, þó staðráðinn að prófa hringekjuna sem fyrst aftur. Við gerðum það raunar síðar um daginn, og ekki var gleðin minni þá. Við sjáum fram á að þurfa að splæsa í hringekjuferð í hvert skipti sem við göngum þarna fram hjá, sem sé um það bil tvisvar á dag.

Annars gengum við eiginlega bara um í allan dag, gengum um bæinn og skoðuðum mannlif, hús og búðarglugga, gengum meðfram Loire-ánni og settumst þar á stétt og fengum okkur hressingu. Við gerðum einnig slæm kaup, keyptum minniskort í myndavélina á kostakjörum en uppgötvuðum svo að það var of stórt og líklega fullkomið fyrir myndavélina okkar svo að við héldum aftur í sömu búð síðdegis til að kaupa kort sem virkar. Ef einhvern vantar SDHC minniskort, þá er um að gera að blikka mig. Eins keypti Jónas ódrekkandi rauðvín, og við mat sem að hluta til var frekar slappur. Við fórum nefnilega á kínverskan veitingastað í hádeginu og borðuðum þar að hluta mjög ljúffengan mat en að hluta hálfvondan. Þjónustan var samt afskaplega skemmtileg, þjónarnir reyndu að eiga samskipti við Magga, prófuðu að tala við hann hollensku en það virkaði lítið. Því kenndi ég honum að segja takk og benti honum svo á að herma eftir frönskum gæja á næsta borði. Sá var líklega fimm sinnum eldri en Maggi og kunni því alla kurteisissiði upp á tíu. Hann setti servíettu í hálsmálið - nokkuð sem mér tókst að fá Magnús til að apa eftir, og tók svo í höndina á þjóninum og þakkaði fyrir sig. Maggi gerði slíkt hið sama, enda orðinn sprenglærður í franskri tungu, greip í höndina á þjóninum sem var alveg óviðbúinn og splæsti einu Merci á kauða. Heimsmaður á ferð!

Við vorum líka bómullarforeldrar í dag. Fórum nefnilega á leikvöll síðdegis til að skemmta litla rassi. Leikvöllurinn var inni í hálfgerðum hundagarði en leikvöllurinn sjálfur var girtur og lokað með hliðum beggja vegna. Eftir ágæta stund við leik, kom allt í einu maður inn á leikvöllinn og stóð þar. Við Jónas fengum bæði voðalega slæma tilfinningu fyrir þessu eftir að maðurinn hafði staðið góða stund og ekki virst eiga neitt erindi þarna. Það endaði því með því að við flúðum leikvöllinn frá manni sem ábyggilega ætlaði að hitta vin sinn eða lítil frændsystkini. Gott að vera með ofsóknaræði.

Annars hélt rigningin sig víðs fjarri frá því í morgun og þar til í kvöld og sólin náði meira að segja að gægjast gegnum skýin. Uppáhaldsorðið hans Magga þessa dagana er að sóla sig og hann segist sóla sig eins og amma í Sólheimum. Hann missti þó því miður af sólarglætunni en náði kannski nokkrum geislum í kerruna þar sem hann svaf. Það er þó hæpið að nokkuð verði af sólbaði á morgun, það virðist ætla að rigna allan daginn. Líklega hefðum við frekar átt að pakka sjóstökkunum okkar en sólarkreminu...

20.7.11

Frakklandsferð sumarið 2011 - 1. færsla

Það er svo gaman að eiga dagbók úr ferðalögum, svo að ég ætla að gera tilraun til að skrifa örlítið um dagana í Frakklandi. Ég hef hingað til skrifað um nokkrar ferðir á þessa bloggsíðu en nú hefur aukaferðalangur bæst í hópinn svo að líklega verður mikið skrifað um hann og hans upplifun.

Við flugum með Iceland Express að morgni 19. júlí. Eftir hryllingssögur af flugfélaginu í fjölmiðlum að undanförnu, bjuggumst við ekki við einu né neinu og gerðum nánast ráð fyrir seinkun. Seinkun varð vissulega á fluginu, líklega klukkutími eða einn og hálfur. Það gerði þó nákvæmlega ekkert til enda lá okkur ekki sérlega á að komast á áfangastað. Það kom á óvart að nóg pláss var fyrir fætur, mögulega vorum við heppin að sitja framarlega og eins var afskaplega ljúft að fá Ipad að láni endurgjaldslaust fyrir Magga og okkur. Vonum að heimferðin verði jafngóð.

