Valla sendi mér búta úr gömlum tölvupóstssendingum sem fóru fram milli okkar fyrir sex árum síðan. Þá þótti okkur eftirsótt að vera nörd og kepptum okkar á milli. Hér birti ég búta úr bréfinu, og ber það saman við nútímann. Úff hvað hlutirnir breytast á stuttum tíma. Það er við hæfi að atriðin séu þrettán.
,,6. 1. 2000
Sælar stúlkur!
Þið báðuð um samkeppni (reyndar ekki) og fenguð hana. Ég ætla hér að koma með einhver rök fyrir því af hverju ég er nörd og þar af leiðandi af hverju ég er meira nörd en þið. Gjörið þið svo vel!
1. Ég er MR-ingur. -Jú, það erum við allar en því er ekki að neita að það er ákveðinn nördaljómi yfir því að vera í lærða skóla. -Ég er ekki lengur þar, núna bara í Háskólanum og m.a.s. á leiðinni út þaðan.
2. Fatastíll minn er blanda af Hagkaup, Vero Moda og Kolaportinu. -segir sig sjálft hvað er nördalegt við það. -Ég er nú alveg hætt að versla í Kolaportinu og fataskápurinn minn er að lang mestu leyti úr H&M.
3. Mín helsta skemmtun er að fara á skyndibitastaði og borða. -Sumt breytist aldrei. Þetta hefur bara aukist ef eitthvað er.
4. Ég hangi á Netinu....á ircinu líka oooog ég skoða mbl.is reglulega. -Ástandið á þessu er ósköp svipað, nema að núna er msn-ið tekið við af ircinu. Mbl.is skoða ég enn þá reglulega, og fullt af öðrum síðum.
5. Ég drekk ekki, djamma ekki og stunda enga skemmtistaði...(nema auðvitað Ak-Inn). -Þetta hefur breyst, ég er víst farin að lifa fremur spilltu lífernu. Svo er ég alveg hætt að fara á Ak-inn, fer bara á Aktu taktu.
6. Aldrei hefur Stöð 2 verið keypt á heimili mínu svo að ég hef alist upp við þá menningu að horfa á bandarískar myndir frá árinu ´83 og norsk-kanadískar myndir á föstudagskvöldum. -Tilkoma Skjás eins bjargaði heilmiklu svo að ég er ekki algjörlega út úr öllu sjónvarpsefni. Erum samt enn án Stöðvar 2 og mér gæti ekki verið meira sama. Held að ég hafi hreinlega lært að elska norsk-kanadískar myndir.
7. Um síðustu áramót heimsótti ég vinkonu mína í klukkutíma og sat með henni inni í eldhúsi hjá afa hennar og ömmu og drakk kók. Svo fór ég heim að sofa! -Núorðið djamma ég raunar oft um áramót...en þetta voru hin fínustu áramót hjá vinkonu minni.
8. Um þarsíðustu áramót tók ég átta videóspólur með þessari sömu vinkonu og vini okkar. -Þetta hef ég ekki endurtekið, ekki enn.
8. Uppáhaldsstaðurinn minn er rúmið mitt...og það er ekki vegna þess að ég stundi villta ástarleiki þar...þvert á móti. -Rúmið er enn uppáhaldsstaðurinn minn, sérstaklega nýja rúmið mitt. Voðalega lítið um ástarleiki í lyfturúminu.
9. Ég hef farið á briddsnámskeið...og mér fannst rosalega gaman. -Síðasta námskeið sem ég tók var í Háskólanum. Hef ekki spilað bridds síðan, en væri nú alveg til í að prófa aftur.
10. Þegar ég var lítil fór ég á tölvunámskeið sem tók fyrir stærðfræðireikning með tölvum. -toppið þetta! -Hmmm...
11. Ég kíki á tölvupóstinn minn um það bil tvisvar á dag en fæ kannski í mesta lagi eitt bréf á dag - frá netklúbbi Flugleiða og ættingjum. -Ég kíki oftar en tvisvar á dag, en fæ óttalega ómerkilegan póst yfirleitt. Nema kannski í dag, þegar ég fékk gömul bréf frá Völlu.
12. Mér finnst gaman að fara í Elko og Rúmfatalagerinn á sunnudögum. -Ég HATA að fara í þessar búðir á sunnudögum. Það er algjör martröð!
13. Ein áramótin (einhvern tímann eftir að ég var orðin að minnsta kosti fjórtán, fimmtán ára) gisti ég heima hjá ömmu minni og við horfðum á sjónvarpsstöð sem sjónvarpaði beint frá forstofunni (Þar er öryggismyndavél) næstum alla nóttina."-Þessi rás var góð!