Mikil eftirvænting hafði verið í mér alla vikuna þar eð ferðinni var heitið á Selfoss síðastliðinn föstudag. Ég gat ekki beðið eftir að sjá mannlífið í bænum; ljóshærða pilta með ræktaðan vöxt á gulum hondum og ljóshærð silíkonfljóð með brúnkukrem. Taka þarf fram að, já, ég hafði staðlaðar hugmyndir um skemmtanalíf þessa höfuðstaðs Suðurlands áður en ég lagði af stað og satt best að segja breyttust þessar hugmyndir mínar lítið í ferðinni. Það fyrsta sem við sáum þegar við keyrðum inn á bílastæðið við Hornið á Selfossi (einnig þekkt undir nafninu Samkaup hjá utanbæjarmönnum) var gul honda og ljóshærður eigandi hennar.
Kveðjuveisla Katrínar tókst með eindæmum vel þótt við hefðum raunar nokkuð rottað okkur inni í eldhúsi og rætt um daginn og veginn. Freyja varð afar kát og ákvað að fallegu kjúllaspariskórnir hennar hæfðu ekki næturlífinu á Selfossi, í staðinn skellti hún sér í rauð vaðstígvél. Með allri virðingu fyrir Selfossi og Selfossbúum, þá hef ég séð hressilegra skemmtanalíf. Á kaffihúsi kenndu við Júdas var Einar Ágúst júróvisjónstjarna að spila við daprar undirtektir hinna þriggja sem þar voru. Hann virtist þó afar kátur að fá liprar dömur (öðru nafni Freyja og Magdalena) á dansgólfið að skekja sig við villta tóna hans og hafði einmitt orð á því. Í Pakkhúsinu var lífið meira enda spilaði gleðisveitin Oxford undir dansi. Þar var raunar nokkuð mikið af fólki og hitti ég meðal annars Önnu Siggu, fyrrum vinnufélaga úr Búrfelli. Ég var glöð að sjá hana og svipta hulunni af leyndardóminum um núverandi starf hennar. Mig hafði nefnilega dreymt fyrir einhverjum mánuðum eða ári síðan að hún starfaði sem trukkabílstjóri og eftir það langaði mig svo ægilega að vita hvort ég hefði rétt fyrir mér. Það kom á daginn að Anna er mjólkurbílstjóri, ég ætti kannski að opna skyggnilýsingastofu.
Ferðin á Selfoss svalaði ekki aðeins forvitni minni um mannlíf bæjarins heldur einnig útileguþörf sumarsins, enda gistum við í tjaldi í garðinum hjá Kötu skötu og vöknuðum í svitabaði á laugardagsmorgun og skelltum okkur á KFC. Þeir eiga hrós skilið fyrir miklu betri franskar kartöflur en í Reykjavík. Látum það vera lokaorðin.