24.11.05

Fegurð ó fegurð

Margir segja að maður læri ekkert af sjónvarpinu en því er ég algjörlega ósammála. Ég er dyggur aðdáandi fyrirsætuþáttarins America´s Next og af þeim þætti dreg ég flestan minn lífsfróðleik. Tyra Banks er svo góð fyrirmynd ungra kvenna, enda hefur hún sko mátt berjast til að komast á toppinn. Þessar æðislegu myndir sem koma á milli atriða sýna sterka konu og öskur hennar á einn keppandann sýna að hún er sko hörð í horn að taka og lætur ekki vaða yfir sig en er samt með mjúkt hjarta þarna. Svo gefur hún svo heilbrigð ráð varðandi megrunarkúra, allt í lagi að fá sér hamborgara, sleppa bara brauðinu. Hlýtur að vera góður hamborgari. Eftir að hafa horft á þrjár seríur af þættinum er ég fullnuma í fyrirsætufræðum, það er nokkuð ljóst, og bíð bara eftir að komast á samning. Einhver? Í kvöld er svo Herra Ísland og ég er ekki lítið spennt. Spenningurinn hófst aðallega vegna hinna geysiskemmtilegu kynninga á piltunum, sem ekki eru lítil efni; sætir, vel vaxnir og ekki lítið klárir. Verð að hætta, er farin að horfa.