7.2.04

Jæja, föstudagskvöldið endaði í smádjammi og satt best að segja skemmti ég mér bara nokkuð vel. Fyrst um kvöldið hitti ég Freyju, Völlu, Ösp og Ásdísi á kaffihúsi og þaðan fórum við Ösp og Elías áfram á skrall. Vesalings Ösp var pínd áfram af frekum Langhyltingi (aka ég) og drifin í dansinn á svitaballi Röskvu á Grandrokk. Þar hittum við Eddu, Möggu og Jónas Magnússon og komumst að því eftir villtan dans að samkoman bar nafn með rentu. Þegar heim var komið byrjuðu samt ævintýrin. Alma átvagl var vitanlega svöng eftir að hafa hrist spikið í takt við tónlistina í klukkutíma eða svo og hóf því fæðuleit. Nei, ísskápurinn bauð ekki upp á mikið, ekki heldur skápurinn fyrir ofan matarborðið svo að Alma ákveður að kíkja í stóra háa skápinn. Sá skápur ákvað að gera árás með sultukrukku, sem skoppaði út á gólf og vakti mömmu. Þarf vitanlega ekki að taka fram að sultukrukkan mölbrotnaði og ég eyddi drjúgri stund í að þrífa upp sultu og glerbrot (fremur leiðinleg blanda btw) og plokka glerögn úr hælnum á mér. Samlokan sem ég fékk mér á endanum smakkaðist samt vel.