Einkasonurinn hegðaði sér óaðfinnanlega alla ferðina. Þægilegri ferðafélaga er eiginlega ekki hægt að hugsa sér. Hann vaknaði þegar við héldum á honum út í leigubíl og sofnaði ekkert aftur fyrr en við vorum að lenda í París. Honum þótti afskaplega spennandi að fara í rútu en var ekki alveg nógu sáttur við að bílstjórinn var ekki með bílbelti. Hann hikaði ekki við að gera athugasemdir við það, enda eiga jú ALLIR að vera með belti, en bílstjórinn annaðhvort heyrði ekki í honum eða þóttist ekki heyra. Mikill reglumaður á ferð. Sem betur fer svaf Maggi af sér þar sem við ferðuðumst í troðfullri neðanjarðarlestinni með tugi kílóa af farangri auk kerru og eins var ég afskaplega þakklát konunni sem eiginlega píndi mig beint í sitt sæti þegar hún stóð upp, jafnvel þótt ég þyrfti að klofa yfir annað sæti til að troða mér fram hjá öðrum farþegum í lestinni. En ég vildi jú hlýða. Við komum rúmlega sjö til Orléans og við tók labbitúr til að finna íbúðina með allt draslið í eftirdragi. Það var mjög jákvætt að stytt var upp en á móti okkur hafði tekið hellidemba á flugvellinum.

Íbúðin sem við búum í hér er frekar ólík því sem við eigum að venjast. Hún er á efstu hæð í eldgömlu húsi í þröngri götu sem er víst ekki bara göngugata en lítur samt út fyrir það. Lofthæðin er svakaleg og meira að segja að hluta á tveimur hæðum. Heima hjá okkur er alveg ágætlega mikið af dóti og drasli (oft meira en góðu hófi gegnir) en hér er mínimalismi bannorð. Það er fullt af myndum og teikningum á veggjum, leikföng í nokkrum stöðum og alls konar smádót. Svo eru bækur úti um allt, í tvöfaldri röð í flestum bókahillum, á klósettinu og í bunkum á gólfinu. Þetta hljómar dálítið ýkt en þetta er eins konar skipulögð óreiða og alls ekki slæmt, bara mjög kósí og góð tilbreyting.

Maggi kann afskaplega vel við sig hér og var ekki lengi að sækja lítið hljómborð, draga það inn í stofu og setja við hljóðfæraleik. Þetta er eiginlega eins konar skemmtari svo að Maggi situr og spilar og dillar sér í takt. Engin þörf á annarri tónlist hér. Eins talar þetta einstaklega skemmtilega leikfang þegar Maggi er ekki að spila, spyr hvert hann hafi farið á frönsku. Verst að hann skilur það ekki.

Við náðum að taka okkur góðan göngutúr í dag og versla inn áður en við fórum inn aftur í hádegismat og eftirmiðdagslúr. Þegar við vöknuðum aftur ætluðum við að reyna að ná að vera aðeins úti áður en aftur myndi byrja að rigna. Það mistókst allhrapallega. Við löbbuðum vissulega heillengi um áður en demban hófst en svo festumst við eiginlega undir trjám í tómum garði og biðum eftir að rigningunni slotaði. Það gerðist ekkert. Maggi naut sín samt í botn, hljóp um allt á pollabuxum og reyndi að ákveða hvaða vagn hann myndi velja í hringekjunni þegar búið væri að opna hana. Við ákváðum á endanum að labba af stað heim en það hætti eiginlega ekki að rigna fyrr en stuttu áður en við komum heim í land eins og Maggi kallar íbúðina. Á morgun verður stuðs við norsku veðurspána og reynt að vera úti við fram að hádegi þegar byrja á að rigna að nýju.

Góða nótt!

15.2.09

Smásaga eftir systu

Þegar ég hjálpaði Siggu að flytja um daginn rakst ég á bók með smásögum sem tóku þátt í einhverri smásagnakeppni fyrir fimmtán árum eða svo. Við Sigga tókum báðar þátt og því eru sögurnar okkar til á prenti. Mín saga er alveg drepleiðinleg en Siggu öllu skemmtilegri. Leyfi því lesendum að njóta hennar. Minn uppáhaldshluti er líklega þegar þau fara að dansa og svo er lokasetningin mjög góð:

