12.1.06
Próf lífs míns
Í dag í vinnunni fékk ég sent próf lífs míns og ákvað að taka það, alls óhrædd og án nokkurrar vitneskju um það sem mín beið. Prófið, sem raunar var vel undirbúið og orðað við Dalai Lama á einhvern hátt, samanstóð af fimm spurningum, hver annarri betri. Meðal annars voru notaðir litir og lýsingarorð til að finna út sannleika lífs hvers og eins. Prófið var gott og blessað en niðurstöðurnar voru sláandi. Þarna gat ég til að mynda fundið út forgangsröðina fimm atriðum í lífinu; fjölskyldu, heiðri/stolti, ást, peningum og starfsferli. Hjá mér var fjölskyldan efst, svo kom heiðurinn/stoltið, því næst peningar og svo ást og starfsferill. Einnig raðaði ég lýsingarorðum á undursamlegan máta og fékk út að ég er mjúk (ætli þeir sjái í gegnum tölvuna að ég er með aukakíló?), að maki minn er lævís (því er ég sammála, hann er svo lævís að honum hefur tekist að fela sig fyrir mér í ansi hreint langan tíma) og að óvinir mínir séu óhreinir. Ætli þetta þýði það að ég eigi að forðast fólk sem lyktar illa? Líf mitt í heildina er iðandi, og hvað haldið þið, kynlífið mitt er vont. Eftir þetta lífspróf, er nokkuð ljóst að ástarsambönd eru ekkert fyrir mig, ástin neðarlega í forgangsröðinni og kynlífið vont. Svo er manneskjan sem ég fékk út að ég elska ekki á lausu. Valla, það er engin von á að þú komir út á markaðinn á næstunni er það?