12.8.04

Sumarleyfi erlendis -faersla 1-

Jaeja, nú er ég stodd í Barcelona og hálfpartinn farin ad efast um ákvordun mína um ad nema í Madrid á naesta ári. Thrátt fyrir thad ad vera ein hér lídur mér vel, thad er gott og gaman ad ráfa um goturnar, skoda búdir, veitingastadi og mannlífid. Thad tók lengri tíma en ég hélt ad finna aftur H&M búdina sem ég kann svo vel vid en eftir ad hafa hrist af mér lítinn mannaling sem vildi fara á kaffihús med mér ratadi ég inn í réttu gotuna. Farfuglaheimilid sem ég bý á hér er ekki jafnskemmtilegt og náttstadurinn í Valenciu. Thar bjó ég í thriggja manna herbergi med tveimur Lundúnapeyjum, kurteisum og snyrtilegum, thrátt fyrir ad vera fremur kaerulausir med ad loka á eftir sér (dyrnar opnar thegar ég vaknadi). Hér er ég á sama farfuglaheimili...(more coming)

27.7.04

Áhugasviðspróf

Já, ég hef tekið nokkuð slík en best hefur mér alltaf þótt að prófa mig bara áfram. Þannig hef ég horft á nokkuð margar spennumyndir til þess eins að komast að því að mér finnst þær frekar leiðinlegar, ég hef gert tilraunir til að stunda líkamsrækt og áttað mig á því að áhugi minn liggur ekki þar og svo mætti lengi telja. Í dag skellti ég mér á sjóinn. Nordjobb fór nefnilega í hvalaskoðunarferð og ég mætti galvösk með samloku í nesti sem ég skellti í mig áður en lagt var úr höfn. Því hefði ég betur sleppt. Eftir um það bil tvær mínútur um borð fór mér að líða illa og vanlíðanin stigmagnaðist svo og náði líklega hámarki inni á salerni skipsins. Ég lá svo á bekk ásamt sænskri stúlku, hlustaði á áhugasaman leiðsögumanninn spenntan yfir því að sést hefði í hvalsporð og sagði við sjálfa mig: „I DON'T GIVE A SHIT". Það slæma er að mér er enn þá óglatt, það hafði ekki góð áhrifa að fylla magann á eftir með fiski, frönskum og ís. Svo skammast ég mín auðvitað líka fyrir að vera íslenskur afkomandi sjómanna sem ekki getur þolað einn stuttan (reyndar fannst hann ALLS ekki stuttur þar sem ég lá niðri í bátnum í vanlíðan) sjótúr. En núna veit ég það, hvalaskoðunarferðir eru ekki fyrir mig. Einu skrefi nær í sjálfsþekkingarleitinni.

21.7.04

júlífærsla

Ég er ekki ein um að vera latur summarbloggari það er nokkuð ljóst en ég ætla engu að síður ekki að nýta það sem afsökun enda hefur þetta sumar verið nokkuð viðburðaríkt og mér finnst vinnan mín svo áhugaverð að ég tala stanslaust um hana. Leiðinlegt að ég leyfi ekki blogglesendum að njóta eða hvað? Síðustu helgi fórum við í raftingferð norður í Varmahlíð. Alls vorum við 47, ótrúlegur fjöldi og þetta heppnaðist allt vel. Reyndar var ég á báti með algjörum gungum og við hentum því engum í vatn eða dönsuðum mikið á gúmmíbátsborðinu en þetta var samt skemmtilegt og ég var stolt af einni stelpunni sem er afskaplega vatnshrædd en lét sig hafa það að koma með og hafði gaman af. Við gistum á Blönduósi og til allrar lukku rigndi ekki, ótrúlegt en satt. Ég á erfitt með að gera upp við mig hvort hápunktur ferðarinnar hafi verið raftingferðin sjálf og stökkið niður af klettinum (vel á minnst, það var skelfileg lífsreynsla) eða barferðin okkar um kvöldið. Þá fór ég ásamt danskri stelpu, Íslendingi og fleirum á lítinn bar í bænum sem væri ekki í frásögu færandi nema vegna þess að ég var íklædd vindbuxum, regnjakka, flíspeysu, ullarhúfu og þessum líka fallegu bláu gúmmístígvélum með límbandi á. Í þessari múnderingu skellti ég mér í dans ásamt heimamönnum...aldeilis gaman :)  

