Ég hefði ekki haldið að Háskólinn í Reykjavík væri á álíka lágu plani og ég en ég komst að öðru í gær. Vinstúlka mín hafði hvatt mig og aðra óspart til að mæta á litla ráðstefnu, sem haldin var í glæsihýsum þessarar ágætu menntastofnunar. Þrátt fyrir að vinstúlkan hafi mælt sérstaklega með fyrirlestri um endurskoðun, ákvað ég ásamt hinni að skella mér að hlusta á ræður um Menningarlæsi. Þótti mér þetta áhugavert, en bjóst við viðskiptalegri nálgun og var því ekki viss um að þetta myndi höfða til mín...þar til maðurinn sem stjórnaði fyrirlestrunum tilkynnti að þetta sem talað yrði um hjálpaði ekki aðeins til að ná samningum í viðskiptum, heldur einnig í eðlilegum samskiptum, til að mynda til að ná sér í eiginmann. Glaðnaði heldur yfir Ölmu Sigurðardóttur. Nú er ekki vit í öðru en að deila þessum ráðum fyrirlesaranna með lesendum, sem eru áhugasamir um hjónabönd við útlendinga:
-Það þýðir ekki að búast við því á ferðum þínum til Arabalanda í leit að karlmanni að klósettpappír sé á öllum stöðum. Vendu þig á vatnið til að skola rassinn eða taktu með þér rúllu!
-Nauðsynlegt er að leyfa Kínverjum að halda að þeir séu miðja alheimsins og muna að þeir eiga sér langa 5.000 ára sögu. Borgar sig því ekkert að hreykja sér af því við kínverska pilta að vera frá THE COOLEST COUNTRY IN THE WORLD. (úff, vona reyndar að enginn geri það nokkurn tímann)
-Ef illa gengur að ná samningum við Austur-Evrópumenn (til dæmis brúðkaupssamningum) getur oft borgað sig að berja í borðið og láta sem maður sé hættur við allt. Þá minnkar stundum í þeim stífnin.
-Svíar vilja ekkert tjitttjatt, bara ganga beint í samningaviðræður. Þá geri ég ráð fyrir að það borgi sig bara að spyrja hreint út hvort viðkomandi vilji fara að kela, ekkert vera að kynna sig eða spjalla áður.
-Á Indlandi þykir það merki um velmegun að vera vel í holdum. Fyrirlesarinn lýsti því fyrir okkur að samstarfskonur hennar hafi skipst á að koma með mat handa henni í hádeginu og þær hafi aldrei verið kátari en þegar hún tók að blása út og sagði að nú yrði mamma hennar sko ánægð. Geri ráð fyrir að karlmenn vilji líka útblásnar konur þar á bæ.
-Ef konur hyggjast ná sér í Marokkóbúa, má gera ráð fyrir að þurfa að fara allt að þrjár ferðir til landsins áður en samningum (karlmanni) er náð. Í þessum ferðum snýst allt út á að borða lambakjöt og kúskús.
-Mikilvægt er að drekka staup með heimamönnum í Kína til að ná árangri.
Vona ég að ráð þessi muni hjálpa vinstúlkum mínum, sem hyggjast leita út á við í karlmannsvali sínu.