Smásaga

Einu sinni var mjög fátækur, ógiftur maður. Hann átti enga að nema frænku sem átti heima í Noregi. Dag einn var hann að labba framhjá snyrtistofu einni. Þá sá hann unga og fallega stúlku sem missti vasaklútinn sinn. Maðurinn tók eftir þessu samstundis og sagði: “Humm, fröken, þér misstuð vasaklút yðar. Gjörðu svo vel. Á ég ekki að hjálpa þér yfir götuna? Það er svo mikil umferð.” Þá sagði frökenin: “Jú þakka þér fyrir.” Og svo fylgdi hann henni yfir og á endanum hafði frökenin boðið honum að borða hjá sér. Þau fóru heim til hennar. Hún bjó í fallegu húsi á Hjallavegi. Maðurinn virti fyrir sér umhverfið. Og loks byrjuðu þau að borða. Maðurinn tók svo sannarlega vel til matar síns og varð vel saddur. Og þá sagði frökenin hressilega: “Æi komum að dansa.” Þau dönsuðu fram á nótt Og þegar maðurinn ætlaði að fara að þakka fyrir sig og fara heim, var komið alveg hryllilegt veður. Þá sagði frökenin: “Það er of vont veður til að þú getir farið heim svo að ég býð þér að gista hér í nótt.” Þá sagði maðurinn: “Nei, nei það er alltof mikil fyrirhöfn.” Og morguninn eftir fór maðurinn. Frökenin reyndi að halda honum en hann varð að fara í vinnuna. Maðurinn og frökenin, sem hétu Ívar og Anna, hittust dag eftir dag.
Dag einn fór Ívar í sund og þar hitti hann Önnu. Ívar var hissa þegar hann sá Önnu af því að hún var búin að klippa sig. Og þegar hann var kominn heim þá fór hann til Önnu. Þegar Anna kom til dyra kraup hann strax á hnén og sagði: “Ó elsku anna, viltu giftast mér?” Þá sagði Anna: “En óvænt ánægja, en svarið er JÁ.” Og þau giftust og eignuðust börn. En þá kom sorgin og Anna eignaðist sitt síðasta barn, en barnið dó. Og þau höfðu alltaf sorg innra með sér. Og svo kom að því að yngsta barnið fór að heiman. Öll hin börnin höfðu verið farin. Þá bjuggu Ívar og Anna ein.
Á gullbrúðkaupi hjónanna var þeim gefin ferð til Portúgal. Þau skemmtu sér svo sannarlega vel og þetta var alveg nýtt fyrir hjónin. En á leiðinni heim þá fórust Ívar og Anna í flugslysi. Og þar með lauk ævi góðra hjóna.

1.1.09

Litli ormur er fæddur

Litli Ormur Ölmu- og JónAsson (viðbót: Jónas, þú varst ekkert að hafa fyrir því að kommenta?) er kominn í heiminn. Hann fæddist klukkan tvö aðfaranótt fjórða sunnudags í aðventu, mætti á svæðið á sama tíma og Gluggagægir. Drengurinn var þrettán merkur og 51,5 sentimetrar. Algjör písl miðað við flest börn í fjölskyldunni. Hann er afar hárfagur og mikill rólyndismaður, að minnsta kosti enn sem komið er. Mögulegt er að panta skoðanir á gripnum í símanúmerum foreldranna.

6.10.08

Berlín

Ég er í Berlín að njóta þess hvað gengið er hagstætt. Ég gleymdi að taka með mér sokkapör en vegna frétta af brjálæðinu heima er ég að spá í að spara mér að kaupa mér eitt eða tvö pör og þvo frekar það sem ég notaði á leiðinni hingað í vaskinum á hótelinu með handsápu. Annars er ég á rosalega fínu hóteli (sem greitt var áður en versta aldan reið yfir), það er m.a.s. í boði að baka sér vöfflu í morgunmat!!! Er hægt að biðja um það betra? Flugferðin gekk annars vel, Ramses virtist ekkert taka þessum þvælingi illa og mótmælti ekki einu sinni þegar hálfvitinn sem sat fyrir framan mig í flugvélinni hallaði sætinu sínu aftur þannig að ég hafði um það bil ekkert pláss. Annars var ég á fundi í dag og fer aftur á fund á morgun en þá yfirgefa samstarfsfélagar mínir frá hinum Norðurlöndunum mig. Ég þarf svo að bíða hér í Berlín fram á fimmtudagsmorgun en mun vonandi geta unnið frá hótelinu, sofið út og skoðað mig aðeins um. Og já, ég ætla að kaupa hvítt Twix! Jei.

10.8.08

Ferðasaga?