3.7.04

Talandi um fall sökum fíknar

Við Sigga erum orðnar mjög sólgnar í harðfisk og eyðum stórum fúlgum í þetta gæðasnakk í viku hverri. Yfirleitt förum við bara í hverfisbúðina en við látum okkur dreyma um góða harðfiskinn sem ég hef keypt í Kolaportinu tvisvar sinnum. Í annað skiptið sem ég fór heilsaði konan mér „hæ” og brosti en ég ímyndaði mér að hún væri svona ung og „hipp” í sér að hún væri farin að heilsa á þennan máta. Í dag þegar ég fór í Kolaportið komst ég að því að ég hafði rangt fyrir mér. Konan heilsaði aftur jafnkumpánlega og ræddi við mig um síðustu kaup mín. Það er ekki nóg með það að ég sé orðin fastakúnni á videóleigunni heldur líka í harðfiskshorninu í Kolaportinu. Hæfir þetta 23 ára gamalli stúlku?

2.7.04

Fíkn getur orðið að falli

Þrátt fyrir það að vera ekkert kvikmyndagúrú er ég mjög dyggur gestur á myndbandaleigu hverfisins og hef verið það gegnum árin. Þegar eigendur leigunnar afgreiða mig þarf ég yfirleitt ekki að gefa upp kennitölu og mér er heilsað kumpánlega. Ástæða tíðra heimsóna minna á leiguna síðastliðin ár hefur samt ekki verið sú að ég hafi leigt margar kvikmyndir, nei, ég datt í sjónvarpsþætti. Fyrst var það Friends en þegar ég var búin að sjá svo að segja alla þáttaröðina (og vinir mínir löngu búnir) skipti ég yfir í Sex and the City og má segja að þátturinn sé orðin hálfgerð fíkn hjá mér. Við systur förum iðulega saman, horfum á kvikmyndirnar og ákveðum að fara yfir í þættina (smekkur minn fyrir væmnum sunnudagsmyndum eða þýsk-norskum drömum og smekkur hennar fyrir kappakstursmyndum fellur illa saman). Þá tekur við sérstök athöfn; Sigga les aftan á þættina þar sem ég er haldin minnisleysi á alvarlegu stigi og get ekki munað hvort ég er búin að sjá þætti eða ekki. Oftar en ekki tek ég upp spóluna sem við horfðum síðast á (tveimur dögum fyrr kannski) og spyr Siggu hvort þetta sé ekki eitthvað sem við eigum eftir að sjá. Fíknin stigmagnast samt. Það má sjá í því að síðustu daga hef ég rifist í starfsmanni leigunnar og óskað eftir því að þeir panti fleiri þætti. Í bræði minni hef ég jafnvel misst spólur á gólfið og brotið þær. Þegar ég svo kem með spólur og bið starfsmennina að athuga hvenær ég tók þær síðast held ég að þeim votti af virðingu sem borin var fyrir mér áður fyrr sé fleygt út um gluggann.

1.7.04

Gleðitíðindi

„Hress” er farinn að blogga á ný. Skemmtileg frásögnin hans af grillveislunni.

23.6.04

Páll Heimisson

Held þetta verði svona þema...búin að tala um Catiu og nú tek ég Pál fyrir. Tilfinningar mínar til hans einmitt núna eru aðeins blendnari.

20.6.04

Catia

Hún er nú alveg yndisleg stúlka hún Catia Andrea. Eruð þið ekki sammála?

18.6.04

Cambios

Estoy empezando a tener miedo. Mi gusto ha cambiado drasticamente en menos de un año. ¿Alguien me puede ayudar, por favor?

