16.2.04
Ég ákvað að flýja land um helgina til að komast hjá því að þurfa að velja mér deit á Valentínusardaginn. Ferðinni var heitið til Stokkhólms, á FNUF-“seminar”. Við (Freyja, Jónas og ég) flugum út á föstudagsmorgun, hvert öðru þreyttara og skoðuðum allt fræga fólkið í Leifsstöð. Sigrún Þöll hefði sko unnið frægumannakeppnina hefði hún verið með okkur. Í okkar flugvél var reyndar bara eitt frægmenni enda vélin hálftóm og við með eina sætaröð fyrir hvert okkar. Frábært! Föstudeginum var eytt í H&M, ég er viss um að við vorum nokkra klukkutíma þar inni. Fólk má því eiga von á að vortíska H&M verði sýnd á strætum Reykjavíku næstu daga. Við hittum Heiðu, vinkonu Jónasar, og við fjögur fórum saman út að borða um kvöldið. Sá var sko sniðugur, staðurinn sem við fórum á. Þetta var kínverskur hlaðborðsveitingastaður þar sem maður gat valið úr tilbúnum réttum en einnig blandað saman fersku grænmeti, kjöti, fiski og núðlum að vild, skellt á það sósum og látið manninn í eldhúsinu steikja það. Þetta var sko sniðugt. Minn matur var reyndar svo sterkur að rjúka fór út úr eyrunum á mér. Jónas hinn sænski, Júnas öðru nafni, kom svo á veitingastaðinn og hitti okkur og við fórum öll saman út í langa leit að bar eða skemmtistað til að fara á. Meðalaldurinn á staðnum sem við fórum á náði engan veginn háum aldri mínum, lambakjötið sem þarna var átti ekki í neinum vandræðum með há kollvik eða lina rassa. Ekki óskemmtilegt það!
Morguninn eftir þurftum við að fara eldsnemma á fætur og halda til Emil-í-Kattholti-lands, þar sem fundurinn fór fram. Á fundarstað hittum við Svía og Finna sem einnig tóku þátt í fundinum. Fundurinn var ágætur, mjög fræðandi og frekar skemmtilegur. Þetta var eins konar undirbúningsfundur fyrir fundinn sem haldinn verður eftir hálfan mánuð. Um kvöldið var svo kvölddagskrá, ostar og rauðvín auk ósköp notalegrar stemmningar og morðingjaleiks. Á sunnudagsmorgun héldu fundarhöld svo áfram í smástund en svo þurftum við Íslendingarnir að halda heim á leið, ekki leiðinleg heimför þar sem ég fékk aftur röð fyrir mig og sat í sömu röð og tveir mjög myndarlegir menn. Sem sé góður endir á velheppnaðri ferð! Takk fyrir mig!