Ég held að það sé ómögulegt að skrifa ferðasögu í einni færslu um mánuð í CISV-sumarbúðum. Vissulega er frá mörgu að segja en hver dagur í svona sumarbúðum er svo keimlíkur en á sama tíma mismunandi að það er erfitt að segja frá. Það sem ég get sagt er að við bjuggum í frekar litlum skóla í þorpi sem heitir Kapp og er rétt utan við Gjövik. Þetta er um það bil tvo tíma fyrir utan Osló. Í skólanum var í raun allt pláss nýtt. Við sváfum allir kvenkyns fararstjórar og jc-ar í einni skólastofu, í fjórum skólastofum voru krakkar og í einni var staffið. Á staðnum var líka matsalur, eldhús, farastjóraherbergi, leikfimissalur og sturta. Sem sé fínasta aðstaða. Nánasta umhverfi skólans var mjög fallegt, Mjösa vatn var þarna nálægt og gátum við séð aðeins í vatnið frá skólanum. Allt var svakalega grænt enda var þetta í hálfgerðri sveit eða eins konar sveitaþorpi að minnsta kosti. Þar sem það var svona stutt í vatnið fórum við tvisvar að vatninu til að synda, gengum niður í mót í hálftíma og örugglega svona 45 mínútur á leiðinni til baka upp í mót. Í fyrra skiptið fannst mér vatnið allt of kalt en í seinna skiptið fór ég ofan í og það var æðislegt. Þá var líka óendanlega heitt og vatnið víst eins heitt og það verður.
Börnin mín voru ósköp þægileg að flestu leyti og höfðu það gott í búðunum, að ég held. Það voru í hið minnsta engin alvarleg vandamál með þau, bara smáheimþrá og annað eðlilegt. Flestir krakkarnir voru líka hin mestu krútt. Sumir orðnir algjörir unglingar meðan aðrir voru algjör börn. Athyglisvert að sjá muninn á þeim. Þótt þetta hafi verið yndsileg börn upp til hópa var ég óendanlega fegin að fá smá frí og ekki síst að fara í annað umhverfi á leaders' weekend. Þá fóru allir fararstjórar og JC-ar í lúxussumarbústað einhvers staðar í Noregi (ég keyrði sjálf þangað en ég gæti ekki giskað hvert við keyrðum jafnvel þótt það væri upp á líf og dauða). Þar dvöldum við frá föstudegi til sunnudags og gerðum nákvæmlega ekki neitt. Það var yndislegt. Samt gott að hitta börnin eftir helgina. Á hinum frídeginum mínum fór ég ásamt sænska og þýska fararstjórunum til Osló þar sem við gistum á farfuglaheimili. Við fórum út að borða við Akersbrygge, kíktum aðeins í búðir og sváfum á grasflötum, sem sé uppskrift að þægilegum degi. Reyndar var ótrúlega heitt og líklega aftraði það mér frá því að eyða fúlgum í verslunum. Vissi annars fólk að í sjoppu við aðalgötuna í Osló kostar lítil kók í dós 23 NOK sem gerði 360 islenskar krónur þegar ég var þar. Er þetta eðlilegt? En já...svona allt í allt var þetta skemmtileg upplifun sem ég hefði ekki viljað missa af. Ég lærði heilan helling af þessu, var úti og hreyfði mig meira en en ég hefði gert hér heima og hafði það svakalega gott. Mæli með CISV!

16.7.08

Oppland 3

Allt gott að frétta frá Noregi annað en að ég hef engin bréf fengið. Er vægast sagt svekkt þar sem allir hinir krakkarnir eru búnir að fá. Í dag fórum við í ferð á eldgamlan sveitabæ uppi í fjöllunum. Það var ískalt úti svo að krakkarnir hálfskulfu margir hverjir. Börnin skoðuðu beljur og fóru í leiki og svo fengum við að smakka ekta norskan mat, graut með smjöri og kanel og einhvers konar skinku. Grauturinn var öðruvísi, skinkan mjög góð. Þjóðakvöldin tókst ágætlega. Flestir smökkuðu harðfisk og flatkökur með hangikjöti og margir bitu í lýsisperlu. Að minnsta kosti tveir köstuðu upp. Núna á að kveikja eld svo að ég ætla að skella mér út. Bíð eftir póstkortum og bréfum.