Hæ, hó og jibbíjei og jibbbíííííí jeeeii

..það er kominn sautjándi júní. Engu að síður virtust fáir í hátíðarskapi miðað við fjöldann (fámennið) í miðbænum. Kannski er ég bara orðin gömul og vitlaus en ég man nú varla eftir því að hafa gengið um bæinn á þjóðhátíðardegi og þótt fátt manna á staðnum. Miðað við það að ekki var rigning er ég undrandi. Ætli fólk hafi fremur haldið sig heima og horft á Sex and the City? Annars átti ég bærilegan 16. júní. Nordjobb og Snorraverkefnið héldu saman íslenska veislu og þökk sé Osta- og smjörsölunni, Mjólkursamsölunni og Ölgerðinni gátum við boðið upp á glæsilegar veitingar. Vestur-Íslendingarnir komu líka með sælgæti með sér og líklega hafa allir getað borðað fylli sína af góðgætinu sem þau renndu svo niður með öli. Nokkrir tóku sig til og skemmmtu með söng og hljóðfæraslætti og svo hlustaði fólk á tónlist, spjallaði og drakk og hélt svo í miðbæinn á staðarölt. Ég varð eftir ásamt Ösp, Ingu og Silju sem hjálpuðu við frágang og við héldum svo í bæinn (reyndar án Aspar) og settum met í fjölda heimsóttra staða. Þar eð Silja er á leið úr landi vildi hún heimsækja marga bari og diskótek og fékk stúlkan ósk sína uppfyllta. Þessar heimsóknir breyttu skoðun minni á miðbænum. Nellýs er ekki lengur ógeðslegasti staður bæjarins í mínum huga, nú hefur De palace tekið við. OJJJJJ! Viðbjóðslegur staður. Kvöldið endaði svo með því að ég fann litlu systur og beið eftir henni dágóða stund og við fórum svo heim. Í dag þjáist ég af óútskýranlegum bakverki....:(

15.6.04

sur sur sur

Ég er ansi hrædd um að eitthvað þurfi að gerast í lífi mínu. Ein ástæða þess er líklega sú að ég geri ekki annað en að vinna, borða, sofa og glápa á video (nánar tiltekið Sex and the City þætti, margar hverja í þriðja sinn). Önnur er sú að ég er farin að eiga ömurlega daga, daga sem ég er fúl og mig langar helst að öskra að fólki. Ég læt þetta vitanlega bitna á vesalings systur minni og stundum íhuga ég að vera reið út í þjóðir. Held samt að það sé ekki lausnin. Ætla að prófa annan möguleika...stuttan blund í lyfturúminu mínu. Sjáum hvort það dugar ekki...

14.6.04

Sumarstarf -tímabundið-

Heimili í Austurbæ leitar að hraustum einstaklingi til að taka að sér þrif. Um er að ræða tímabundið verkefni en boðið er upp á nokkuð frjálsan vinnutíma. Æskilegt er að viðkomandi sé í góðu líkamlegu ásigkomulagi og ekki viðkvæmur fyrir slæmri lykt. Nausðynlegt er að starfinu sé lokið fyrir sunnudag 20. júní næstkomandi. Nánari upplýsingar gefa Alma og Sigríður í S. 5534059.

1.6.04

Úff hvað það var gott að fá sér að borða. Ég var orðin hræðilega svöng og þessi leikfimitími sem ég fór í jók bara á matarlystina. Annars verð ég að segja að konan sem reyndi að púla mér áfram í dag er með þeim fyndnari sem orðið hefur á vegi mínum. Fyrir utan það að öskra „bikini, bikini, stelpur!”, þreyttum leikfimiselum til hvatningar þá spyr hún hvort við höfum borðað of mikið um helgina og minnir á Megaviku Domino´s. Hún sagði okkur líka frá því að hefði hún verið fimmtán árum yngri hefði hún framið mannrán þegar pizzasendillinn kom með flatbökuna til hennar, svo sætur hafi hann verið....ég sem hélt að Palli væri hættur að vinna..

30.5.04

Í gær átti ég fremur viðburðarríkan dag...fyrst yndislegar átta klukkustundir í Á.T.V.R. og svo skellti ég mér heim til að dressa mig upp og borða pizzu. Eftir misheppnaða fegrunartilraun mína héldum við Sigríður í Borgarleikhúsið þar sem við hittum Ölmu ömmu, Evu frænku og Elsu. Tilefnið var að við ætluðum að sjá söngleikinn Chicago. Einhverra hluta vegna var ég örlítið þreytt í leikhúsinu og fór svo að ég dottaði a.m.k. þrisvar sinnum, þar af einu sinni í rosastuðlagi. Mér fannst þetta einfaldlega ekki skemmtileg saga þótt dansarar og leikarar hafi staðið sig eins og hetjur. Tónlistin fannst mér heldur ekkert sérlega skemmtileg þótt allir hafi sungið vel. Ekki samt segja ömmu, hún bauð okkur nefnilega.

