28.12.05

Frábærar fréttir (breytt)

Æi, mamma var svo sæt að kæta mig með orðunum: "Alma, þú hefur enn tíu ár til að leita þér að maka. Það stendur hér að kjörinn aldur til barneigna sé 34 ára." Áhyggjur mínar vegna barneigna og eggjastokkaklingið var einmitt farið að plaga mig alvarlega. Nú get ég hreinlega gert plan um hvernig ég plata einhvern í hnapphelduna á næstu tíu árum.

Jólin voru annars ósköp svipuð síðustu árum. Enginn fór reyndar í messu, en við borðuðum, vöskuðum upp, tókum upp pakkana og svo kom frændi með fjölskylduna. Allt ósköp gaman! Einhverra hluta var ég samt óhemjuþreytt, kannski eftir hressilegan jólapakkaleiðangur þar sem við Sigga mættum á tröppum fólks rétt áður en það byrjaði að stinga jólasteikinni upp í sig, aðeins of seint á ferðinni. Svo þurftu allir að rífa sig úr náttfötunum um hálfsexleytið á jóladag til að fara í jólaboð til ömmu, allt eins og venjulega. Það eina óvenjulega hjá mér hefur verið að ég hef kíkt í bækur milli máltíða og reynt að læra. Nú þýðir ekkert nema skynsemin. Hefði ég gert plan varðandi BA-skrifin, eins og ég hyggst gera varðandi makaleitina, þá væri ég ekki í þessu rugli í dag.

Annars komst ég að því hversu mikilvægt það er að eiga maka á Þorláksmessu, maka eða góða vini sem hægt er að treysta á að fari með manni í bæinn þetta kvöld. Raunar fór ég með systur og ástmanni hennar í miðbæinn en sökum þess hvað ég var í fúlu skapi (erfitt að vakna eftir eftirmiðdagssiestu) ákvað ég að yfirgefa parið, skrapp til Aspar og þrammaði því sjálf aðeins um í leit að síðustu jólagjöfunum. Væri það vitanlega ekki í frásögu færandi nema vegna þess að ég lenti í áreitni frá miðaldra manni, sem vildi svo gjarnan bjarga mér frá umferðarslysum og vera vinur minn. Gústaf, fyrirgefðu en ég er ekki fyrir eldri menn! Á næstu Þorláksmessu fer ég sko ekki ein í bæinn, kannski ég reyni að stytta tíu ára planið um ein níu ár.