12.7.08

Póstkort og bréf

Langar þig að senda mér bréf? Utanáskriftin er þessi. "Name" "Country" CISV "Unique village" C/o Bjørnsgård skole N- 2849 Kapp NORWAY

9.7.08

Oppland 2

Það er svo gaman að hafa skrifað eitthvað um sumarbúðadvölina svo að ég nota þetta bara eins og dagbók, jafnvel þótt ekki verði þetta áhugavert að lesa. Börnin mættu á svæðið og friðurinn er vissulega úti en samt eru lætin í þeim alls ekkert svo mikil, ekki enn. Flestir krakkanna eru ósköp þægir og algjörar rúsínur. Aðrir eru tjah...fjörugri. Við höfum enn ekkert farið út úr búðunum með krakkana, vonandi förum við bráðum niður að vatni að baða okkur. Það er svakalega heitt úti, ég búin að brenna en krakkarnir sem betur fer ekki. Sem sé allt með kyrrum kjörum. Fylgjast má með búðunum á cisvuniquevillage.blogspot.com. Lítið fram hjá því hvað myndirnar af mér eru óóóóógeðslegar!

6.7.08

Oppland 1

Þá er ég mætt í búðirnar eftir frekar tímafrekt ferðalag hingað. Raunar var tveggja tíma seinkun á fluginu okkar en við vissum af því fyrirfram og gátum því sofið auka tvo tíma. Vitanlega þurfti ég samt að vakna kl. 4 til að athuga hvort tíminn stæðist þannig að ég var frekar þreytt þegar við komum á áfangastað eftir flug, tveggja tíma hangs á flugvellinum, tveggja tíma rútuferð til Gjövik (bílstjórinn virtist sikksakka svo að ég var hálfbílveik hluta leiðarinnar) og svo bílferð til Kapp þar sem skólinn sem búðirnar verða haldnar er. Þetta er fínasti staður, fallegt hér í kring og allt í góðu gengi. Við gistum allir kvenkynsfararstjórar og JC-ar (unglingastarfsmenn) í einni skólastofu á dýnum svo að það er hálfgerð náttfatapartýsstemmning. Starfsfólkið í búðunum er svakalega indælt og við búin að læra heilmikið af þeim meðan börnin dvelja hjá gistifjölskyldum. Seinna í dag koma samt krakkarnir og þá býst ég við að friðurinn sé úti. Eða ég eiginlega veit það. Þarf að fara að undirbúa komu barnanna, þrífa og fleira. Læt í mér heyra fljótlega þar sem hér er þráðlaust internet! Jei!

3.7.08

CISV

Á föstudagsmorgun held ég í fjögurra vikna ferð til Noregs þar sem ég mun vera fararstjóri í sumarbúðum CISV fyrir 11 ára börn. Ég held að ég hafi aldrei farið í ferð sem krefst jafnmikils undirbúnings en að sama skapi hef ég aldrei átt eftir að gera jafnmikið einum degi fyrir brottför. Það liggur við að ég fái hjartsláttartruflanir af að hugsa um það. Börnin og foreldrar þeirra hafa safnað ógrynni skiptidóts og alls kyns hluta og matar sem við munum nota til að skiptast á og eins til að gefa öllum í búðunum. Þannig er ég nánast búin að fylla eina ferðatösku af súkkulaðistykkjum, grjóti, seglum með íslenska fánanum og íslenska fánanum í öllum stærðum og gerðum. Enn á þá hellingur eftir að fara ofan í töskuna...harðfiskur, lýsisperlur, hangikjöt, flatkökur og ferðagögn. Ég verð svo þreytt af að hugsa um þetta að ég bara verð að fara að sofa.

30.6.08

Til að fela tvíburana

Ef þetta er ekki næg ástæða til að byrja að horfa á fótbolta, þá held ég að ekkert sé það.

3.6.08

Tvíburar í óskilum

Þetta fallega systkinapar fannst í kassa með gömlu drasli heima hjá mér. Ég kannast við að hafa séð þessa tvíbura áður en ég minnist þess ekki að ég eigi þá sjálf. Því leita ég að foreldri/foreldrum drengjanna tveggja. Piltarnir eru ljósir yfirlitum og fremur svipljótir. Þeir eru klæddir í annars vegar blárósóttar buxur og fjólubláar köflóttar. Við þetta ganga drengirnir í hvítum blússum. Drengirnir eru hreinir og virðast við bestu heilsu en af svipnum að dæma eru þeir farnir að sakna mömmu og pabba og vilja komast heim!

7.5.08

Drulla og skítur

Ég var í djúpum skít fyrir fyrsta prófið mitt. Fyrir prófið á morgun ligg ég á botni djúps leðjuhafs. Hjálp!