Eftir leikhúsið héldum við systur í afmælisboð til Valgerðar (Til hamingju með daginn, Valgerður!) þar sem fjöldi gesta hafði safnast saman til að fagna þessum sérstaka degi. Ég skemmti mér vel við kjaftaskap, magadans og bananabrauðsát en við héldum svo nokkrar af stað niður í bæ. Hvítasunnudagur er í dag svo að flestallir skemmtistaðir lokuðu klukkan þrjú. Við létum það samt ekki á okkur fá og reyndum að njóta þeirra fáu mínútna sem okkur buðust, kíktum á Prikið og 11 (ellefu) og gengum svo aðeins um. Ég held ég hafi sjaldan séð/hitt svona marga sem ég þekki/kannast við á jafnstuttum tíma. Við hittum auðvitað tvo nordjobbara og „tvíburabróður” annars þeirra, Auði, Kollu, Pétur, sá rassapönka, Vesturbæjarrollinga og einn þriðja af árganginum mínum í Langholtsskóla. Og já...ég hitti líka gamalt blint stefnumót, allt Auði að þakka. Ég er ansi hrædd um að dagurinn í dag verði ekki jafnviðburðarríkur. Á eftir þarf ég að fara að vinna, ætla að þvo þvott og laga aðeins til. Fúlt...:(

Ya no escribo nada en mi blog...una de las razones es que mi amgia estuvo de visita y el tiempo libre que tenía usé con ella. Otra es el trabajo que ocupa bastante de mi tiempo y me hace bastante estresada. Ya ha venido una parte de los nordjobbers que trabajarán aquí este verano, todos muy majos. El martes será un día bastante grande en el trabajo porque este fin de semana vendrán aproximadamente diez personas que todas estarán en la oficina ese día. ¡Qué aburrida soy! Hablo constantemente de mi trabajo. :(

Perdí la boda del príncipe español. Aquí no lo pusieron en la tele pero mi madre (una adicta a la televisión) la encontró en la televisón danesa creo y lo vio. Según ella llovía tanto que tuvieron que llevar a la pareja en coche en vez de dejarles cruzar la manta roja. También me dijo que plantaron áboles en los lugares de los atentados en Madrid, la misma cantidad de árboles que víctimas. A mí me gustaría ver algo de esa boda...¿alguien la grabó?

23.5.04

Dauði og djöfull,
dauði og djöfull,
dauði og djöfull...
eða kannski ekki?

18.5.04

Rósa er að koma í heimsókn, ekki samt Rósa frænka eins og sumir hafa misskilið. Það verður eflaust gaman að fá hana en forvinnan er ekki skemmtileg. Síðan að prófum lauk (með smápásu á laugardagskvöldið enda þjóðhátíð júróvisjónaðdáenda) hef ég hef ég verið í þrælabúðum. Ég hóf daginn á því að fara í strætó til að hjálpa pabba við að ná í bílinn okkar upp í Kópavog. Svo keyrði ég með honum, fór með honum í búð og fleira. Klukkan fjögur hófst samt púlið. Rósa er jú afar snyrtileg stúlka og því þurfti ég að taka til í herberginu mínu og æi úr því að ég var að þessu, mála aðeins yfir gluggann í herberginu. Þetta tók LANGAN tíma en mömmu tókst samt að plata mig út í að athuga aðeins gluggann á baðinu og mála yfir hann. Glugginn var svo ógeðslegur svo að á endanum pússaði ég hann og málaði og hætti ekki fyrr en klukkan ellefu um kvöldið, uppgefin. Í gær kom ég svo heim eftir vinnu og sama tók við, þrif á öllum veggjum á baðherbergi, pússun á baðkarinu og svo mætti lengi telja. Nú þakka ég bara fyrir mér að við fáum enga þjóðhöfðingja í heimsókn á Kleppsveginn.
Ahora que he terminado los examanes estoy más ocupada que antes, no puedo dormir las ocho horas que necesito cada noche y estoy haciendo cositas todo el rato. Casi quiero volver a la época de los examenes en que pude levantarme a las diez de la mañana y estar vaga. Ya no.....

12.5.04

Eftirfarandi sá ég á www.esctoday.com: „Several Operación Triunfo stars will support Ramón by attending Spanish Eurovision fiestas, organised all over Europe on 15th May, the night of the final of the Eurovision Song Contest. In seven European capitals, the Eurovision Song Contest and the coverage by TVE will be shown on big screens. To crown it all, an Operación Triunfo star will attend each of the parties to give a performance. You can find a Eurovision fiesta in following cities: Paris with Ainhoa Brussels with Alejandro Berlin with Álex Oslo with Gisela Stockholm with Hugo London with Tena Dublin with Vega" Ég er hræðilega sár að þeir skilji Reykjavík útundan. ÉG hefði alveg verið til í að fá...alla nema Hugo hingað og hefði dansað villt í „fiestunni" hans. Skamm skamm !