2.1.06

Gleði á nýju ári

Lesendum mínum óska ég þess að árið 2006 verði fullt af gleði, glaumi og góðum stundum og þakka að sama skapi fyrir liðið ár.

Gamlárskvöld er liðið og var hið skemmtilegasta. Upp úr stendur fyrsta og önnur stöð í Freyjuleikunum, dans á Hressó, fimm þúsund karlinn og fallegi Austurríkismaðurinn. Ég er glöð að ég var ekki heima að læra, þótt vitanlega sjái ég eftir því núna þegar ég reyni að koma skikki á ritgerðarandskotann. Það væri gaman að skoða færslur síðasta hausts og sjá í hve mörgum færslum mér tekst að nefna BA-ið ekki. Örugglega fáum. Talsvert velti ég fyrir mér að setja mér áramótaheit, svona til að brjóta svo í annarri viku janúar ef ekki fyrr. Ég skellti inn nokkrum hugmyndum á spænsku, til dæmis um að ferðast minna, spara pening fyrir íbúð og finna mér kærasta, og læra að segja nei. Allt finnst mér þessar hugmyndir út í hött, yfirleitt vegna þess að ég veit að þetta mun ekki rætast.

Síðasta hugmyndin situr samt í mér, aðallega vegna þess að systir mín kallaði mig push-over. Þar af leiðandi er ég að pæla í að reyna að segja bara alltaf það sem mér finnst, nei þegar það á við og aldrei að láta valta yfir mig. Hin nýja sterka Alma mun láta skoðanir sínar í ljós og satt mun aldrei kyrrt liggja. Ef ég stend við þetta spái ég því að vinahópurinn minn muni lágmark minnka um helming fyrir næstu áramót, kannski ágætt til að spara í jólagjöfum, þá þarf ég ekki að skipta um trú fyrir næstu jól. Annars er líklegra að ég standi ekkert við þetta, betra bara að vera ekki með neitt heit eins og venjulega.